Uppáhaldsmunstrið er röndótt

Selma Svavarsdóttir.
Selma Svavarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selma Svavarsdóttir er eigandi Heimilisfélagsins. Hún er markþjálfi og forstöðumaður hjá Landsvirkjun. Sambýlismaður hennar er Þorsteinn I. Valdimarsson. Hún á tvö börn, Lísu Ólafsdóttur og Ara Þorsteinsson.

Uppáhaldsmorgunmaturinn?

„Á virkum dögum borða ég ekki morgunmat en hins vegar drekk ég æðislegan extra heitan „latte“ sem ég bý til í vinnunni. Kaffið drekk ég þessa dagana úr bolla sem er kallaður „heiti potturinn“ en viðurnefnið gefur hugmynd um stærðina á bollanum. Ég er búin að vinna í Landsvirkjun í fimm ár og hef á hverjum morgni æft mig í að flóa mjólk. Árangurinn lét lengi á sér standa en núna er loksins kominn vísir að laufi í mjólkina. Samstarfsfólk mitt hrósar mér mikið fyrir lagnina og ég er bara virkilega stolt, enda drakk ég marga vonda bolla í þessu lærdómsferli.“

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Já, ég er mjög hrifin af samfestingum og ánægð með þessa samfestingatísku sem verið hefur undanfarin ár, því í mörg ár var ekki hægt að fá samfestinga. Uppáhaldið mitt er gallasamfestingur sem ég keypti í Madewell fyrir nokkrum árum. Ég minni sjálfa mig alltaf á Formúlu 1 starfsmann þegar ég er í honum, en finnst ég bara aðeins meiri töffari fyrir vikið.“

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

„Ég veit ekki. En uppáhaldsmunstrið mitt er röndótt. Ég á mikið af röndóttum flíkum og svo á ég röndóttan sófa og stól. Mig hefur alltaf dreymt um röndótt veggfóður.“

Hvað þýðir tíska fyrir þér?

„Stíll frekar en tíska fyrir mig. Ég ætla þó ekki að halda því fram að ég hreyfist ekki í tískunni því tíska er skemmtileg. En ég vel úr, flíkurnar þurfa að passa stílnum mínum og ef um er að ræða föt þá þurfa þau að klæða mig, annars verða þetta bara mistök sem taka pláss í fataskápnum. Sama gildir með heimilið, en ég passa mig sérstaklega á hlutum sem allir eru vitlausir í. Það eru talsverðar líkur á því að maður verði þreyttur á þeim.“

Hver er uppáhaldsíþróttafatnaðurinn þinn?

„Ég vildi að ég gæti svarað þessu. Ég er nýbúin að setja íþróttafötin inn í geymslu því þau voru alveg óhreyfð og tóku bara pláss.“

Hver er mest notaða snyrtivaran í snyrtitöskunni?

„Hypnose-maskarinn frá Lancome bjargar stuttu augnhárunum mínum.“

Hvað keyptir þú þér síðast inn á heimilið?

„Nýjasti hluturinn á heimilinu er nú reyndar gjöf, fertugsafmælisgjöf frá foreldrum mínum. Það tók sinn tíma að finna út hvernig ég ætti að verja afmælispeningnum. Ég þoli nefnilega illa að gera kaupmistök og vil bara helst ekki bæta neinu inn á heimilið nema að ég sé algjörlega sannfærð um að ég eigi eftir að elska hlutinn um ókomna tíð. Louis Poulsen-borðlampi varð fyrir valinu, eigulegur og klassískur gripur sem mig er búið að langa í lengi.“

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Sá hlutur sem fer með mér út um allt er japönsk skipulagsbók úr leðri. Í hana skrifa ég listana mína, en það heldur mér við efnið og ég kemst yfir miklu meira. Ég fæ um leið meiri ró í hugann við að hafa yfirsýn yfir það sem ég þarf og ætla að gera. Ég flyt bækurnar inn frá Japan og býð upp á þær í Heimilisfélaginu. Bækurnar er ekki bara gullfallegar heldur er þetta sniðugt fyrirkomulag því hver og einn raðar bókinni saman eftir sínum þörfum. Sumir gera þetta að dagbók, aðrir að hugamyndabók, matreiðslubók og sumir eru með þetta allt saman í einni bók.“

Uppáhaldssmáforrit?

„Ég nota Instagram langmest fyrir Heimilisfélagið og þar finnst mér skemmtilegast að skoða það sem viðkemur fallegum hlutum, heimilum og tísku. Ég fylgist með fullt af sænskum fasteignasölum á Instagram en þar er mikil vinna lögð í stíliseringar á húsnæði fyrir myndatöku, sem skemmtilegt er að skoða. Svo á ég alltaf reglulega gæðastundir á Pinterest.“

Hvað heillar þig mest í lífinu?

„Persónulegur vöxtur, þroski og hamingja. Að staldra við og skoða hvað það er sem mann langar, hvert maður stefnir og hvaða skref maður þarf að stíga til að láta sér líða vel. Svo er lífið auðvitað í mörgum köflum og þess vegna finnst mér svo áhugavert að skoða stöðuna reglulega en láta lífið ekki bara sigla framhjá. Í dag er ég markþjálfi og fæ kikk út úr því að styðja við aðra og sjá fólk þannig vaxa, efla sjálft sig og ná árangri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál