Heimilið gefur orku og vellíðan

Andri og Tanit út í garði við húsið sitt í …
Andri og Tanit út í garði við húsið sitt í Hafnafirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tanit Karolys býr í björtu og stílhreinu húsi í Hafnarfirði þar sem hún starfar einnig. Hún upplifði kulnun í starfi og fann orkuna aftur úti í sjó með eiginmanni sínum Vilhjálmi Andra. Heimilið þeirra er bæði vinnustaður og griðastaður fjölskyldunnar.

Tanit er fædd á Spáni en er íslenskur ríkisborgari.

Hún hefur verið búsett í landinu í átta ár en kom upphaflega hingað í þriggja mánaða skiptinám sem Háskóli Reykjavíkur bauð upp á í samvinnu við Viðskiptaháskólann ESADE í Barselóna. Á þessum tíma var Tanit að bæta við þekkingu sína með MBA-gráðu (Master of Business Administration). Hún kolféll fyrir landi og þjóð. Kynntist eiginmanni sínum Vilhjálmi Andra Einarssyni og býr nú í áhugverðu húsi í Hafnarfirðinum þar sem þau vinna að því að byggja upp hugarefni sitt ANDRA ICELAND.

Tanit hefur komið sér vel fyrir á efri hæð hússins …
Tanit hefur komið sér vel fyrir á efri hæð hússins þar sem þau geta tekið á móti allt að 20 manns á námskeið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erlendir gestir heillaðir af Hafnarfirði

Húsið í Hafnarfirði stendur á fallegum stað. Það er á tveimur hæðum og með góðum garði. Húsið er við hraun og segir Tanit skemmtilegt að fá erlenda gesti í heimsókn og segja þeim sögu íslenskrar náttúru, um tröll og álfa og orkuna sem hægt er að ná sér í með því að fara í köld böð úti í garði og ganga síðan berfættur í grasinu.

Tanit er dugleg að nota garðinn. Þau eru með kaldan …
Tanit er dugleg að nota garðinn. Þau eru með kaldan pott í garðinum og góða aðstöðu til að taka á móti stórum hópum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við Andri urðum strax ástfangin af þessum stað þar sem húsið stendur. Saman áttum við þann draum að búa í húsnæði þar sem við gætum boðið upp á einkatíma og hóptíma fyrir allt að 20 einstaklinga. Við vildum hafa opið rými og nóg pláss. Í raun stað þar sem við gætum notið þess að vera saman, en einnig leyft okkur að gera það sem við vildum og þurfum að gera í einrúmi.

Á efri hæð hússins er notalegt umhverfi til að gera …
Á efri hæð hússins er notalegt umhverfi til að gera æfingar eða halda fyrirlestur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er mikill friður í þessu húsi og við höfum aðgang að náttúrunni þó að við séum í miðri byggð. Á neðri hæð hússins búum við Andri en við störfum á efri hæðinni, sem er sú hæð sem við göngum inn í frá aðalinngangi.“

Leyfa umhverfinu að næra sig

Þegar komið er inn í húsið er skemmtileg birta og rólegt andrúmsloft. Húsið er með fáum en vel völdum húsgögnum og eldhúsið er það fyrsta sem blasir við manni sem og stofa sem er búið að breyta í fyrirlestrasal. Þar skiptir náttúran úti meginmáli. Það eru gluggar í allar áttir og á eina veggnum sem tekur á móti manni þar sem sér minna í náttúruna en annars staðar, er spegill hangandi á miðjum veggnum sem kastar mynd af náttúrunni á vegginn svo hún haldi áfram að hafa heilandi áhrif á þá sem eru inni í húsinu.

Náttúran spilar mikilvægt hlutverk í lífi Tanit og Andra og …
Náttúran spilar mikilvægt hlutverk í lífi Tanit og Andra og því hafa þau opna glugga og bjart inni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vildum að allir sem kæmu hingað inn fengju sama tækifæri og við höfum til að láta umhverfið næra sig. Við erum vanalega með hollar og góðar veitingar í eldhúsinu. Við erum með opið út í garð sem minnir okkur á að fara út og láta náttúruna gefa okkur kraft. Við erum með „mínimalískan“ stíl og veljum vandlega listina á veggina. Ég er einnig hrifin af orkusteinum og raða þeim þannig upp að andrúmsloftið sé heilbrigt og hollt öllum sem eru næmir fyrir slíku.“

Tanit hefur dundað sér í að gera garð úr steinum …
Tanit hefur dundað sér í að gera garð úr steinum inni í húsi þeirra í Hafnafirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tanit er mikið fyrir forn heilög mynstur.

Hún er einnig með fjórar tegundir af ekta bambus ,,koshi“ bjöllum. Þær standa fyrir jörð, vatn, eld og vind.

Tanit er með fjórar tegundir af ekta bambus ,,koshi“ bjöllum. …
Tanit er með fjórar tegundir af ekta bambus ,,koshi“ bjöllum. Þær standa fyrir jörð, vatn, eld og vind. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar kemur að orkusteinunum, þá hreinsar glær kvars (Clear Quartz) orkuna í húsinu, í raun umbreytir neikvæðri orku í jákvæða. Rósakvars (Rose Quarz) er kristall ástarinnar. Hann opnar hjartastöðina og minnir okkur á að við erum öll hluti af heildinni. Mér þykir gaman að raða steinunum upp í ákveðið form og hef trú á að þeir hjálpi til við að halda orkunni hreinni og uppbyggilegri inni í húsinu á alls konar vegu.“

Orkusteinar í allskonar litum sem hafa áhrif á umhverfið í …
Orkusteinar í allskonar litum sem hafa áhrif á umhverfið í húsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynntist Andra ofan í sjó

Tanit segir hjónaband þeirra Andra einstakt. Þau njóti þess að vera saman en einnig að eiga tíma fyrir sig. Þau hafa verið saman í þrjú ár og sagan á bak við það hvernig þau kynntust tengist að sjálfsögðu köldu vatni og íslenskri náttúru.

„Eftir að ég hafði kynnst landinu langaði mig að prófa að búa hér. Ég fékk áhugaverða stöðu í dásamlegu íslensku fyrirtæki, en það má segja að ég hafi elskað vinnuna mína aðeins of mikið. Ég örmagnaðist eftir of mikla vinnu og þurfti að leita mér allskonar leiða til að byggja mig aftur upp. Það var þá sem ég kynntist Andra. Við hittumst fyrst í Nauthólsvík, í febrúar þegar ég var að prófa að kæla til að endurheimta orkuna. Ég sá Andra sitjandi í ísköldum sjónum með friðsælan hamingjusvip.

Vinir mínir bentu mér á hann svo ég gekk bara til hans og byrjaði að spjalla. Að sjálfsögðu komst ég ekki ofan í sjóinn til hans, en hann leiðbeindi mér ofan í og þaðan varð ekki aftur snúið. Þegar ég settist ofan í sjóinn fann ég fyrir algjörri slökun, einhverju sem ég hafði aldrei upplifað áður. Það má segja að á þessu augnabliki hafi ANDRI ICELAND orðið til. Með þessum leiðum náði ég að safna orkunni aftur og þetta er eitt að því sem ég kenni á námskeiðunum okkar. Ég gef áfram til annarra hvernig hægt er að vinna sig upp úr kulnun í lífi og starfi, og í raun örmögnun eins og ég upplifði á þessum tíma í mínu lífi.“

Á von á fyrsta barni sínu bráðlega

Tanit og Andri eiga von á fyrsta barninu sínu eftir nokkrar vikur þegar lítil stúlka mun líta dagsins ljós.

Fyrir á Andri tvær dætur sem deila heimili með þeim í Hafnarfirði en einnig með móður sinni þess á milli.

„Herbergi stúlknanna eru hlið við hlið, sem mér finnst dásamlegt. Yngri dóttir Andra á fallegt barnaherbergi sem er innréttað í hennar stíl. Eldri dóttir hans og systir mín skiptast á að nota herbergið þar við hliðina sem er fallega innréttað eftir höfði þeirra beggja. Við erum ennþá að móta herbergið sem yngsta dóttir okkar mun eiga. Náttúran spilar meginhlutverk og við höfum ákveðið að hafa fáa hluti fyrst um sinn í herberginu. Á meðan við erum að finna hvað mun henta henni best.“

Í opna rýminu á neðri hæðinni er svæði þar sem Andri situr oft með bók eða tölvuna sína. Sófinn er lágur og er einnig góður til að hugleiða í. Inni í því rými eru einnig bækur og altarið þar sem kristallar og bjöllurnar eru.

Á neðri hæð hússins er opinn krókur með bókum sem …
Á neðri hæð hússins er opinn krókur með bókum sem gaman er að glugga í. mbl.is/Kristinn Magnússon

Húsið þeirra Tanit og Andra er í stöðugri þróun. Þau eru með aðbúnað til að kæla úti í garði og fallega verönd þar sem náttúran leikur ekki síður hlutverk en svæðið inn í húsinu.

„Ég fer daglega berfætt út í garðinn okkar til að tengja mig með aðstoð náttúrunnar. Hér er einstaklega mikill friður, hér eru álfar og steinar, tröll og falleg orka sem umvefur okkur í garðinum. Það er dásamlegt að standa í garðinum berfættur og vera úti í náttúrunni og leyfa henni að endurnæra það sem þarf að gerast innra með okkur hverju sinni.“

Fer berfætt út í garð sama hvernig viðrar

Tanit fer út í garð berfætt sama hvernig viðrar.

„Ég fer út í garð berfætt á öllum árstíðum. Ef mér sem dæmi líður ekki vel einn daginn fer ég út og það minnir mig á að allt verður í lagi aftur.“

Af hverju heldurðu að þú hafir tengt svona vel við Ísland allt frá byrjun?

„Umhverfið og menningin hér er svo allt öðruvísi en á Spáni. Í Barselóna sem dæmi þá gat ég aldrei lagt frá mér töskuna mína. Þar er mikið um spennu í umhverfinu og maður er í raun og veru aldrei alveg öruggur. Það er andstæðan við það sem ég upplifi hér. Ég eignaðist strax marga vini og við vorum dugleg að fara út í náttúruna, tjölduðum og áttum dýrmætar stundir saman inni á milli þess sem við lærðum og unnum. Orkan í náttúrunni hér hefur heillað mig frá upphafi, síðan finnst mér dásamlegt að geta lifað í því öryggi sem ég upplifi hér daglega.“

Bækur um andlegan þroska og allskonar uppbyggilegt efni.
Bækur um andlegan þroska og allskonar uppbyggilegt efni. mbl.is/Kristinn Magnússon
Andri eyðir hluta af deginum á þessum stað að vinna …
Andri eyðir hluta af deginum á þessum stað að vinna í tölvunni, hugleiða eða lesa. mbl.is/Kristinn Magnússon
Dóttir Andra og systir Tanit skipta með sér þessu herbergi …
Dóttir Andra og systir Tanit skipta með sér þessu herbergi sem þær hafa báðar smekk fyrir. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »