Góð hellulögn gerir mikið fyrir umhverfi

Ásbjörn Ingi Jóhannesson sölustjori BM Vallá.
Ásbjörn Ingi Jóhannesson sölustjori BM Vallá. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hvort sem gamaldags og rómantískar eða stílhreinar og nútímalegar hellur verða fyrir valinu þarf að vanda til verka þegar hellurnar eru lagðar og hafa undirlagið eins og það á að vera. Ásbjörn Ingi Jóhannesson er á heimavelli þegar kemur að hellulögn. 

Góð hellulögn gerir mikið fyrir umhverfi heimilisins og getur jafnvel hækkað söluverð eignarinnar. „Ég held að það sé engin spurning að fallegur, hellulagður garður og vel heppnuð innkeyrsla geri mikið fyrir fasteignina og hjálpar til við söluna,“ segir Ásbjörn, sölustjóri hjá BM Vallá.

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Að ýmsu þarf að huga áður en fyrstu hellurnar eru lagðar og segir Ásbjörn óvitlaust að byrja undirbúninginn snemma. „Við brugðum á það ráð að kynna landslagsráðgjafarþjónustu okkar í byrjun árs og höfum fengið sterk viðbrögð. Er fólk þá að nota vetrarmánuðina til að skipuleggja framkvæmdirnar í garðinum og getur svo farið af stað strax og veður leyfir. Þetta þýðir líka að hægt er að skipulggja vinnuna betur og bóka verktaka tímanlega. Ef veður leyfir er jafnvel hægt að ráðast í framkvæmdir áður en vorið og sumarið ganga í garð,“ útskýrir Ásbjörn og bætir við að það þurfi ekki að bíða eftir fyrstu sólarglætunni til að byrja að spá í garðinn. „Í raun er hægt að standa í framkvæmdum úti í garði stóran hluta ársins og jafnvel fram í nóvember-desmber ef veðrið er gott.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hellur í stað steypts bílaplans

Aðspurður hvort einhver tíska sé ráðandi í helluheiminum þessi misserin segir Ásbjörn að fjölbreytnin ráði ríkjum. Greina megi nokkra meginstrauma en það fari alfarið eftir smekk fólks og aðstæðum á hverjum stað hvaða útlit henti best. Hann segir BM Vallá því koma til móts við neytndur með mjög breiðu og fjölbreyttu úrvali þar sem nýjar gerðir og útfærslur á hellum og hleðslusteinum bætast við ár hvert.

Af helstu viðbótum undanfarin ár nefnir Ásbjörn stórar og stílhreinar hellur sem t.d. koma mjög vel út í innkeyrslum. „Stærstu hellurnar eru 60x60 cm á stærð og 8 cm þykkar og lagðar þannig að sáralítið bil er á milli þeirra. Þessar hellur má fá í gráum og svörtum lit, og með útliti sem líkist steyptu bílaplani með áferð.“

Bendir Ásbjörn á að stóru hellurnar henti mjög vel á stöðum þar sem steypt plan væri óheppilegt. „Helsti gallinn við steypt plön er að ef þau hleypa ekki vel frá sér snjó og vætu þá geta þau orðið sleip svo að slysahætta skapast. Steyptar hellur, aftur á móti, hleypa vætunni betur í gegnum sig og eru stamari.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hellurnar skorðaðar af

Það er alkunna að undirlagið skiptir öllu máli þegar er hellulagt og segir Ásbjörn að grús og hellusandur þurfi að ná vel út út fyrir stéttina eða planið svo að hellulögnin fari örugglega ekki á hreyfingu þegar tekur að frysta, en auðvelt er að fela þetta viðbótar-undirlag undir túnþöku eða beði. „Þá þarf alltaf að skorða hellurnar af með steyptum kanti, og flestir sem velja líka að setja hitalögn undir hellurnar jafnvel þó lögnin sé ekki endilega tengd alveg strax. Bætir hitalögnin litlu við heildarkostnaðinn en kemur í góðar þarfir þegar tekur að frysta.“

Ef rétt var að verki staðið við hellulögnina þarf að hafa sáralítið fyrir því að halda hellunum fallegum þó Ásbjörn segi hellur ekki alveg viðhaldsfríar: „Skynsamlegt er að leyfa ekki óhreinindum að safnast upp. Plön sem eru sópuð og skoluð reglulega endast lengur og eru fallegri. Þarf ekki meira til en góðan kúst og svo er fínt að spúla hellurnar reglulega og þá jafnvel nota háþrýstidælu. Verður samt að muna að fara ekki með úðann úr háþrýstibyssunni of nálægt hellulögninni því þá gæti krafturinn í vatninu spúlað sandinn upp úr fúgunum, jafnvel skolað burtu sandi undan hellunum og líka myndað för í hellunum ef farið er of nálægt.“

.
. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Marga dreymir um tjörn með gosbrunni

Viðskiptavinum BM Vallár stendur til boða ráðgjöf landslagsarkitekts á hagstæðum kjörum og gengur greiðslan fyrir ráðgjöfina upp í kaup á hellum og helluvörum. Ráðgjafinn útbýr útlitsmynd samdægurs og um það bil viku eftir ráðgjöfina eru þrívíðar teikningar tilbúnar.

Ásbjörn segir gott að undirbúa vel viðtalið með landslagsarkitektinum. Fólk ætti að skoða vöruframboð BM Vallár og mynda sér skoðun á hvaða útlit gæti hentað best. Þá þarf að senda grunnmynd af húsi og lóð a.m.k. þremur dögum fyrir staðfestan tíma og að auki senda stafrænar myndir af lóðinni teknar bæði að og frá húsinu.

„Fólk hefur ólíkar hugmyndir um garðinn sinn en flestir vilja þó umfram allt búa til góðan íverustað þar sem hægt er að grilla og eiga notalega samverustund. Aðkoman að húsinu þarf að vera falleg, leggja þarf göngustíga til að tengja saman fram- og bakhlið hússins, og gera ráð fyrir hlutum eins og sorphirðu, áhaldageymslu, og jafnvel trampólíni eða heitum potti. Er sérstaklega gaman að sjá hve margir eru áhugasamir um að setja litla tjörn eða læk í garðinn, og þá oft með gosbrunni.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál