„Ég ræði aldrei um viðskiptavini“

Björn Björnsson arkitekt í New York.
Björn Björnsson arkitekt í New York.

Björn Björnsson arkitekt hefur búið erlendis frá 16 ára aldri eða þegar hann fór til Danmerkur í arkitektanám ásamt systur sinni. Hann er búsettur í New York og birtist reglulega á síðum heimsþekktra hönnunarblaða. Enda þekktur fyrir að vinna fyrir hina ríku og þekktu. 

Björn kemur úr hópi níu systkina, er alinn upp af móður sinni Margréti Hallgrímsdóttur, sem hann minnist með hlýhug og kærleika sem einnar bestu húsmóður sem hann veit um, og föður, Birni Jónssyni, sem vann lengst af í framleiðslufyrirtækinu Héðni.

Björn hefur verið búsettur í New York undanfarin 26 ár. Hann birtist reglulega á síðum heimsþekktra hönnunarblaða. Er þekktur fyrir að vinna fyrir hina ríku og þekktu, en er auðmjúkur og vil helst tala um samfélagsleg verkefni sín, þar sem hann aðstoðar þá sem minna mega sín í bandarísku samfélagi; að innrétta fallega fyrir lítinn pening.

„Það hefur verið í mörgu að snúast hjá mér að undanförnu, sérstaklega eftir að ég tók að mér að leiða félag innanhússarkitekta í Bandaríkjunum (American society of interior designers).“

Spurður um samkeppnina í New York á sviði innanhússhönnunar bendir hann á að það séu 5.000 manns í samtökunum í New York, svo það er ekki að undra þótt Björn hefji annasama daga klukkan fimm í ræktinni hvern morgun. Í New York þarf fólk að vera á tánum.

Aldur er afstæður

Þú lítur út fyrir að vera rúmlega fertugur en ferill þinn er orðinn talsvert langur. Hvernig ferðu að þessu?

„Áhugavert. Ég er reyndar ekki viss um að ég sé 40 ára, þú getur bætt við tveimur áratugum og þá ertu komin með töluna mína. En ég er í raun og veru aldrei að spá í aldurinn. Það eina sem ég hugsa um á daginn er að fara vel með mig og að sinna því sem ég elska, sem er vinnan.“

Björn á skyldmenni á Íslandi en eftir að móðir hans dó fyrir nokkrum árum hefur hann komið minna en áður til landsins. „Ég gæti reyndar hugsað mér að eiga hús á Íslandi. Ef til vill geri ég það þegar rétti tíminn kemur í framtíðinni. En New York er mín borg. Hún er uppáhaldsborgin mín, en jafnframt erfið að búa í þegar kemur að samkeppni og vinnuframlagi. En hún er góð og fólkið hér er frábært.“

Eftir að Björn kláraði nám sitt í Danmörku var honum boðið að starfa í Los Angeles fyrir „Scandinavian America Foundation“ í tæp tvö ár. Eftir það fór hann til New York, sem átti í raun og veru að vera einungis stutt stopp á leiðinni til Danmerkur aftur. En hann fann spennandi vinnu í borginni og nú hafa tæplega þrír áratugir liðið hratt.

„Fyrir 23 árum stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki sem hentaði mér betur en að vinna fyrir aðra. Fyrst um sinn var fyrirtækið rekið frá heimili mínu, en smátt og smátt stækkaði það. Áður en ég vissi af var ég kominn með 15 starfsmenn í vinnu á skemmtilegri skrifstofu í austurhluta New York-borgar.“

Björn segist hafa fundið fyrir áhrifum hrunsins upp úr 2008 eins og allur heimurinn. En fyrirtæki hans hafi staðið það af sér eins og margir aðrir, þótt starfsmenn hans í dag séu helmingi færri en þeir voru fyrir hrun.

Með viðskiptavini úti um allan heim

Hann býr sjálfur í austurhluta borgarinnar, sem er góð staðsetning fyrir hönnuði á hans sviði. Verkefnin eru spennandi þótt erfitt sé að fá hjá honum upplýsingar um fyrir hvern hann starfi í dag. „Ég starfa fyrir fólk víðs vegar að úr heiminum. Viðskiptavinir mínir eru búsettir í Los Angeles, á Miami, í Dóminíska lýðveldinu, London og svo mætti lengi telja.“

Björn segir verkefnin hafa breyst með árunum. Fyrir hrun hafi fólk lítið verið að horfa í peningana. „Á þeim tíma skipti ekki öllu máli hvað hlutirnir kostuðu heldur frekar hvernig þeir komu út. Í dag er fólk skynsamara, sem er gott að mínu mati. Ég er mjög nákvæmur í fjárhagsáætlunum og vil standa við mitt þegar kemur að verkefnum og tímaramma. Ég get verið harður í horn að taka meðan á verkefnum stendur en þegar þeim er lokið passa ég upp á að gefa mér góðan tíma innan um það sem ég hef hannað. Vanalega er þessi tími þannig að ég geng einn um húsin eða íbúðirnar, virði fyrir mér verkefnið og anda inn hugmyndunum. Þannig mætti segja að ég sé mikill raunsæismaður en samt sem áður öruggur með það sem ég geri og ber virðingu fyrir verkefnum mínum.“

Maðurinn sem hægt er að treysta

Það sem kemur á óvart þegar maður talar við Björn er hvað hann er auðmjúkur og orðvar. Hann velur í raun hvert orð af kostgæfni og er þekkur í sínum bransa fyrir að vera maðurinn sem hægt er að treysta. Oftar en einu sinni hefur komið fram í fjölmiðlum að Björn hafi starfað fyrir Vanderbilts þótt það sé ekki haft eftir honum sjálfum. „Já, ég er sammála þessu. Ég ræði aldrei um viðskiptavini. Það er grundvallarregla í mínu starfi og viðskiptavinir mínir kunna að meta það við mig.“

Skemmtilegustu verkefnin sem Björn tekur þátt í er að vinna fyrir byggingaraðila við að innrétta stærra húsnæði, íbúðir eða hús þar sem hann fær frjálsar hendur til að skapa sína veröld. „Í þessum verkefnum kemur kaupandinn að fullbúnu verki; heimili þar sem oft og tíðum er hugsað fyrir öllu.

Eins finnst mér ótrúlega áhugavert að taka þátt í samfélagslegum verkefnum á borð við „Low Income Housing“. Fólk er svo þakklátt og ánægt með störfin sem við vinnum fyrir það. Ég fer þá með því í búðir, fæ styrki til að kaupa falleg húsgögn eða við kaupum inn fyrir lítinn pening. En við gerum falleg heimili saman fyrir fólk sem kann virkilega að meta það sem gert er fyrir það. Ég hef einnig starfað fyrir spítala í Bronx fyrir hjartveik börn. Þá innrétta ég sjúkrastofur í skemmtilegum litum. Ég bý til umhverfi sem léttir lund barnanna og gleður, en mörg þeirra þurfa að bíða í allt að hálft ár eftir hjartaígræðslu á spítalanum. Sá tími í lífi barnanna getur tekið á, svo allt umhverfi og fegurð í kringum þau skiptir máli.“

Það sem einkennir hönnun Björns eru stílhrein form og fallegir litir. Hann þykir góður að ná fram því sem fólk leitar eftir.

Að gera það sem maður elskar

En hver er uppskriftin að góðu lífi að hans mati?

„Ég myndi segja að uppskriftin að góðu lífi væri að gera það sem maður elskar. Ég vinn hart að mínum verkefnum en í enda dags, þegar verkefnið er búið, bið ég alla að stíga út úr umhverfinu þegar ég geng um og velti fyrir mér handverki, hönnun og niðurstöðu vinnunnar. Ég held að það sé mikilvægt að kunna að meta það sem maður gerir á sama tíma og maður er auðmjúkur og þakkátur fyrir tækifærin. Ég er duglegur að minna unga fólkið mitt á skrifstofunni á að vera sjálfsöruggt en að taka vel eftir og muna að það tekur langan tíma að verða frábær í starfi. Maður veit svo sannarlega ekki allt eftir nám í innanhússhönnun. En ef maður elskar viðfangsefnið getur maður orðið nokkuð góður ef maður fær tækifæri til að æfa sig vel í faginu alla ævi. Maður verður að elska þetta líf sem manni er gefið og vera bjartsýnn og hamingjusamur á degi hverjum. Það er ákvörðun að líta á björtu hliðarnar í lífinu. Ég held að við systkinin höfum fengið þetta veganesti út í lífið frá æskuheimilinu okkar. Það var ekki alltaf auðvelt heima, hjá ungu fólki með níu börn. En við vorum virkilega hamingjusöm fjölskylda, lífsglöð og skemmtileg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál