Hef mikla trú á að fólk setji heilsuna í forgang

Heilsublað
Heilsublað Kristinn Magnússon

Grétar Ali Khan, einn af eigendum Granda101, segir vinalegt á stöðinni og mælir með góðri hreyfingu, hollu mataræði og að setja fókus á svefn til að virka í lífinu. 

Grétar Ali, eða Ali eins og hann er yfirleitt kallaður, hefur verið viðriðinn íþróttir allt sitt líf en hann æfði lengst af fótbolta og samkvæmisdans. Hann er fæddur og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur en býr nú á Seltjarnarnesi með eiginkonu sinni Jakobínu Jónsdóttur og þremur börnum þeirra.

„Yfirleitt er janúar mjög stór mánuður í heilsuræktargeiranum en þetta ætlar að verða sérstakur janúar eins og í fyrra. Nú er maður bara svolítið að fylgjast með ástandinu og að vona að allt starfsfólkið á Granda101, ég sjálfur líka, lendi ekki í sóttkví eða einangrun. Það eru margir smitaðir í samfélaginu, ég vona að við sleppum eða lendum heppilega í þessu, svo við náum að halda starfseminni gangandi næstu daga.  

Ég hef verið ótrúlega spenntur fyrir komandi ári og hef mikla trú á að fólk setji heilsuna í forgang. Ég hef mikla ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að koma sér af stað í átt að heilbrigðara lífi og koma því inn í lífsstílinn.“

Heilsublað
Heilsublað Kristinn Magnússon

Hvernig hugar þú að eigin heilsu?

„Heilsan, bæði líkamleg og andleg, skiptir mig öllu máli. Ég hreyfi mig nánast á hverjum degi en mér finnst það ekki síður hjálpa sálinni en líkamanum. Ég hlusta samt alltaf á líkamann og stjórna ákefðinni eftir því í hversu góðu standi skrokkurinn er hverju sinni. Þá reyni ég að mæta og taka léttari æfingu eða „active recovery“-æfingu.“

Setur þú þér markmið tengd hreyfingu og formi svona í byrjun ársins?

„Í sjálfu sér ekki. Ég reyni eftir fremsta megni að halda mér í formi og líða vel allan ársins hring og hef það alltaf að markmiði að hreyfa mig eitthvað daglega þó svo að hreyfingin geti verið í ólíku formi.“

Hvaða mataræði aðhyllist þú?

„Ég er mjög hrifinn af hreinu mataræði (e. paleo diet) og reyni að fylgja því. Þá reyni ég eftir fremsta megni að sleppa fæðu sem er mikið unnin og vinn meira með hreina fæðu eins og kjöt, fisk, egg, ávexti og grænmeti. Ég hef verið að fylgja 16/8-föstunni lengi og finn að það hefur gríðarlega góð áhrif á líkama minn. Þá hef ég líka aðeins prófað mig áfram í lengri föstum (24-72 tíma) til þess að hreinsa og núllstilla mig.“

Blandar saman ólíkum æfingakerfum

Hver er grunnurinn að þínu æfingaformi?

„Hjá okkur á Granda erum við með þrjú mismunandi æfingakerfi.

Hreysti101 þar sem áhersla er lögð á lyftingar (ólympískar og kraftlyftingar), fimleikaæfingar og úthaldsæfingar.

Þrek101 þar sem áhersla er lögð á lengri úthaldsæfingar þar sem mikið er unnið með eigin líkamsþyngd og einfaldar styrktaræfingar.

Styrk101 þar sem aðaláherslan er sett á alhliða styrk. Hnébeygjur, réttstöðulyftur, pressur og tog í ólíku formi.

Persónulega finnst mér best að blanda þessum æfingakerfum saman. Það hefur hjálpað mér að komast í betra form og að halda líkamanum í góðu standi. Svo er líka alveg ótrúlega skemmtilegt að hafa æfingarnar fjölbreyttar og það heldur mér betur við efnið.“

Skiptir svefn og hvíld þig miklu máli?

„Svefn hefur gríðarlega mikil áhrif á andlega og ekki síður líkamlega heilsu. Góður svefn skilar sér í meiri orku og afkastagetu yfir daginn. Svefn er einn af þremur mikilvægustu hlekkjunum í heilbrigðu lífi ásamt mataræði og hreyfingu. Þetta vinnur allt saman og ef eitt virkar ekki hefur það áhrif á hitt. Þannig upplifi ég það með svefninn. Ef hann er ekki góður hefur það áhrif á mataræðið og afkastagetuna á æfingum.“

Mikilvægt að makinn sé á sömu línu

Hvernig aðlagar maður vinnu fjölskyldulífi og æfingum?

„Það getur verið ansi krefjandi að aðlaga vinnu og fjölskyldu enda upplifa það líklega flestir sem eiga eigið fyrirtæki að það er mjög sjaldan frí. Þannig er til dæmis flestum kvöldum eytt í vinnu þegar börnin eru sofnuð. Varðandi æfingarnar þá bara látum við það ganga. Við Jakobína reynum yfirleitt að stilla okkur þannig að við komumst bæði á æfingu einhvern tíma yfir daginn. Ef það gengur ekki hoppum við stundum inn í bílskúr og tökum smá æfingu þar. Ég er líklega heppinn með það að vinnan mín er í heilsu- og líkamsræktarstöð og ég á konu sem skilur það mjög vel hvað mér finnst mikilvægt að hreyfa mig daglega enda deilum við þeirri sýn.“

Nú hef ég heyrt að þið séuð eins og ein stór fjölskylda í fyrirtækinu ykkar, þá starfsfólk og þeir sem æfa hjá ykkur. Hvaða kemur sú hugmyndafræði?

„Já, við erum tvær fjölskyldur sem eigum stöðina. Jakobína, konan mín, og tvíburasystir hennar, Elín, og svo við Númi, eiginmennirnir. Við tölum alltaf um starfsfólkið og meðlimina á Granda sem hina fjölskylduna okkar enda erum við lítil og persónuleg stöð og þekkjum nánast alla sem æfa hjá okkur. Það má alveg segja að hjá okkur ríki nokkuð heimilisleg stemning í góðu samfélagi þar sem allir eru að vinna að því sama, sem er að hugsa um heilsuna og hafa gaman.“

Ætlar að hreyfa sig það sem eftir er

Æfir þú allan ársins hring eða tekur þú þér hvíld inn á milli?

„Ég reyni að hreyfa mig flesta daga, allan ársins hring. Að sjálfsögðu hlusta ég á líkamann ef hann er þreyttur en þá skelli ég mér stundum í göngutúr, hjólatúr eða sund með fjölskyldunni.

Það eru algjör forréttindi að geta hreyft sig og ég ætla að nýta mér það eins lengi og ég get.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál