Að sýsla með aleigu fólks er vandasamt

Hannes Steindórsson fasteignasali á Lind fasteignasölu.
Hannes Steindórsson fasteignasali á Lind fasteignasölu.

Hannes Steindórsson segir að starf fasteignasala sé nákvæmnisvinna og það skipti máli að fasteignasali sé góður í mannlegum samskiptum. Hann segir að fasteignamarkaðurinn sé á góðu róli núna en það taki allt upp í þrjá mánuði að selja fasteign, sem áður tók skemmri tíma. 

„Það er ekki svo margt. Fyrst og fremst heiðarlegir og duglegir, flest annað lærist. Það er mikilvægt að vera skipulagður og stundvís. Auðvitað eru 80% af þessu starfi mannleg samskipti þannig að það er gott að hafa það meðferðis í þessari vinnu,“ segir Hannes.

Hannes hóf störf sem fasteignasali í janúar 2005 og er því búinn að vera í faginu í rúmlega 14 ár og segist ekki vera í leit að öðru starfi. „Ég verð í 40 ár í viðbót. Markaðurinn hefur farið í gegnum marga fasa á þessum tíma, bæði gríðarlega mikið að gera og alveg niður í að maður seldi ekki neitt svo mánuðum skipti,“ segir hann.

Þorði ekki að taka stökkið

Hannes kemur úr auglýsingabransanum og var lengi að íhuga að fara út í fasteignasölu en þorði ekki að taka skrefið.

„Ég kem úr fjölmiðlageiranum, var auglýsingastjóri SkjásEins á „prime“-tíma skjásins. Sem var gríðarlega skemmtilegur og lærdómsríkur tími, byrjaði á SkjáEinum árið 1999 sem sölumaður, þá 21 árs gamall og þurfti að safna skeggi til þess að fólk vildi tala við mig. Gunnar Sverrir Harðarson, einn minn besti vinur, var búinn að reyna að fá mig í fasteignageirann í svolítinn tíma en ég þorði ekki, svo býðst Gunnar til að vinna með mér í teymi og þá sló ég til, sé ekki eftir því, þetta er skemmtilegasta starf í heimi,“ segir Hannes.

Aðspurður hvað hann hafi lært á þessum 14 árum sem fasteignasali segir hann það vera ansi margt.

„Mjög erfið spurning, ég hef lært að vinna fyrir og með fólki. Ég vinn á 25 manna fasteignasölu og gæti ekki verið heppnari með starfsfólk. Ég hef hitt og talað við hátt í tíu þúsund Íslendinga á þessum 14 árum. Kynnst mörgu góðu fólki. Ég hef lært að þetta er mikil nákvæmnisvinna og henni fylgir gríðarleg ábyrgð sem ég ber mikla virðingu fyrir. Fasteignasalar sýsla með aleigu fólks og að sama skapi er þetta stærsta fjárfesting langflestra á lífsleiðinni, það ber að minna sig á það reglulega,“ segir hann.

Hvað er alveg harðbannað að gera ef þú ert fasteignasali?

„Það er svo margt, lögin eru mjög skýr hvað má og hvað má ekki, fasteignasali má til dæmis ekki kaupa fasteign á þeirri fasteignasölu sem hann vinnur á,“ segir hann.

Hver eru erfiðustu tilvikin sem koma upp?

„Langerfiðustu málin eru leyndir gallar, eitthvað sem hvorki seljandi, kaupandi né fasteignasali sér. Langflest mál leysast farsællega en sum eru þung. Myglan er mjög erfið, er oft inni í veggjum, sést ekki við skoðun og margir mjög hræddir við hana. Gallamál eru alltaf erfið, fólk búið að hlakka mikið til að komast inn á nýtt heimili og svo koma í ljós gallar sem geta verið mjög flóknir.“

Er hægt að leysa öll mál?

„Langflest, því miður koma upp mál sem eru mjög flókin eins og til dæmis mygla sem engin vissi af. Ég þori ekki alveg að svara hversu mörg mál í prósentum leysast ekki án dómstóla en það er innan við 1% myndi ég telja.“

Hvernig er fasteignamarkaðurinn akkúrat núna?

„Hann er í jafnvægi en ennþá vantar mikið upp á eðlilegan samningafjölda miðað við fólksfjölgun síðastliðin ár. Framboð hefur aukist jafnt og þétt og kaupendur hafa meiri tíma til að skoða, það eru fleiri fasteignir sem koma til greina. Í flestum tilfellum getur fólk skoðað tvisvar til þrisvar áður en tekin er ákvörðun um kaup. Það er miklu eðlilegri markaður heldur en hefur verið síðastliðin tvö til þrjú ár þar sem stór hluti eigna seldist strax. Ef mig misminnir ekki þá er sölutími í dag um þrír mánuðir að meðaltali.“

Hvernig sérðu 2019 þróast?

„Mín skoðun er að samningum fjölgi lítillega árið 2019 miðað við 2018 og fasteignaverð hækki um 3-4%, sem yrði þá í samræmi við verðbólgu. Þessum miklu hækkunum síðastliðin ár er lokið í bili að mínu mati. Árið fór vel af stað, 19% fleiri samningar í janúar 2019 heldur en janúar 2018. Auðvitað hafa verkföll og þannig stór mál áhrif á fasteignageirann eins og aðra.

Árið verður gott í heildina, mögulega aðeins hægara næstu mánuði á meðan kjaramál eru óleyst, í framhaldi af samningum þar verður allt eðlilegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál