Allt sem umvefur þig ætti að hafa tilgang

Karítas Möller er hæfileikaríkur arkitekt sem starfar hjá Tvíhorf arkitektum.
Karítas Möller er hæfileikaríkur arkitekt sem starfar hjá Tvíhorf arkitektum. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Karitas Möller er arkitekt hjá Tvíhorf arkitektum. Hún hefur nýverið eignast tvíbura. Karitas ákvað að verða arkitekt eftir að hafa heimsótt húsið hennar Högnu Sigurðardóttur arkitekts á Bakkaflöt. Hún reynir á hverjum degi að lifa eftir heimspeki móður sinnar sem er að ganga jafnóðum frá hlutunum heima. 

Hvaða þýðingu hefur heimili fyrir þig?

„Heimilið er griðastaður þar sem allt sem umvefur þig ætti helst að hafa tilgang, veita gleði eða vekja áhuga – jafnvel allt í senn. Heimili þitt og þeirra sem þú kýst að deila því með ætti því að vera bæði uppspretta og andlag góðra tilfinninga og fallegra minninga. Ég elska að koma inn á heimili þar sem persónuleiki heimilisfólksins skín í gegn á þennan hátt.“

Hvað skiptir þig mestu máli heima fyrir?

„Að okkur í fjölskyldunni líði vel og allir geti notið sín, saman og í sitthvoru lagi.“

Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?

„Mjög líklega græna pottaplöntu og tilheyrandi blómapott. Maðurinn minn myndi reyndar giska á kertastjaka eða púða – ég kaupi víst mikið af svoleiðis. Enda þjónar það tilgangi og veitir mér gleði.“

Karítas kaupir mikið af púðum og kertastjökum, enda þjónar það …
Karítas kaupir mikið af púðum og kertastjökum, enda þjónar það tilgangi og veitir henni gleði. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Áttu þér uppáhaldshorn eða svæði í húsinu?

„Minn uppáhaldsstaður fer eftir tíma dags. Að kvöldi til er í uppáhaldi að setjast í sófann í stofunni, kveikja á kertum og lömpum í hverju horni og njóta síðustu vakandi mínútna dagsins í algjörri ró. Að morgni til er ég vakin af skælbrosandi og morgunhressum 7 mánaða tvíburasonum mínum. Því er lífsnauðsynlegi kaffibollinn klukkan 6.30 að morgni í fagurgræna eldhúskróknum við kertaljós líka uppáhalds – en bara um leið og ég er búin að ná sáttum við ókristilegan fótaferðatímann.“

Bakarðu heima?

„Já, ég geri það. Maðurinn minn bakar samt súrdeigsbrauð og ég sé um sætabrauðið.“

Eldhúsið er fallega gert upp með klassískum skápum sem hafa …
Eldhúsið er fallega gert upp með klassískum skápum sem hafa fengið nýtt útlit. Ljósmynd/Valgarður Gíslason
Eldhúsið er fallegt og einfalt.
Eldhúsið er fallegt og einfalt. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Hvernig kjarnar þú þig heima fyrir?

„Með því að setjast við fallega hringborðið sem ég erfði frá ömmu og afa, en það er um 120 ára gamalt með mikla sál og allmargar rispur. Ég sit og hugsa þar hlýlega til þeirra með gott kaffi í fallegum bolla, helst heimabakað bakkelsi á diski og sæki mér innblástur í hönnunartímarit.“

Þetta falleg hringborð erfði Karítas frá ömmu sinni og afa.
Þetta falleg hringborð erfði Karítas frá ömmu sinni og afa. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Áttu hugleiðslu, tilbeiðsluhorn?

„Fyrrgreint hringborð er við glugga sem snýr út að vatni. Beintenging við vatn og hvíta svani er ágætis hugleiðsla. Að sama skapi upplifi ég eins konar hugleiðsluástand við það að vera umvafin djúpgræna litnum í eldhúskróknum. Enda tók það bara um 30 litaprufur að ná rétta litatóninum.“

Það tók Karítas 30 litaprufur að finna rétta græna litinn. …
Það tók Karítas 30 litaprufur að finna rétta græna litinn. Í þessum krók kjarnar hún sig. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Ertu að tileinka þér eitthvað nýtt þegar kemur að heimilinu?

„Þegar ég eignaðist þetta heimili kynnti mamma mín fyrir mér mjög góða heimilisheimspeki, svokallaða „one step method“ – en það er að ganga alltaf frá öllu samstundis, frekar en að láta hlutinn hanga í ótilgreindan tíma á e.t.v. nokkrum áfangastöðum á leið sinni á sinn rétta samastað. Þetta er mjög verðug hugmyndafræði sem ég er sífellt að reyna að tileinka mér, enda mamma mín annálaður snyrtipinni sem ég lít mikið upp til. Eins og gefur að skilja á barnmörgu heimili er þetta krefjandi verkefni á hverjum degi.“

Allt á sér sinn stað inn á heimili Karítas. Hér …
Allt á sér sinn stað inn á heimili Karítas. Hér sést hvað hún er hæfileikarík að raða saman hlutunum. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Áttu þér draumahlut eða verkefni sem þig langar að fara í næst heima?

„Með tilkomu tvíburasona minna hefur rýmisþörf fjölskyldunnar snaraukist. Því langar mig að stækka við risið og flytja öll svefnherbergi þangað upp, kollvarpa skipulagi aðalhæðarinnar, opna öll rými og fá betra flæði í húsið. Annars væri ég líka mjög sátt ef ég næði að flísaleggja forstofuna með fallegu flísunum sem bíða sallarólegar í geymslunni. Einlitur linoleumdúkur á eldhúsið er líka í vinnslu. Eins að brjóta niður vegg í eldhúsinu og setja eldhúseyju...og, og, og...það eru alltaf draumar á teikniborðinu.“

Hefur heimili þitt breyst með árunum?

„Á mínum 12 árum í Danmörku og Svíþjóð flutti ég sennilega 15 sinnum. Heimilið mitt hefur þar af leiðandi verið með ýmsu móti í gegnum tíðina; samtíningur úr öllum áttum – hlutir að heilsast og kveðjast. Ég myndi segja að ég væri í fyrsta sinn á ævinni að skjóta rótum – en „best of“ úr öllum búslóðunum er loksins að koma saman og búa til heimilið mitt í dag. Heimilið ber því kannski keim af því að ég er að koma mér fyrir til lengri tíma, en ég tek mér tíma í það og vel inn til mín hluti og húsgögn með það í huga. Geymslupláss er orðið algjört lykilorð, það er einhvern veginn aldrei nóg af því, svo við höfum þurft að nýta allt tiltækt rými með ýmsum skapandi lausnum.“

Hluturnum er raðað á skemmtilegan hátt saman á heimili Karítas.
Hluturnum er raðað á skemmtilegan hátt saman á heimili Karítas. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Af hverju býrðu þar sem þú býrð?

„Þetta er fjölskylduhús mannsins míns, en afi hans byggði það fyrir fjölskyldu sína fyrir um 70 árum. Okkur stóð það svo til boða þegar við fluttum heim frá Danmörku.“

Manstu eftir húsi eða stað sem þú komst á í æsku sem hafði áhrif á hvernig þú hugsar um heimili í dag?

„Þegar ég var yngri fannst mér ævintýralega gaman að heimsækja móðursystur mína í Malmö, en hún bjó í svo fallegri íbúð í miðbæ Malmö, með stórum samliggjandi stofum, fallegum gluggum, rósettum í loftum og panel á veggjum. Ég var gjörsamlega heilluð af stílnum og stemningunni sem hún skapaði í hverju horni, með fallegum húsgögnum, litum og listaverkum upp um alla veggi – öllu raðað saman af mikilli næmni. Hún hafði mikil áhrif á mig, ég þráði að búa eins og hún. Eins held ég að ég hafi ákveðið að gerast arkitekt eftir heimsókn í húsið hennar Högnu á Bakkaflöt. Sammerkt með báðum heimilum er, að mínu mati, hversu vel tekst til að skapa augnablik, stemningu, ákveðin „móment“ – þessi næmni fyrir fallegum smáatriðum sem skipta svo miklu máli fyrir heildarmyndina er það sem ég hugsa mikið um.“

Samspil lita er áhugavert í íbúðinni.
Samspil lita er áhugavert í íbúðinni. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Hvernig manneskja ertu heima fyrir? Eins og í vinnunni eða?

„Ég reyni yfirleitt að halda í gleðina og jákvæðnina og gefa af mér góða orku á báðum stöðum. Eðlilega leyfist manni meiri slökun og afslöppun í öllum skilningi á heimili sínu (reyndar ekki í augnablikinu þar sem ég er með þrjú lítil börn). En þar sem ég er mjög kósí týpa þá kann ég mjög vel við fína sófasvæðið okkar í vinnunni, þar sem einn heilagur kaffibolli er drukkinn á hverjum vinnudegi og manni leyfist í smástund að hafa það jafn huggulegt og heima hjá sér. Mitt frábæra samstarfsfólk er blessunarlega sama sinnis.“

Karítas er hrifin af kertastjökum og gerir fallega stemningu hjá …
Karítas er hrifin af kertastjökum og gerir fallega stemningu hjá sér á kvöldin. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Lestu bækur? Hvað ertu að lesa núna?

„Ég var að byrja að lesa bókina Dødevaskeren eftir Söru Omar. Það stefnir í erfiða en áhugaverða lesningu. Til að létta hugann inn á milli ætla ég mér að grúska í ólíkum heimilisstílum í Kinfolk Home-bókinni sem ég var að eignast.“

Bækurnar á heimilinu er fjölmargar.
Bækurnar á heimilinu er fjölmargar. Ljósmynd/Valgarður Gíslason
Fallegt útsýni í Hafnafirðinum.
Fallegt útsýni í Hafnafirðinum. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál