„Við settum nýtt eldhús þegar við fluttum inn“

Ástríður Birna Árnadóttir á skrifstofunni sinni heima.
Ástríður Birna Árnadóttir á skrifstofunni sinni heima. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástríður Birna Árnadóttir  arkitekt býr ásamt fjölskyldu sinni í rólegu hverfi á Kársnesinu. Hún telur að það geti bætt líðan fólks að hafa fallegt í kringum sig. Hún þorir að blanda saman litum og formum.

Ástríður Birna arkitekt stofnaði nýverið Órar arkitektúr. Hún er einnig hluti af ARKITÝPU, í samstarfi við Karitas Möller arkitekt.

Ástríður býr með Magnúsi Friðriki Einarssyni og syni þeirra Einari Árna. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn, en segir ástæðuna fyrir því að hún búi og starfi í Kópavogi eftirfarandi.

„Eftir árin í Danmörku og yndislegan tíma í Þingholtunum þurftum við að stækka aðeins við okkur og þá varð Kársnesið og fjölbýlishús teiknað af Kjartani Sveinssyni fyrir valinu. Mér finnst mikill kostur við skipulagið í þessari íbúð að það býður upp á vissan sveigjanleika þannig að það er auðvelt að taka niður milliveggi eða setja upp til að bæta við svefnherbergi ef þess þyrfti í framtíðinni.“

Á sér nokkur uppáhaldshús í hverfinu

Ástríður Birna segir að þau hafi fallið fyrir útsýninu og hverfinu sem er fjölskylduvænt en á sama tíma dálítið hrátt.

„Hverfið er í mótun. Við Magnús lásum Kópavogskrónikuna um jólin eftir Kamillu Einarsdóttur og lýsingarnar í þeirri bók fanga fullkomlega þennan sjálfskapaða stíl sem einkennir grunninn í byggðinni og hverfisskipulaginu hérna. Það má segja að ást okkar á hverfinu hafi farið á nýjan stað eftir lestur þessarar frábæru bókar.

Ástríður Birna Árnadóttir arkitekt stúkar af eldhúsið með sófa og …
Ástríður Birna Árnadóttir arkitekt stúkar af eldhúsið með sófa og teppi á eldhúsgólfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Núna er mikil uppbygging á Kársnesinu sem mér líst mjög vel á, íbúðarbyggð í iðnaðarhverfinu við höfnina og svo kemur jafnvel brú yfir í Nauthólsvík. Ég á nokkur uppáhaldshús hérna á Kársnesinu, einbýlishús eftir Högnu Sigurðardóttur við Sunnubraut og Kópavogskirkju eftir Hörð Bjarnason.“

Með mörg járn í eldinum

Ástríður Birna útskrifaðist sem arkitekt fyrir tæplega tíu árum.

„Ég er starfandi arkitekt en ég lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn. Ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki í vor sem heitir Órar arkitektúr og hef verið svo lánsöm að fá fullt af spennandi verkefnum sem að spanna þann breiða skala sem arkitektar vinna við. En það er allt frá innanhúshönnun til hönnunar húsa og almenningsrýma.

Ég er einnig í samstarfi við Karitas Möller arkitekt sem við köllum ARKITÝPA, við sýndum á Hönnunarmars í ár. Fyrir sýninguna hönnuðum við plöntulampa, fataslá og borð. Núna erum við að huga að því að þróa hönnunina áfram og undirbúa fleiri sýningar. Í sumar hönnuðum við nýtt almenningsrými á Miðbakkanum þar sem hreyfing og samvera var í fyrirrúmi, en á torginu var hjólabrettasvæði, körfuboltavöllur, hjólabraut og matarmarkaður. Við unnum verkefnið fyrir Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Ég er síðan í startholunum að stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í stíliseringu fyrir fasteignasölu með öðrum arkitekt.“

Þegar kemur að ástæðu þess að Ástríður Birna valdi arkitektúr segir hún að hún hafi alltaf verið frekar listræn.

„Ég var með frábæran myndmenntarkennara í Háteigsskóla, Siggu Jónu, hún kenndi mér að treysta innsæinu þegar kemur að sköpun en jafnframt að leysa ákveðin verkefni innan viss ramma.

Ég hef alla tíð heillast af fallegum rýmum hvort sem það er í þeim skilningi að vera fallegt heimili, torg eða að vera úti í náttúrunni. En ég vissi ekki mikið um starf arkitektsins eða um arkitektanámið þegar ég komst inn í námið beint eftir menntaskóla. Þetta var mjög krefjandi og skemmtilegt ferðalag að verða arkitekt og er enn, því ég er stöðugt að læra og mótast sem hönnuður.“

Klassísk dönsk hönnun í öndvegi

Þegar kemur að heimilinu segir hún að allir komi sínum hugmyndum að.

„Við fjölskyldan höfum ánægju af listaverkum, matargerð og boltaleikjum svo eitthvað sé nefnt og reynum að hafa heimilið þannig að við njótum þess að geta verið saman. Það er heppilegt að Magnús er algjör mínimalisti því ég er smá safnari í mér og má segja að það einkenni að vissu leyti stílinn á heimilinu, vandlega valdir hlutir sem gleðja okkur. Ég hef gaman af því að hafa persónulega hluti eins og myndlist eftir systur mína og líkön úr arkitektanáminu í bland við bækur og plöntur. Húsgögnin eru blanda af klassískri danskri hönnun og nýrri hönnun úr ýmsum áttum þar sem ég reyni að vanda mig að velja hluti sem okkur þykja fallegir en eru jafnframt þægilegir.“

Ástríður Birna segir fallegt útsýni skipta hana miklu máli.
Ástríður Birna segir fallegt útsýni skipta hana miklu máli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað getur þú sagt mér um eldhúsið þitt?

„Við settum nýtt eldhús þegar við fluttum inn þar sem við ákváðum að taka niður veggi inn í eldhús til að opna rýmið og fá glugga til vesturs inn í alrýmið. Innréttingin er frá IKEA og mér finnst dökki liturinn henta vel í opnu rými. Vegghillurnar eru frá Fólk Reykjavík. Lýsingin í eldhúsinu er dálítið leikandi, erum bæði með kastara, hangandi ljós og veggljós en það virkar vel til að skapa ólíka stemningu. Innangengt er í þvottahús úr eldhúsinu sem er mjög þægilegt fyrirkomulag.“

Vilja geta gert mismunandi hluti

Stofan, eldhúsið og borðstofan eru í alrými sem Ástríður Birna segir henta lífsstíl fjölskyldunnar vel.

„Við viljum gjarnan vera saman þegar allir eru heima en við viljum geta verið að gera eitthvað mismunandi. Það er dálítið krefjandi að innrétta svona opið rými en ég reyni að skipta því upp með því að mynda svæði með uppröðun á húsgögnum, nota mottur og lýsingu til að afmarka hvert svæði.“

Hvert er uppáhaldshornið þitt heima?

„Græni sófinn er einstaklega þægilegur og er dálítið uppáhalds hjá mér. Þaðan get ég horft á Öskjuhlíðina, himininn og hluta af Esjunni. Þetta gefur mér einhverja ró og gleði.“

Fallegar bækur á sófaborði.
Fallegar bækur á sófaborði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástríður er með vinnuaðstöðu heima sem hún segir að sé ennþá í mótun.

„Ég er líka með vinnuaðstöðu hjá Nýsköpunarmiðstöðinni við Hlemm þar sem ég vinn og funda hversdagslega. En hérna heima í stúdíóinu finnst mér gaman að ögra sjálfri mér í að mála, skissa eða búa til líkön. Ég er ennþá að innrétta stúdíóið en það er gott að hafa stað fyrir gömlu skissubækurnar, tilraunir, bækur og teiknidót. Stúdíóið er líka leiksvæði fyrir Einar Árna.“

Listaverk það nýjasta inni á heimilinu

Það nýjasta inni á heimilinu er listaverk eftir Bjarka Bragason.

„Ég fékk þetta listaverk að gjöf, en það var hluti af sýningu eftir hann á Nýlistasafninu í ár. Í verkinu eru sýnishorn af gróðri úr garðinum hjá ömmu hans og afa sem voru frumbyggjar á Kársnesinu. Verkin sjálf og sagan tengd sýningunni heilluðu mig.“

Þegar kemur að því nýjasta í heimilishönnun í dag segir Ástríður Birna að persónulegur stíll hvers og eins sé mikilvægur.

„Persónulegur stíll þar sem þægindi, notagildi og fagurfræði fara saman er það sem einkennir heimilishönnun í dag. Náttúruleg og endurunnin efni eru vinsæl og þurfa að vera það því að byggingariðnaðurinn notar alltof mikið af hráefnum og orku eins og staðan er í dag. Við þurfum að velja hlutina okkar af meiri kostgæfni og þess vegna má notagildið gjarnan vera fjölþætt eða órætt. Við hjá ARKITÝPU höfum verið að leika okkur aðeins á þessu svæði þar sem hlutirnir sem við hönnum bjóða upp á margþætta nýtingu en við köllum þessa hönnun rýmisgögn. Fatastatífið getur jafnframt deilt upp rými, verið hilla eða einfaldlega skúlptúr.

Grænn litur á sófa fer vel með bláa teppinu.
Grænn litur á sófa fer vel með bláa teppinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýsköpun í hönnun tengd endurnýtingu á byggingarefnum eða notkun umhverfisvænna lausna er það sem koma skal. Ég held upp á nokkra íslenska hönnuði í þessu samhengi; Portland sem koma á óvart með framleiðsluaðferðum, fallegum formum og hugviti og TOS sem hanna undurfagra veggskúpltúra úr léttsteypu sem eru efst á óskalistanum mínum fyrir heimilið.“

Það getur bætt líðan að hafa fallegt í kringum sig

Hvað er tímalaust og alltaf fallegt að þínu mati?

„Falleg og hlýleg blanda af litum, áferðum og vönduðu efnisvali í hönnun.

Rými þar sem dagsbirta er í aðalhlutverki hvort sem það er á látlausan máta eða áberandi. Það að ramma inn fallegt útsýni með gluggasetningu eða hvernig bygging er staðsett í landslagi.“

Hvaða verkefni ertu að vinna í dag?

„Eftir að ég fór að vinna sjálfsætt er ég að vinna að mörgum verkefnum í einu. Ég er núna að hanna heilsárshús í samstarfi við fyrirtæki sem heitir Arno sem lætur framleiða húsin úr timbureiningum. Ég er líka að sinna innanhúsráðgjöf, teikna iðnaðarhúsnæði og sumarhús.

Við hjá ARKITÝPU erum að fást við spennandi og gefandi verkefni núna sem er hönnunarráðgjöf fyrir Laugarásinn – meðferðargeðdeild fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóm á byrjunarstigi. Þessi deild sem er dag- og legudeild er í einstaklega fallegu húsi eftir Skarhéðin Jóhannsson arkitekt. Þarna ríkir heimilislegur andi þar sem faglegt og metnaðarfullt starf er unnið. Við erum að gera hugmyndir að því hvernig er hægt að nýta betur rými í húsinu sem samverurými eða litla stofu í stað þess að vera ónýttur gangur eða millisvæði þar sem húsgögn sem ekki eru í notkun safnast saman. Mér finnst skipta miklu máli að huga vel að lýsingu og að því að skapa fallega heild með efnis- og litavali. Það er auðvitað mjög persónubundið hvernig rými hafa áhrif á okkur en ég tel að það geti bætt líðan fólks að hafa fallegt í kringum sig og að njóta góðs arkitektúrs eins og þetta hús hefur upp á að bjóða.“

Listaverkin njóta sín í íbúðinni.
Listaverkin njóta sín í íbúðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon
Hansa hillunum er fagurlega komið fyrir á veggnum og raðað …
Hansa hillunum er fagurlega komið fyrir á veggnum og raðað upp af mikilli næmni. Hér má sjá hvað standandi blómpottar geta verið fjörugir og skemmtilegir sem skraut. mbl.is/Kristinn Magnússon
Hér má sjá Skötuna eftir Halldór Hjálmarsson fara vel með …
Hér má sjá Skötuna eftir Halldór Hjálmarsson fara vel með Trip Trap stólinn, bláu hringmottuna og ljósin úr Ikea. Kristinn Magnússon
Eldhúsinnréttingin er úr Ikea og er með viðarborðplötum. Eldhúsborðið sem …
Eldhúsinnréttingin er úr Ikea og er með viðarborðplötum. Eldhúsborðið sem er í sömu hæð og innréttingin, kemur vel út. mbl.is/Kristinn Magnússon
Liturinn í eldhúsinu er einstaklega fallegur.
Liturinn í eldhúsinu er einstaklega fallegur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Snyrtilegt svefnherbergi.
Snyrtilegt svefnherbergi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Barnaherbergið er aðgengilegt og skemmtilegt.
Barnaherbergið er aðgengilegt og skemmtilegt. mbl.is/Kristinn Magnússon
Skapandi og skemmtileg vinnustofa heima hjá Ástríði Birnu Árnadóttur.
Skapandi og skemmtileg vinnustofa heima hjá Ástríði Birnu Árnadóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ástríður Birna kann vel að meta að geta unnið hluta …
Ástríður Birna kann vel að meta að geta unnið hluta af verkefnum sínum heima. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál