„Mér finnst frábært að kantskera og geggjað að reyta arfa“

Ásta Kristjánsdóttir.
Ásta Kristjánsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Á bak við þriggja hæða parhús við Hringbrautina í Reykjavík dafnar fallegur unaðsreitur hvar Ásta Kristjánsdóttir, lögmaður og blómálfur í þriðja kvenlegg, ræður ríkjum. Hún tók við garðinum af móður sinni, sem áður hafði komið honum upp með sinni móður, en Ásta vill meina að áhugi á garðrækt sé sér að öllum líkindum í blóð borinn. 

V ið konurnar í fjölskyldunni eigum það sameiginlegt að líða hvergi betur en úti í garði,“ segir Ásta sem á margar minningar úr garðinum en húsið við Hringbraut, sem var byggt af afa hennar, hefur haldist í fjölskyldunni alla tíð og ber garðurinn merki þess að hafa verið sinnt af mikilli alúð.

Sem unglingur fór Ásta í garðvinnu hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Hljómskálagarðinum. „Þetta átti alveg svakalega vel við mig. Mér fannst þetta skemmtilegt og ég upplifði tilganginn í garðræktinni, sem er að skapa eitthvað fallegt um leið og maður tengist náttúrunni.“

Hlustar á hljóðbækur um leið og hún nærir líkama og sál

Fyrir Ástu eru öll verk í garðinum jafn skemmtileg og hún segist ómögulega geta kvartað yfir neinu, nema mögulega því að vera ekki nógu sterk til að grafa upp trjástubba og saga niður trjágreinar. Það sé þó ekki mjög alvarlegur vandi enda hjálpin alltaf skammt undan í stórri fjölskyldu.

„Mér finnst frábært að kantskera, geggjað að reyta arfa og skriðsóleyjar og sálbætandi að hlúa að blómunum mínum. Ef það er eitthvað sem mér gæti mögulega þótt leiðinlegt þá er það að ganga frá fyrir veturinn, hreinsa verkfærin, tæma pottana og þess háttar, því það markar endalok sumarsins. Að stússast í garðinum jafnast á við hugleiðslu og svo er líka hægt að hlusta á hljóðbækur meðan maður er að dunda sér við verkin og það hentar mér vel. Það nærir bæði líkama og sál,“ segir Ásta og bætir við að sér sé alveg sama hvað hún sé að gera eða hvar hún sé stödd í garðinum.

„Ég er jafn ánægð, hvort sem ég sit á þægilegum stól með kaffibollann minn og dáist að blómunum eða er á bólakafi inni í beði að reyta arfa. Mér líður eins og ég sé komin í vin í eyðimörkinni þegar ég opna út í garð og er búin að gleyma mér í einhverju stússi áður en ég veit af. Ég flakka úr einu verki í annað og tíminn flýgur,“ segir Ásta og auðvelt er að skilja samlíkinguna þar sem umferðin við Hringbraut getur verið mikil og garðurinn í suðursólinni eins og falinn sælureitur.

Eins og að kveðja náskyldan ættingja

Blómin eru Ástu afar kær og hún segist eiga mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra.

„Í mestu alvöru þá sé ég fegurðina í hverju einasta blómi og tré. Ég finn þetta best þegar ég stend frammi fyrir því að losa mig við einhverja plöntu úr garðinum. Þá er eins og ég sé að kveðja náskyldan ættingja,“ segir Ásta og hlær en bætir svo við að þó eigi hún sér eitt eftirlætisblóm. „Það kallast „Sweet pea“ á ensku, og er í hávegum haft þar í landi, eða baunablóm á íslensku. Ég hef löngum sáð fyrir baunablómum á vorin og hef uppskorið marga vendi af litríkum blómum sem ilma svo vel allt sumarið. Sáning fræja almennt kallar á þolinmæði sem ég á ekki til í stórum skömmtum, en það er auðvelt að rækta baunablóm og þau eru voða sumarleg og sæt.“

Verndar frumbyggjana sem amma setti niður

Þegar fólk er jafn djúpt sokkið í áhugamálin sín og Ásta þá hikar það vanalega ekki við að gera tilraunir og prófa sig áfram.

„Ef mig langar að prófa að rækta eitthvað þá geri ég það hiklaust enda er umbunin svo góð ef það tekst. Fyrir nokkrum árum langaði mig til dæmis að prófa hvort ég gæti ræktað fingurbjargarblóm af fræi. Það gekk svona glimrandi vel og þau eru svo dugleg að sá sér að við erum enn að njóta góðs af, fáum þessi fallegu blóm sjálfsáð á hverju sumri,“ segir Ásta glöð og bætir við að næstsíðasta sumar hafi hún sett niður valmúafræ í þeirri von að sjá svo litríka valmúa skjóta upp kollinum. Sá draumur rættist svo í fyrra og af þeim öllum er eftirlætið hennar hvíti risavalmúinn. Þá segist hún einnig mjög stolt af því hvað hún á orðið margar tegundir í garðinum.

„Ég er líka ánægð með þá stefnu sem ég tók nýlega, að reyna að varðveita tegundir sem mér fundust lengi vel hversdagslegar af því þær hafa verið í garðinum alveg frá upphafi. Til dæmis gullhnappur og silfursóley, riddaraspori og liljur vallarins. Nú finnst mér eitthvert gildi í því að vernda þessa frumbyggja og þar með halda gömlum minningum á lofti,“ segir Ásta sem ræðst einnig í nýstárlegri tilraunir, eins og til dæmis að rækta hvítlauk og nú lárperu, eða avókadó sem hún segir nýjasta æðið.

„Nú er ég komin með fullan glugga af lárperusteinum“

„Ég hef verið að fylgjast með frábærri konu á Instagram sem er að rækta alls kyns plöntur úr ávaxtasteinum, ákvað að prófa og nú er ég komin með fullan glugga af lárperusteinum sem eru að gera sig líklega til að dafna. Nokkrir þeirra eru reyndar komnir með lauf og ég var að setja þá í mold en framan af er þetta vatnsræktun. Ég er líka með mangósteina sem eru að gera góða hluti. Þetta er mjög skemmtilegt og svo finnst mér þetta líka fallegt hvort sem búast má við uppskeru eða ekki. Það er aldrei að vita hvað getur gerst,“ segir hún og rifjar upp eitt sumarið þegar hún rakst á framandi lauf milli blómanna.

„Mig grunaði að þetta gætu verið kartöflugrös svo ég ákvað að bíða bara og sjá. Þetta reyndist rétt greining því um haustið fengum við ágætis uppskeru þrátt fyrir að hafa ekki sett niður eina einustu kartöflu. Ég hallast helst að því að útsæðið hafi komið úr moltukassanum mínum þegar við tæmdum hann í beðin um vorið og dafnað svona ansi vel. Síðan þá hef ég leikið mér að því að stinga tveimur til þremur kartöflum niður inni á milli blómanna og oft fengið nokkrar kartöflur að hausti,“ segir hún kankvís.

Sækir innblástur í aðra garða og á Instagram

Ásta segist sækja innblástur frá allskonar garðagúrúum og þá helst á Instagram.

Þar nefnir hún Monty Don sem sinn uppáhalds en hún fylgist einnig með þáttunum hans „Gardeners' World“ á BBC. Hún nefnir einnig Danann Claus Dalby og Alexander Hoyle og til að halla ekki á kynjakvótann þá nefnir hún einnig blómadísirnar Violet Grey, Emily Thompson og Karolinu hjá Länsmansgården.

„Ég fæ líka innblástur af því að ganga um bæinn og skoða garða sem ég veit að eru fallegir og vel hirtir. Ég furða mig stundum á því hversu fáir hafa áhuga á að gera garðana sína fallega en það fer ekkert framhjá manni ef sá áhugi er fyrir hendi og mér finnst voðalega gaman að rölta og kíkja á þessa garða og fá hugmyndir.“

Ásta er með nokkuð róttækar breytingar á prjónunum fyrir garðinn sinn en síðast var honum bylt fyrir rúmlega áratug.

„Árið 2008 gerðum við talsverðar breytingar á garðinum. Gerðum til dæmis útgengt úr stofunni, grófum fyrir nýrri stétt og hellulögðum auk þess sem við breyttum uppröðun beðanna allverulega. Þetta var talsverð vinna en hún lagði grunn að garðinum eins og hann er í dag. Nú rúmum áratug síðar er næsta verkefni að koma upp glerhúsi þar sem við getum framlengt íslenska sumarið, ræktað og yljað okkur yfir kaffibolla. Þetta verkefni er á teikniborðinu og er farið að taka á sig mynd svo nú reynir á framtakssemina,“ segir blómálfurinn Ásta sem nýlega tók blómaástríðuna upp nýtt þrep.

„Það má segja að ég sé orðin einskonar blómatrúboði. Ég er alltaf að reyna að breiða út blómaboðskapinn“ segir hún og kímir. „Ég er nýlega byrjuð að setja saman blómaskreytingar í útipotta sem eru hafðir við útidyr, á pöllum, borðum og annars staðar þar sem fólk vill fegra umhverfi sitt utandyra. Þetta hefur fallið vel í kramið enda margir sem vilja njóta fegurðarinnar! Blómin gleðja,“ segir lögmaðurinn, náttúruunnandinn og garðálfurinn Ásta Kristjánsdóttir að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »