Ekkja Connerys 93 ára í fantaformi

Micheline Connery ásamt ömmubarni sínu, Saskiu Connery.
Micheline Connery ásamt ömmubarni sínu, Saskiu Connery. Skjáskot/Instagram

Hin 93 ára gamla Micheline Connery, ekkja hins látna stórleikara, Sean Connerys, er stödd á Bahama-eyjum ásamt barnabarni sínu, Saskia Connery, um þessar mundir.

Frú Micheline Connery ber aldurinn einstaklega vel og stal svo sannarlega athyglinni þegar ömmubarnið, Saskia, deildi sundfatamyndum af þeim saman. Segja má með vissu að Micheline líti ekki út fyrir að vera orðin 93 ára gömul en hún virðist ansi fim og fjörug miðað við þá aldurstölu. 

Micheline var óhrædd við að stilla sér upp við hlið ömmubarnsins þar sem þær voru í bátsferð við strandlengjuna á einkaeyjunni, Rose Island. Sú gamla klæddist fallegu blúndubikiníi sem var ljósblátt að lit en ömmubarnið skartaði svörtu hlýralausu bikiníi.  

Saskia birti myndafærsluna á Instagram-reikningi sínum og aðdáendur Connery-fjölskyldunnar áttu ekki til orð yfir góðu líkamlegu ástandi ömmu hennar. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá. 

„Bátsferð með bestu vinkonu minni. #93 eða 39?“ skrifaði Saskia við myndirnar og augljóst að amma hennar er henni ansi dýrmæt. 

Micheline og skoski stórleikarinn Sean Connery eiga sér langa sögu en þau höfðu verið gift í 45 ár þegar hann lést. Sean Connery eiga allir að þekkja en hann var mikil goðsögn í heimi kvikmynda og lék til að mynda njósnarann James Bond í fyrstu fimm myndunum. Sean Connery var níræður þegar hann lést í október árið 2020.  

mbl.is