Blokkir eru sannarlega bestar

Karl F. Sævarson heldur úti Instagram-síðunni Blokkir eru bestar. Þessi …
Karl F. Sævarson heldur úti Instagram-síðunni Blokkir eru bestar. Þessi reykvíska blokk er í uppáhaldi hjá mörgun. Ljósmynd/Aðsend

Karl F. Sævarsson mannfræðingur heldur úti instagramsíðunni Blokkir eru bestar en þar birtir hann skemmtilegar og áhugaverðar myndir af blokkum. Karl býr sjálfur í blokk sem hann segir bæði hagstætt og umhverfisvænt. Fagurfræði blokka heillar líka Karl en það eru þó ekki síst samfélögin í hverjum stigagangi sem vekja áhuga mannfræðingsins. 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á byggingarlist, arkitektúr og skipulagsmálum, þrátt fyrir að hafa tekið annan veg hvað menntun varðar. Ég var á ferðalagi vítt og breitt um landið í sumar og fannst svo magnað að jafnvel fámennir þéttbýlisstaðir höfðu að geyma blokk. Það var á Hvammstanga sem ég sá æðislega blokk og hugsaði með mér: þetta þarf hreinlega að skrásetja fyrir alþjóð og koma á blað hið snarasta! Það kaldhæðnislega er að þessi blokk hefur ekki enn þá verið birt á síðunni minni því myndin sem ég tók var ekki nógu góð og ég þarf því að gera mér ferð þangað aftur við fyrsta tækifæri,“ segir Karl um síðuna. „Upp frá þessu fóru landsbyggðarblokkir að vekja sérlegan áhuga hjá mér og áður en ég vissi af var ég kominn með dágott myndasafn. Mér finnst blokkirnar oft lífga upp á ásýnd bæja sem oft á tíðum hafa annars einsleitan húsakost.“

Þessa blokk þekkja margir úr vinsæu íslensku tónlistarmyndbandi.
Þessa blokk þekkja margir úr vinsæu íslensku tónlistarmyndbandi. Ljósmynd/Aðsend

Áhugi Karls á blokkum er þríþættur

„Arkitektúr og skipulagsmál spila auðvitað stóra rullu á síðunni minni. Fagurfræði og form í hinu byggða umhverfi skipta okkur öll miklu máli, ekki síst vegna þess að þau eru allt í kringum okkur, alltaf.

Sem mannfræðingur þá hef ég mikinn áhuga á mikró-samfélögum og það eru akkúrat samfélögin sem maður finnur innan hverrar blokkar. Það er einn íbúi svona, og annar hinsegin og svo er ákveðinn kúltúr sem þar má finna. Svo má líta á húsfélagið sem einskonar ráð samfélagsins, þar sem reglur og viðmið eru sett. Formaður þess er svona eins og „big-man“ blokkarinnar og alltaf má finna einn hlébarðaskinns-höfðingja í hverri blokk, þann sem sjattlar málin ef upp koma deilur.

Að lokum er það saga stéttabaráttu og saga almúgans fyrir mannsæmandi lífi. Sú saga er samtvinnuð sögu byggðarþróunar. Verkamannabústaðir tóku að rísa hér á landi til að koma fólki úr heilsuspillandi húsnæði, eins og braggarnir voru til dæmis. Fyrstu íslensku blokkirnar, við Hringbraut 37-47, risu til að mynda í slíku átaki. Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa almennilegt þak yfir höfuðið og með byggingu blokka og fjölbýlishúsa hefur náðst mikill árangur hér á landi á því sviði. Á öðrum stöðum á jarðkringlunni er lengra í land og ekki að ástæðulausu að mannsæmandi húsnæði fyrir alla skuli vera hluti af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Karl kann að meta drungalegar og klunnalegar blokkir.
Karl kann að meta drungalegar og klunnalegar blokkir. Ljósmynd/Aðsend

Engu að síður reyni ég að taka mig ekki of hátíðlega og spila jafnt á milli staðreynda, sögu og bara að skemmta fólki með heiðarlegri blokk, til þess er nú leikurinn gerður. Það má vissulega líta á síðuna sem hálfgerða fræðimennsku með skráningu blokka en fyrst og fremst er þetta til að hafa gaman af.“

Áttu þér uppáhaldsblokk?

„Myndirðu gera upp á milli barnanna þinna? Djók. Ég get ekki nefnt eina staka blokk, en stórar, drungalegar og klunnalegar blokkir eru í miklu uppáhaldi. Ég er líka mjög hrifinn af nýmóðins og framúrstefnulegum blokkum.“

Form blokka er oft fjölbreyttara en einbýla.
Form blokka er oft fjölbreyttara en einbýla. Ljósmynd/Aðsend

Karl ólst að mestu leyti upp í raðhúsi. Þegar hann sjálfur fór að búa kaus hann að búa í fjölbýlishúsi. 

„Þegar ég svo flutti að heiman dugði ekkert minna en að flytja í Kríuhólana, mér fannst það algert æði, á sjöundu hæð með frábæru útsýni yfir „Mekka“ blokkanna, Breiðholtið. Síðan þá hafa blokkirnar sem ég hef búið í farið minnkandi. Ég bý í dag í ágætis fjölbýlishúsi í Hlíðunum. Það er ekki að ástæðulausu að ég er mannfræðingur, ég vil hafa alls konar fólk og menningu í kringum mig og einsleit einbýlishúsahverfi heilla mig ekki,“ segir Karl. 

Margir kannast við að upplifa erfiða nágranna í blokk en Karl segir kostina við það að búa í blokk svo sannarlega vega upp á móti því. Samvistin við aðrar manneskjur heillar hann, sparnaður í viðhaldi er góður kostur og sem frjókornapési er hann ánægður með að þurfa ekki að sjá um heilan garð einn.  

Sagan á bak við af hverju Íslendingar kusu fyrst og fremst sérbýli þangað til nýlega er áhugaverð.

„Sögulega séð hafa íslendingar búið við þröngan húsakost í aldanna rás. Reykjavík tók að stækka eftir seinna stríð samhliða aukinni velmegun og fjárfestingu á einkabílnum. Þetta gerði það að verkum að úr varð dreifbýl borg. Nú er aftur áhersla á þéttingu byggðar með byggingu blokka og upplifun mín er að mín kynslóð vilji til að mynda minna húsnæði, kjósi frekar mínímalískan lífsstíl og aukið frelsi til að leika sér. Slíkt hefur einnig mikinn sparnað í för með sér hvað varðar alla innviði eins og samgöngukerfi og lagningu raf- og vatnslagna.“mbl.is