Einfalt og glæsilegt án þess að vera goslaust

Ljósmynd/Guðfinna Magg

Sæbjörg Guðjónsdóttir innanhússhönnuður, eða Sæja eins og hún er kölluð, fékk það verkefni að hanna 210 fm einbýlishús á Selfossi. Húsið var á byggingarstigi þegar hún hófst handa og er útkoman ansi glæsileg. 

Um er að ræða einlyft einbýli sem er 210 fm og staðsett á Selfossi. Húsið var í byggingu þegar Sæja fékk verkefnið og því gat hún haft áhrif á efnisval, loft, lýsingu og fleira sem fylgir því að búa til fallegt heimili. Sæja segir að skipulagið í húsinu hafi verið mjög gott og það hafi ekki þurft að breyta miklu. En hverjar voru óskir húsráðanda?

„Húsfreyjan vildi svipað eldhús og hún var með áður, það er að segja hvað varðaði skipulag og stærð. Flestallt er innbyggt eða falið á bakvið skápa. Í innréttingunni eru heilir frontar sem ganga upp fyrir borðplötu og svo eru fræst grip í stað halda. Hvítir mattir sprautulakkaðir frontar og dökkbæsaður askur kemur skemmtilega út á móti glansandi „gunmetal“-tækjunum frá Vola. Punkturinn yfir i-ið er svo „fior di bosco“ marmaraborðplatan frá Granítsmiðjunni sem gefur hlýjuna á móti og tónar vel með öðrum efnum í húsinu,“ segir Sæja.

Allar innréttingar í húsinu eru sérsmíðaðar hjá Grindinni Trésmiðju í Grindavík. Eins og sést á myndunum er smíðin á innréttingunum vönduð. Þegar Sæja er spurð út í tækjaskápinn í eldhúsinu segir hún að slíkir skápar njóti mikilla vinsælda í dag.

„Góðir og fallegir tækjaskápar eru eitthvað sem ég legg áherslu á þegar ég hanna eldhús og þá sérstaklega í opnum rýmum sem þessu. Þessi skápur var því spónlagður að innan líkt og aðrir frontar, með sama marmara og innbyggðri lýsingu undir hillum. Hann er því fallegur hvort sem hann er hafður lokaður eða opinn,“ segir hún.

Nýttu það sem þau áttu

Nú er heimilið einstaklega glæsilegt. Hvað gerðir þú til þess að kalla þetta fram?

„Einfaldleikinn er í fyrirrúmi í þessu húsi án þess þó að vera „flatt“ því miklar andstæður eru í efnisvali og áferð. Þau höfðu fyrirfram einhverjar skoðanir en voru einnig opin fyrir mínum hugmyndum og því um einstaklega gott samstarf að ræða. Þau áttu einnig mikið af fallegum munum, sem ég svo bætti við, eins og Minotti-stólana í grænleitu flaueli ásamt Cherner-borðstofustólunum úr hnotu en með þeim fengust mýkri línur á móti annars beinum línum.“

Viðarklæddur veggur í húsinu vekur athygli en hann er í stíl við innréttingarnar.

„Þar sem forstofan er hálfopin og hinum megin við hana er eldhúsið ákvað ég að teygja úr henni og tengja við viðarskápavegginn í eldhúsi og inn á svefnherbergisganginn. Inngangurinn tekur því vel á móti þér þegar þú kemur inn þar sem klæðningin teygir úr sér til hægri og vinstri og á móti koma gráir speglar til að stækka ennfremur rýmið.“

Hvaðan eru húsgögnin?

„Húsfreyjan er mikil smekkkona og átti því mikið af fallegum munum sem ég svo bætti við. Mikið af hlutunum er úr Epal og Módern ásamt fleiri verslunum.“

Hvaða litir eru á veggjunum?

„Ég vildi að fallegu húsmunirnir, innréttingar og ljós myndu njóta sín og ákvað því að mála allt ljóst. Allir veggir og loft voru máluð í litnum mínum Ber frá Slippfélaginu en hjónaherbergið í litnum Volgur.“

Gluggatjöldin setja svip sinn á rýmið og gera allt hlýlegra. Sæja pantaði efnið hjá Bólstraranum á Langholtsvegi og Edda Bára, sem Sæja segir að sé snillingur, saumaði þau og setti upp. Þegar hönnuðurinn er spurður að því hvað hafi gefið henni mest í þessu verkefni stendur ekki á svarinu.

„Hvað það var mikið traust á milli mín og kúnnans stóð upp úr,“ segir Sæja.

– Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar þú ert að hanna heimili eins og þetta?

„Ef lokaútkoman á að verða góð skiptir traust miklu máli eins og áður sagði. Að hafa skýra sýn og fylgja henni eftir.“

– Finnst þér áherslur fólks vera að breytast eða vil fólk bara endalaust það sama?

„Ég er mikið beðin um dökkar innréttingar í dag. Það er kannski það sem á það til að vera það sama. Ég nota þó ekki alltaf sama spóninn og bæsið og Hrefna hjá Grindinni er ansi öflug að búa til prufur fyrir mig. Annars reyni ég að blanda saman ólíkum efnum og koma með nýjar útfærslur í öllum verkefnum, en grunnurinn er oft einfaldur og svo byggir maður ofan á hann með húsgögnum, list og þar fram eftir götunum,“ segir hún.

Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Ljósmynd/Guðfinna Magg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál