Getur loksins haldið matarboð fyrir fleiri en sex

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Sæbjörg Guðjónsdóttir eða Sæja eins og hún er kölluð á einstaklega fallegt heimili. Í vor neyddust hún og maður hennar til þess að fara í framkvæmdir þegar vatnsrör sprakk í eldhúsinu og það þurfti að setja nýja eyju og ýmislegt fleira. 

Við réðumst í heilmiklar breytingar, bæði utan og innan. Inni færðum við veggi, settum gólfhita, tókum burðarvegg í stofu. Breyttum innréttingum, fengum nýjan stein, máluðum og fleira og fleira. Að utan settum við nýja glugga í allt ásamt því að síkka nokkra og setja hurð úr hjónaherbergi út í pott. Steyptum bílaplan og pall ásamt niðurgröfnum „pytti“ með heitum potti og eldstæði, steyptum veggi og settum skjólveggi úr timbri á móti, máluðum húsið og klæddum að hluta til, gerðum ný beð, færðum tré og svo mætti lengi telja. Ég hef reyndar breyst í mikinn blómálf eftir þessi ævintýri úti og elska að dúllast í blómapottunum og spúla pallinn,“ segir Sæja.

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Er öðruvísi að hanna eigið heimili en að hanna fyrir annað fólk?

„Já, að vissu leyti, hér heima fæ ég auðvitað að ráða þessu sjálf en nálgunin er alltaf sú sama, að ná því besta úr hverju rými fyrir sig sem hentar heimilisfólkinu.“

Í vor neyddist Sæja til að fara í framkvæmdir þegar upp kom leki í eldhúsinu.

„Í vor vöknuðum við upp við hálfgert gufubað og þegar fram var komið var allt á floti í sjóðandi vatni með tilheyrandi skemmdum og veseni. Lagnir í krananum í eyjunni gáfu sig og þurftum við því að fjarlægja eyjuna þar sem hún var ónýt en sem betur fer slapp flest annað. Þar sem við ákváðum að fjarlægja burðarvegginn í stofunni í samráði við verkfræðing gafst tækifæri til að minnka eyjuna og koma fyrir borðstofu þar fyrir aftan en það var ógerlegt þegar veggurinn var til staðar. Við þessar breytingar breyttist rýmið svakalega og ég gat hugsað það alveg upp á nýtt. Ég hélt háu einingunni, enda þykir mér hún alltaf mjög falleg, en ákvað að dekkja nýju eyjuna í brúngráan tón og valdi stórkostlegan marmara sem heitir Kenya og er frá Granítsmiðjunni. Hann er til dæmis eitthvað sem kúnnar gætu hræðst en eftir að ég valdi hann heim hef ég fengið að nota hann til dæmis sem „feature“-vegg bakvið svart baðkar í æðislegu húsi sem er í vinnslu. Þannig getur verið öðruvísi að hanna fyrir mig frekar en kúnna þar sem ég get gert tilraunir heima sem þeir svo eru frekar til í eftir að hafa séð hjá mér. Ég hannaði svo einnig barskáp í stíl við eyjuna sem setur punktinn yfir i-ið.“

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Inni í stofu er einstaklega fallegur skenkur úr marmara.

„Steinninn er svo fallegur að ég ákvað að útbúa „pall“ undir hillu og þar fyrir ofan er sjónvarp. Sjónvörp eru þó sjaldan næs á mest áberandi staðnum í húsinu og því fengum við okkur Samsung Frame, algjör snilld, og ekki skemmir fyrir þetta fallega „málverk“ sem ég fékk í bónus.“

Hvað ertu búin að búa lengi í húsinu?

„Við keyptum húsið 2013 og höfum búið hér síðan. Vorum að hugsa um að flytja en staðsetningin er bara svo æðisleg að ég gat ekki hugsað mér það. Því ákváðum við að fara heldur í breytingar svo húsið hentaði okkur betur. Hér verðum við því vonandi alltaf.“

Þegar fjölskyldan festi kaup á húsinu var það í upprunalegu ástandi.

„Planið var að taka gólfefnin og bíða og sjá til svo með framhaldið og taka tíma í að hanna það. Það endaði þó með fokheldu húsi eftir þrjá daga en það er önnur saga. Við ákváðum þó að ráðast í smá breytingar aftur núna þar sem við erum bara orðin þrjú í heimili. Við breyttum því aðeins herbergjaskipan svo nú er ég með enn stærra fataherbergi og prinsessan fékk stærra herbergi. Við áttum svo alveg eftir að fara í húsið að utan svo það var kominn tími á það núna. Eins og allir vorum við ekkert að ferðast til útlanda vegna kórónuveirunnar og því var bara farið í þetta núna eins og svo margir aðrir.“

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Hvað með litina á veggjunum? Hvaða liti varstu að nota?

„Ég var með litinn minn Ber frá Slippfélaginu á öllu alrými áður og ákvað að halda honum þar sem hann er mjög fallegur. Ég er svo að koma með nýtt litakort fyrir Slippfélagið sem hefur verið í bígerð síðasta árið og notaði litinn Leir í hjónaherbergi og böð. Hann er í miklu uppáhaldi og tónar vel með öðrum í þessu nýja litakorti sem ber heitið „Ilmur“ og er væntanlegt á haustdögum,“ segir hún.

Eftir að Sæja tók niður burðarvegg í stofunni gafst færi á að breyta og skipta um húsgögn.

„Ég ákvað að fá mér risasófa frá Minotti en ég lét yfirdekkja hann hjá GÁ húsgögn með æðislegu ljósu efni. Sófaborðin hannaði ég sjálf og eru úr Emperador-marmara frá Granítsmiðjunni,“ segir hún og játar að hún elski marmara.

„Ég pantaði mér svo Etcetera Lounge-stólinn eftir Jan Ekselius frá Svíðþjóð. Hann er upphaflega frá 8. áratugnum en hefur farið aftur í endurframleiðslu eins og svo mörg önnur húsgögn frá þessum tíma. Viðarstólinn er frá Heimahúsinu og stóra málverkið er eftir Steingrím Gauta en hann er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum. Til að ramma inn stofuna er ég svo með mjög stóra ullarmottu frá Parket og gólf. Þar sem við erum með flotað gólf ákvað ég að setja viðarloft yfir stofuna en ég hafði einmitt teiknað það líka árið 2013 þegar við fórum fyrst í framkvæmdir en settum það svo aldrei upp. Það var því gert núna og hljóðvistin stórbatnaði á eftir. Það er svo einnig á svefnherbergisganginum sem væri annars hálf tómlegur.“

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Baðherbergi hússins tóku líka nokkrum breytingum.

„Inni á gestabaðinu bættum við sama Kenya-marmaranum eins og í alrými en héldum innréttingunni og vaskinum sjálfum. Til hliðar við klósettið er smá hilla inni í steininn til að fela pappírinn, sem ég elska. Eins máluðum við það rými og ég átti þennan spegil fyrir og færði hann í þetta rými, en hann er frá Further North og er mjög kúl. Inni á aðal baðherberginu máluðum við veggi og loft og ég ákvað að setja messing plötu yfir gömlu borðplötuna sem fær að „sjúskast“ með tímanum og verða enn fallegri. Á vegginn fyrir ofan baðkarið setti ég svo fallega mynd eftir Guðnýju Magnúsdóttur sem er mjög róandi landslagsmynd. Það má nefnilega alveg hengja list inni á baðherbergi.“

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir

Ljósið fyrir ofan borðstofuna, hvaðan er það?

„Þetta ljós hefur lengi verið í uppáhaldi og hef ég fengið að setja það upp hjá kúnnum. Ég varð því bara að fá mér það en það er listaverk út af fyrir sig með mjúkri og fallegri birtu. Það heitir Cloud og er frá Apparatus. Ég á þó enn eftir að láta smíða fyrir mig fallegt viðarborðstofuborð en það hefur bara ekki gefist tími í það. En hugmyndin er að hafa ósamhverft hnotuborð með fótum fyrir miðju. Þetta er enn á teikniborðinu.“

Hvernig breyttist stemningin á heimilinu eftir að þú fórst í þessar breytingar?

„Stemningin breyttist mikið þar sem ég get loksins haldið matarboð fyrir fleiri en sex og sófinn rúmar fjölskylduna alla á þægilegan hátt við sjónvarpsgláp. Eins fengum við okkur nýtt rúm og létum GÁ húsgögn bólstra gafl svo mér finnst ég loksins vera orðin fullorðin enda aldrei fengið mér höfðagafl áður.“

Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Ljósmynd/Guðfinna Magnúsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál