Hvað vakir fyrir okkur?

Þrettánda áskorunin er tungumálið, hvaða mál við erum að flytja.

„Íslenskan er stórkostlegt tungumál, fullt af fallegum orðum og orðmyndum en hvernig erum við að nota hana? Hvað segjum við og hvernig segjum við það? Þetta eru meðal annars spurningar dagsins í þrettándu áskoruninni: Tungumálið og orðanotkunin. Hvað er það sem vakir fyrir okkur þegar við ræðum við aðra í kringum okkur? Notum við orð sem eru heil, heilandi, heillandi? Eða varasöm orð í tregðu og viðnámi? Við búum yfir gríðarlegu valdi þegar við notum orðin sem í tungumáli okkar býr og tungan er bæði beitt og mjúk. Vandið tungu ykkar í dag og veitið því athygli hvaða mál þið eruð að flytja: Eruð þið skilvirk og markviss eða tvíræð?

Orð okkar hefur vægi, alltaf. Það er heilagt og þegar við höldum það þá erum við trúverðug. Veitum tungumáli okkar athygli í dag, hvað við segjum og hvernig,“ segir Guðni Gunnarsson eigandi Rope Yoga-setursins. 

Fyrir alla sem taka þátt í áskoruninni býðst opinn hópur Rope Yoga-setursins á Facebook, einnig eru æfingar öllum til handa á heimasíðu Rope Yoga-setursins.

mbl.is