Íslensk kona óttast að makinn sé sokkinn í fjárhættuspil

Edgar Hernandez/Unsplash

Alma Haf­steins­dótt­ir fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi með sér­hæf­ingu í spilafíkn svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá frá konu sem spyr um bónuspeninga.

Sæl Alma

Mig langar að spyrja þig varðandi „bónuspening“ eða „gjafapening“ sem maki minn segist fá frá fyrirtækinu sem hann spilaði alltaf hjá á netinu. Er þetta fjárhættuspil eða bara svona eins og venjulegur spilaleikur þegar hann notar þessa peninga? Tek það fram að hann er að reyna að hætta að spila á netinu.

Kveðja,
B.

Alma Hafsteinsdóttir.
Alma Hafsteinsdóttir.

Sæl B.

Vandinn við þessa „peninga“ er að þeir eru oft notaðir þegar viðkomandi hefur spilað töluvert en er ekki virkur í spilun. Þetta eru ekki gefins peningar þó svo að það líti þannig út. Hugmyndin á bak við þá er að fá viðkomandi aftur til að spila. Einstaklingar byrja með þessa upphæð en í langflestum tilvikum halda þeir svo áfram með sína peninga.

Margir hafa þá hugmynd um fjárhættuspil að það snúist um peninga en svo er ekki. Mögulega fyrst þegar fólk byrjar þá snýst þetta um peninga og að „græða“ en þegar fólk hefur misst stjórn skipta peningar engu máli. Ef þetta snerist um peninga væri auðvelt mál að hætta þegar fjárhættuspil þeirra stefndi í óefni eða tapið væri orðið verulegt.

Þegar einstaklingar hafa misst stjórn skiptir ekki neinu máli hvort viðkomandi sé að spila fyrir þessa svokölluðu bónuspeninga eða sína eigin því aðalmálið er að byrja ekki að spila yfirhöfuð. Margir byrja einmitt aftur í gegnum þessa markaðssetningu og hugsa: þetta eru ekki mínir peningar og ég ætla bara að spila fyrir þá, bara smá. En þegar þeir eru byrjaðir að leggja undir tekur spilafíknin yfir og þeir geta ekki hætt þegar bónuspeningurinn er búinn og byrja að leggja sína peninga undir. Auk þess fylgja þessum bónuspeningum alltaf skilyrði. Til dæmis að viðkomandi getur ekki leyst þá út, ef viðkomandi vinnur vinning þá er ekki hægt að leysa hann út fyrr en hann hefur farið ákveðið oft í gegnum kerfið hjá þeim (spilað fyrir þá) eða það eru tímamörk á hvenær má leysa peninginn út.

Ef þessi fyrirtæki ætluðu sér að gefa peninga þá væru peningar lagðir inn á reikning eða kreditkort viðkomandi en þetta er ekki gjöf heldur er tilgangurinn að fá viðkomandi aftur til baka. Það eru jafnvel dæmi um einstaklinga sem hafa látið útiloka sig af ákveðnum síðum, í viðleitni til að hætta að fá svona bónuspeninga.  

Því ráðlegg ég öllum sem eru að reyna að hætta eða eru hættir fjárhættuspilum að nota þetta ekki og gera sér grein fyrir að spilafíkn þeirra snýst ekki um pening og þetta er ekki gjöf! 

Kveðja, 

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ölmu spurn­ingu HÉR. 

mbl.is