Húsnæðisskortur í Hafnarfirði

Aron Freyr Eirkíksson fasteignasali hjá ÁS í Hafnarfirði.
Aron Freyr Eirkíksson fasteignasali hjá ÁS í Hafnarfirði.

Aron Freyr Eiríksson, löggiltur fasteignasali á ÁS fasteignasölu, segir að Skarðshlíð í Hafnarfirði sé spennandi kostur fyrir þá sem vilja splunkunýja íbúð. Hann segir að húsnæðisskortur setji svip sinn á markaðinn. 

„Í Skarðshlíð í Hafnarfirði er talsvert af nýjum íbúðum á leið á sölu á næstu vikum og mánuðum. Við Geislaskarð og Hádegisskarð eru að koma tvö meðalstór fjölbýli og einnig eru minni fjölbýli við Stuðlaskarð að koma á sölu með vorinu. Þá hefur verið að koma eitt og eitt sérbýli í hlíðinni sjálfri og má vænta þess að fleiri slíkar eignir komi á sölu á næstu mánuðum,“ segir Aron Freyr og bætir við að þessar íbúðir henti stórum hópi.

„Þetta eru sambærilegar íbúðir og áður hafa komið á sölu á svæðinu, þ.e. 2ja, 3ja og 4ra herbergja en nú bætast einnig örfáar 5 herbergja íbúðir í flóruna. Lyftur eru í stærri fjölbýlum og minni fjölbýlin eru með íbúðum sem hafa sérinngang. Það má því segja að íbúðirnar henti öllum sem eru í fyrstu kaupum, að stækka eða minnka við sig og eins fyrir fólk með dýr,“ segir hann.

Hefur verið mikill íbúðaskortur í Hafnarfirði?

„Já, það hefur verið talsverður íbúðaskortur í Hafnarfirði síðastliðin ár sem sýnir sig best á söluhraðanum á þeim fáu nýbyggingum sem hafa komið á sölu undanfarin ár. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Bjarkavellir 1B fóru á sölu 2014 en það voru 25 íbúðir sem seldust upp á einum sólarhring. Sami verktaki byggði svo þrjú svipuð hús til viðbótar á árunum 2015-2017 og þau seldust öll án þess að við næðum að setja þau í auglýsingu, eftirspurnin var slík. Sama átti við um megnið af fjölbýlunum við Kirkjuvelli 8-12 sem byggð voru í kringum 2018. Nýjustu dæmin eru svo við Brenniskarð 1 þar sem allar íbúðir seldust á fimm dögum og svo við Hraunskarð 2-8 og Hádegisskarð 4-6 nú í byrjun þessa árs en þau fjölbýli voru seld upp áður en auglýsingasíðan fyrir húsin var tilbúin til birtingar. Þessi dæmi sýna svart á hvítu hversu mikill íbúðaskorturinn hefur verið en vonandi munu nýbyggingarnar sem koma inn næstu mánuði og ár hjálpa til við að ná betra jafnvægi á markaðinn í Hafnarfirði,“ segir hann.

Hvernig er útlitið með nýbyggingar í Hafnarfirði ef horft er lengra fram í tímann?

„Á næsta ári má búast við fyrstu íbúðunum á sölu í Hamranesi, sem er næsta hverfi við Skarðshlíðina, en þar tók Byggingarfélag Gylfa og Gunnars fyrstu skóflustunguna fyrir nokkrum dögum. Í því hverfi verða byggðar 1.200 – 1.500 íbúðir.

Fimmmínútnahverfið eins og það er kallað, við Hraunin í Hafnarfirði er einnig komið langt í ferlinu en þar eru 490 íbúðir að fara af stað í byggingu með haustinu. Við Flensborgarhöfn er einnig verið að skipuleggja nýja glæsilega byggð. Þá er Ásland 4 og Ásland 5 komið í rammaskipulag og því nóg fram undan, og þá líka talsvert af sérbýlum. Hér hafa verið nefnd heilu hverfin sem eru væntanleg. Þar fyrir utan er fjöldi smærri einstakra verkefna eins og litlar íbúðir við Skipalón 3, raðhús og einbýlishús við Hjallabraut og fleiri eignir sem teljast undir þéttingu byggðar,“ segir hann.

Hverju finnst þér fólk vera að leita eftir núna?

„Í dag má segja að fólk sé að leita að öllu íbúðarhúsnæði. Allt frá stúdíóíbúðum upp í stór einbýlishús og penthouse-íbúðir. Eftirspurnin í sérbýli hefur aukist gríðarlega síðustu mánuði en eftirspurnin hefur verið góð í minni eignir flest síðustu ár svo það má segja að í dag sé eftirspurnin orðin mikil í allar eignir. Eftirspurnin var minni í sérbýli í samanburði við annað fyrir ekki svo löngu síðan.“

Hvað mælir þú með að fólk geri ef það vill flytja? Á það að byrja á því að finna sér eign og setja sína á sölu eða selja sína eign og finna sér síðan íbúð?

„Fólk á að gera það sem því líður vel með. Það er stór ákvörðun að selja eignina sína án þess að vera búinn að festa aðra eign en það getur aftur á móti komið aðilum í gríðarlega góða stöðu lendi fólk í samkeppni um fasteign í tilboðsgerð. Fyrir fólk sem hefur samastað annars staðar en í fasteigninni sem þarf að selja þá ættu þeir aðilar alvarlega að hugsa um að selja fyrst. Margir hafa einnig farið þá leið í dag að setja á sölu án þess að vera með annað og ef það kemur gott tilboð í eignina þeirra þá hefur það verið samþykkt með fyrirvara um að seljandi nái að festa sér aðra fasteign innan mánaðar frá samþykki kauptilboðsins. Finni seljandinn ekki fasteign á þeim tíma hefur hann heimild til að rifta sölunni. Þessi leið hefur reynst alveg gríðarlega vel en það heyrir til algerra undantekninga að sölu sé rift eftir svona samning. Langflestir finna sér aðra eign á tímanum, semja um lengri frest til að leita eða endursemja um góðan afhendingarfrest og dæmið þannig látið ganga upp. Fólk virðist sýna hvert öðru extra mikinn skilning í þessu ástandi sem nú ríkir hvað varðar skort á framboði, enda allflestir af vilja gerðir til að láta dæmin ganga.“

Hvernig verður 2021 á fasteignamarkaðnum?

„2021 verður gott ár á fasteignamarkaðnum. Það munu margar eignir koma á sölu en við höldum áfram að sjá það sem hefur verið að gerast, framboðið á hverjum tímapunkti er lítið. Ástæðan er sú að eignirnar seljast nánast jafnóðum. Þegar salan er eins hröð og hún er í dag þá er alltaf eins og ekkert sé á sölu en þeir sem fylgjast vel með markaðinum og skoða fasteignavefina daglega þeir munu finna eign sem hentar. Það þarf bara að bregðast hratt og vel við þegar rétta eignin kemur og þar getur undirbúningurinn skilað miklum árangri. Þá stefnir líka í að árið fari í sögubækurnar tæknilega séð þegar fyrsta rafræna kaupsamningnum verður þinglýst, nái markmið þeirra aðila sem koma að því fram að ganga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda