„Margir Íslendingar með helst til háan blóðsykur“

Lukka Pálsdóttir.
Lukka Pálsdóttir.

Lukka Pálsdóttir rekur fyrirtækið Greenfit sem sérhæfir sig í heilsufarsmælingum. Hún segir að í niðurstöðum þeirra liggi það fyrir að mjög margir séu með of háan blóðsykur og það komi á óvart hve margt ungt íþróttafólk sé í þeim hópi. 

Lukka hefur góða tilfinningu fyrir því hvernig fólk hugsar um heilsuna þessa dagana. Hún segir að fólk sé orðið meðvitaðra að góð heilsa snúist um marga þætti. Hún telur að geðheilsa verði meira áberandi á næstu árum.

„Mér finnst fólk vera farið að fara meira út í náttúruna, stunda hreyfingu til að njóta og horfa á heilsuna bæði á heildrænan hátt og til langs tíma. Ef til vill get ég lýst því best með því að vitna í yfirlýst markmið okkar í Greenfit en við viljum setja stefnuna á að komast á ólympíuleika 100 ára. Þá eigum við við það að við viljum byggja upp heilbrigði til langs tíma og geta notið útiveru, hreyfingar og góðs félagsskapar fram á síðasta dag.

Ég held líka að andleg heilsa sé loksins að komast á blað og hljóta viðurkenningu sem undirstaða góðrar líkamlegrar heilsu. Við erum ein heild og tengingin á milli líkamlegra kvilla og geðheilbrigðis eru líklega meiri en við höfum viljað viðurkenna hingað til.

Ég hef trú á að það verði stórkostlegar framfarir á sviði geðheilsu á næstu árum og áratugum. Við erum að sjá atriði koma upp á yfirborðið núna í löndum í kringum okkur sem verða án efa mikið í umræðunni hér líka á næstu árum,“ segir Lukka.

Þarf að hafa áhyggjur af því sem gerist seinna?

Þegar talið berst að blóðsykrinum segir Lukka að það sé vinsælt núna að vera með sílesandi blóðsykurmæla. Hún mælir þó með því að fólk fái fagfólk til að lesa úr niðurstöðunum því blóðsykur eigi til að sveiflast til.

„Þetta getur verið mjög lærdómsríkt og hvetjandi en mér finnst þó afar mikilvægt að fólk fái vitneskju um hvernig á að lesa úr gögnunum. Þó að of hár blóðsykur geti haft slæm áhrif á heilsuna þá er ekki endilega æskilegt að hafa flata línu allan sólarhringinn. Það þarf líka að hafa í huga að þarna er bara verið að mæla eina breytu, þ.e. magn sykursameinda í blóði. Líkaminn er margslunginn, við erum ein heild og margir þættir hafa keðjuverkandi áhrif hver á annan. Sem dæmi má nefna að insúlín (sem hækkar í kjölfar hækkunar á glúkósa) hefur fjölmörg hlutverk í líkamanum. Okkur hættir til að festast í því að tala bara um þekktasta hlutverk þess sem snýr að blóðsykurstjórnun en með því að halda blóðsykri stöðugt niðri og þar með insúlíni getum við farið á mis við önnur gagnleg áhrif insúlíns eins og til dæmis góð áhrif til lækkunar LDL-kólesteróls. Það er því alltaf gott að stíga varlega til jarðar og huga að samhengi hlutanna og heildarmyndinni,“ segir hún.

Eru allt of margir með of háan blóðsykur en vita ekki af því?

„Já, það eru ansi margir Íslendingar með helst til háan blóðsykur og við í Greenfit teljum afar mikilvægt að fólk fái að vita af því, það læri að þekkja helstu gildi og fái upplýsingar og fræðslu um hvernig við getum haft áhrif og komið í veg fyrir vandann áður en hann verður of stór. Við heyrum það að sumum innan okkar hefðbundna heilbrigðiskerfis finnst við vara fólk við snemma. Það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af einhverju sem gerist ekki fyrr en eftir áratug eða jafnvel lengri tíma. En við teljum að það sé gagnlegt að fræða og upplýsa. Það er valdeflandi að þekkja styrkleika og veikleika sína og vita að maður getur sjálfur haft gríðarlega mikil áhrif á heilsuna.“

Úrið lætur vita!

Hver eru einkenni þess að blóðsykurinn þinn sé of hár?

„Margir finna engin einkenni. Aðrir finna að þeir eru viðkvæmir fyrir sykri. Þegar við tölum um sykur þá erum við þó að tala um einföld unnin kolvetnarík matvæli almennt en ekki bara hvítan strásykur. Undir þennan flokk falla líka sætir drykkir, kökur, kex og jafnvel brauð. Sumir finna einkenni en átta sig ekki endilega á þeim fyrr en við förum að ræða málin og skoða. Nú er komin á markað svo flott tækni í úrum, hringum og ýmsum aukahlutum sem mæla heilsutengda þætti. Sjálf sé ég alveg skýrt merki í Garmin-úrinu mínu þegar ég borða óhóflegt magn af uppáhalds súkkulaðinu mínu, sem gerist oftar en ég vil viðurkenna,“ segir hún og hlær og bætir við:

„Þá mælist aukin streita í gegnum hjartsláttarmælingu. Hvíldarpúlsinn hækkar örlítið og hjartslátturinn verður minna sveigjanlegur, þ.e. svokallað „heart rate variability“ lækkar marktækt. Líðanin er svo yfirleitt í takt við það sem úrið sýnir, ég sef aðeins verr, er þreyttari daginn eftir og með meiri löngun í meiri sætindi. En það er einmitt vegna þess að margir finna engin einkenni sem það er mjög gagnlegt og að mínu mati nauðsynlegt að mæla.“

Marga vantar D-vítamín

Hvað kemur á óvart þegar gildin í blóðinu eru skoðuð?

„Það kemur kannski helst á óvart hve margir eru lágir í D-vítamíni þrátt fyrir mikla fræðslu og áróður undanfarin ár um að passa upp á D-vítamín hjá okkur sem búum á svo norðlægum slóðum. Það hefur líka komið mér svolítið á óvart hve margir eru með hækkaðan blóðsykur og hve algengt það er hjá íþróttafólki og ungu fólki. Það virðist enn eima svolítið eftir af þeirri mýtu að þeir sem stundi hreyfingu þurfi að drekka dísæta drykki, sem ég held að sé mikill misskilningur. Skaðlegur misskilningur.“

Kemur það fólki á óvart þegar það kemst að því að það sé með of háan blóðsykur?

„Sumum kemur það þeim í opna skjöldu en aðrir vita nokkurn veginn hverju þeir eiga von á. Sumir verða jafnvel hissa þegar þeir komast að því að blóðsykurstjórnun þeirra er í góðu lagi og efast um að þeir eigi góðu tölurnar skilið. Yfirleitt er það þó þannig að þegar við förum að ræða málin þá veit fólk oft að það hefur unnið sér inn þá stöðu sem er uppi á teningnum. Það gildir í báðar áttir því þegar við sjáum flottar tölur þar sem allt er til fyrirmyndar þá er saga fólksins yfirleitt sú að þau leggi sig fram við að huga að heilsunni. Þess vegna erum við hjá Greenfit viss um að slagorðið okkar „heilsa er ekki heppni“ eigi við að langmestu leyti. Við höfum svo svakalega mikil áhrif á heilsuna með ákvörðunum okkar.“

Finnst þér fólk vilja laga það með mataræði eða vill fólk heldur bara töflur til að leysa vandann?

„Við búum við þann lúxus í Greenfit að til okkar leitar aðallega fólk sem hefur áhuga á að taka sjálft ábyrgð á eigin heilsu. Langflestir leita því til okkar fyrst og fremst til að taka stöðuna og setja sér markmið. Við finnum þó að fólk vill líka fá stuðning áfram eftir að niðurstöðurnar eru ljósar og þess vegna erum við stöðugt að leita leiða til að bæta þjónustuna. Nú erum við komin með hjúkrunarfræðing og næringarþerapista sem geta hjálpað fólki með næringu og mataræði auk verkfræðinganna okkar og íþróttafræðinga sem gera æfingaáætlanir byggðar á persónulegum niðurstöðum úr álagsprófi og hjálpa fólki að ná sem bestum árangri. Það eru því fáir sem eru að leita að skyndilausnum hjá okkur en auðvitað notum við töflur þegar með þarf en það eru þá aðallega vítamín og steinefni sem sýnt þykir að geri gagn þegar viðkomandi mælist með lág gildi.“

Ekki allt sem sýnist

Þegar Lukka er spurð út í mataræði segir hún að það sé alltaf best að borða það sem hefur ekki innihaldslýsingu.

„Það er alveg rétt að margir eru ekki alveg meðvitaðir um hvað er hollusta en það er að hluta til vegna þess að markaðurinn spilar á okkur og reynir að selja okkur ýmislegt undir merkjum hollustu. Gott dæmi er líklega ketóæðið. Þá voru ýmsar vörur merktar ketó sem hafa lítið með ketósu að gera og alls ekkert með heilbrigði að gera. En í rauninni er þetta frekar einfalt í grunninn. Matur sem hefur enga innihaldslýsingu er oftast góður fyrir okkur. Tómatur er mjög heiðarlegur og þarf engan langan lista af innihaldefnum. Hann er bara tómatur. Sama má segja um allt grænmeti, ávexti, kjöt, fisk, hnetur, ólífur, fræ. Þetta er grunnurinn að góðu mataræði. Óhollusta er frekar það sem kemur í pakka og hefur langa innihaldslýsingu.“

Hvaða ráð ertu með fyrir þá sem vilja lækka blóðsykurinn með mataræði? Er eitthvað sem fólk ætti alltaf að sleppa því að borða fyrir utan gúmmíbangsa og kleinuhringi?

„Við horfum alltaf á manneskjuna í heild og niðurstöður mælinganna. Svo skiptir auðvitað öllu máli hvað viðkomandi langar að gera og hvaða markmiðum hann eða hún vill ná. Fyrir þann sem vill lækka langtímablóðsykur þá ráðleggjum við yfirleitt kolvetnaminnkun en skoðum í sameiningu hverju mætti breyta. Byrjum til að mynda oft daginn á nýjum morgunmat sem gæti til dæmis verið eins einfalt eins og að skipta úr hafragraut með hrísmjólk yfir í chiagraut með möndlumjólk og bláberjum. Eða fá sér tvö egg í stað tveggja ristaðra brauðsneiða. Það er ekki eitt ríkismataræði sem hentar öllum og því byrjum við yfirleitt á að spyrja viðkomandi hvað hann sé vanur að borða og leggjum til breytingar út frá því. Við höfum stundum notað sírita sem mæla blóðsykur allan sólarhringinn til að hjálpa fólki að læra á sín eigin viðbrögð og hvaða matvæli henta þeim best. Þá viljum við sjá mildar sveiflur og/eða skammvinnar en markmiðið er ekki endilega engar sveiflur. Tækni eins og þessi er mjög upplýsandi og gagnleg en að mínu mati er líka nauðsynlegt að fólk með góða þekkingu lesi úr gögnunum og ráðleggi. Það er nefnilega stundum hætta á að við tökum hlutunum of bókstaflega og förum út í öfgar sem eru ekki endilega gagnlegar til lengri tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »