Handmálað verk gjörbreytti eldhúsinu

Veggurinn sem Edda Karólína málaði í eldhúsið hjá Emilíu Kristínu …
Veggurinn sem Edda Karólína málaði í eldhúsið hjá Emilíu Kristínu og Arnari er ákaflega fallegur.

Edda Karólína Ævarsdóttir er grafísk listakona sem gerir ansi áhugaverð og flott verk. Á dögunum bjó hún til listaverk á heilan vegg í eldhúsi vinkonu sinnar og er útkoman ákaflega heillandi. 

Edda útskrifaðist með BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands í fyrra og býr núna í Glasgow í Skotlandi þar sem hún er lærlingur stórkostlegs skiltamálara sem heitir Erin Bradley-Scott.

„Hér hef ég stofnað eins konar kollektíf ásamt Erin og tveimur listakonum öðrum, þar sem við vinnum saman að veggverkum. Það gengur bara ansi vel, þó að við séum splunkunýjar í bransanum. Við komum saman undir nafninu Cobolt og það má finna okkur á Instagram undir @coboltcollective. Ég hef alltaf verið skapandi og finna má verk eftir mig á vefsíðunni eddakarolina.com eða á Instagram á @eddakarolina. Hér úti vinn ég sem skiltamálari og vegglistakona ásamt ýmsum freelance-verkefnum í teikningum og skrifum. Ég kem svo líka heim í sumar og verð um sinn að mála hér og þar,“ segir Edda. 

Hér má sjá Eddu að störfum.
Hér má sjá Eddu að störfum.

Aftur að eldhúsinu sem Edda skreytti fyrir vinkonu sína, Emilíu Kristínu Bjarnason, og unnusta hennar, Arnar Leifsson. Edda notaði málningu frá Slippfélaginu þegar hún málaði frumskóginn á vegginn sem er í eldhúsi parsins í 101 Reykjavík. Veggurinn fer vel við látlausa innréttinguna og keyrir upp stemninguna eins og sjá má. 

„Ég málaði alls kyns plöntur á vegginn sem mynduðu eins og frumskóg, en þó með hvítum bakgrunni,“ segir Edda. 

-Hvernig kom þetta til?

„Ég hef unnið að veggverkum áður og vinkona mín, Emilía Kristín, bað mig að gera eitt slíkt á eldhúsvegginn heima hjá sér. Ég skissaði upp nokkrar myndir og með henni og Arnari, unnusta hennar, ákvað ég hvað skyldi fara á vegginn.“

-Hvernig þarf að gera þetta svo verkið haldist á veggnum?

„Ég málaði verkið með venjulegri innanhússmálningu sem ætluð er á veggi, það er ekki mikið annað sem þarf að gera. Það gæti svo sem farið svo að eitthvað flagni af veggnum eða það rispist eða eitthvað slíkt en það ætti ekki að vera mikið mál að laga. Sérstaklega þar sem þetta er heima hjá vinkonu minni og ég get alltaf skotist til.“

Edda segir að hugmyndin hafi kviknað þegar Emilía og Arnar hófu að gera íbúðina sína upp. 

„Emilía og Arnar höfðu nýlega keypt sér íbúð og voru að gera hana upp. Emilía er með stórkostlegan smekk og hefur stórar hugmyndir um hvernig heimili hún vill, fullt af lit og blingi. Hún bað mig að gera eitthvað flott á vegginn og við fórum að skoða saman alls konar innanhúsveggverk til innblásturs. Við tvær og Arnar vorum öll hrifin af plöntuverkum svo ég hannaði eitt slíkt og skellti upp á vegg.“

-Hvað finnst þér verkið gera fyrir eldhúsið?

„Mér finnst það aldeilis lífga upp á það og gera það litríkt og sumarlegt, en helst af öllu ævintýralegt.“

Veggurinn gjörbreytti eldhúsinu.
Veggurinn gjörbreytti eldhúsinu.
Edda Karólína Ævarsdóttir.
Edda Karólína Ævarsdóttir.
Hér má sjá verkið Kolkrabbann sem Edda málaði á vegg …
Hér má sjá verkið Kolkrabbann sem Edda málaði á vegg við Lokastíg í Reykjavík.
Það er nostrað við Kolkrabbann eins og sjá má.
Það er nostrað við Kolkrabbann eins og sjá má.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál