Blátt eldhús setur svip á rými

Arkitektastofan Bryant Alsop endurhannaði gamalt hús í Melbourne í Ástralíu. Húsið er einstaklega sjarmerandi eftir breytingar og er margar góðar hugmyndir að finna á heimilinu. Eins og til dæmis innréttingin í eldhúsinu sem er sprautulökkuð í millibláum tón. Innréttingin nær yfir allan vegginn og er ekki bara eldhúsinnrétting heldur líka heimaskrifstofa með aðstöðu fyrir auka-manneskju. 

Eyjan er stór og hvít á móti bláu innréttingunni og það sem setur svip sinn á heimilið er einstaklega fallegt parket og hnausþykkir gólflistar. 

Þegar inn í stofu er komið er þar mjúkur sófi í aðalhlutverki og sjónvarpinu er komið fyrir á veggnum á heillandi hátt án þess að það verði eins og risastórt altari. 

Baðherbergið er fallegt en þar ræður hvítur litur ríkjum. Gott skápapláss er á baðherberginu og þó svo að speglaskápurinn og innréttingin sé svolítið venjuleg þá er baðherberginu lyft á stall með fallegu flísunum sem ná upp úr og niður úr. 

mbl.is