Lífið í sjoppulega unglingaherberginu!

Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Mér var sagt það þegar ég var barn að bjartsýni og jákvæðni borgaði sig því þá yrði tilvera fólks bærilegri. Mér var líka sagt að þessi tvenna kæmi fólki yfir skaflana sem geta orðið á vegi okkar í lífinu. Þess vegna ákvað ég að vera frekar þessi jákvæða týpa þegar ég yrði stór, en hef nú komist að því að systurnar jákvæðni og bjartsýni geta farið með fólk út í skurð. Þessa dagana sit ég svolítið í súpunni.

Fyrir nokkrum mánuðum ákváðum við fjölskyldan að flytja, sem er nú líklega ekki saga til næsta bæjar. En út af alls konar, sem ekki verður farið nánar út í hér, þurftum við að redda okkur millibilshúsnæði í tvo mánuði eða svo. Elsku tengdapabbi minn býr svo vel að eiga íbúð á besta stað í Reykjavík sem hann notar lítið og leyfði okkur að búa í íbúðinni sinni á meðan við værum heimilislaus.

Við maðurinn minn ræddum fram og til baka hvort þetta væri góð hugmynd. Íbúðin væri töluvert minni en okkar fyrri íbúð og hann hafði áhyggjur af því að við myndum missa vitið þegar við færum að rekast hvert utan í annað í plássleysinu. Svona miðaldra fólk eins og við getur verið nokkrum númerum of vanafast sem getur skapað togstreitu ef það er mikið flipp í gangi. Maðurinn minn ákvað að gefa þessu séns eftir að ég taldi honum trú um að þetta yrði einstök upplifun. Við myndum lifa eins og við værum í útlöndum. Við gætum labbað í mathallir, á kaffihús og farið á Rauða ljónið á kvöldin. Lifað eins og greifar og látið eins og við værum á okkar uppáhaldseyju, Madeira.

Maðurinn minn er raunsær. Hann tekur yfirleitt ekki ákvörðun nema vera búinn að taka allar mögulegar og ómögulegar breytur inn í jöfnuna. Hann þarf líka að vera 100% viss um að ákvörðunin sé rétt áður en hann tekur hana. Eftir miklar umræður samþykkti hann þennan gjörning. Mér finnst líklegt að loforð um að geta eytt kvöldunum á Rauða ljóninu hafi gert útslagið en því miður hefur ekkert orðið af þeim ferðum sökum annríkis í lífi og starfi. Svo sagði hann: „Þetta hlýtur að ganga ef það verða engar frekari samkomutakmarkanir. Við getum ekki verið bæði í heimavinnu í þessari íbúð.“

Með jákvæðnina að vopni pökkuðum viði gamla heimilinu niður á mettíma og vorum mjög peppuð þegar við fluttum fatnað og helstu eigur úr Fossvoginum yfir í Vesturbæinn. Nokkrum dögum eftir að við fluttum í „útlandaíbúðina“ voru samkomutakmarkanir hertar og sundlaugum lokað. Ég sannfærði hann um að þetta yrði ekkert mál! Við ættum hvort annað og það væri nú ekki eitthvað sem allir gætu státað af.

Nokkrum dögum síðar bankaði húsvörðurinn upp á hjá okkur og tilkynnti að vatn úr sturtunni hjá okkur læki niður í næstu hæð. Við yrðum að hætta að nota hana þangað til hún yrði löguð.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta ekki verið neitt mál þar sem daglegar sundferðir eru stór hluti af lífi okkar. Það versnaði aðeins í því þar sem sundlaugar voru lokaðar á þessum tímapunkti. Eftir að hafa þvegið á mér hárið í baðvaskinum hugsaði ég með mér að þetta væri nú ekki alveg tilveran sem ég hefði óskað mér en gætti þess að hafa ekki hátt um það. Nokkrum dögum síðar birtist engill í mannsmynd sem gerði við sturtuna og þá varð lífið aðeins skárra aftur.

Það sem gerist hins vegar þegar fólk býr þröngt er að það er ekki pláss fyrir neitt. Þegar allt er út um allt minnkar áhugi á að taka til og gera það sem fólk gerir heima hjá sér. Bráðum verðum við búin að búa í útlandaíbúðinni í tvo mánuði og íbúðin er orðin eins og vel sjoppulegt unglingaherbergi. Maðurinn minn er búinn að horfa á 90 klukkutíma af Game of Thrones og ég er að verða komin í gegnum allt ritsafn Guðrúnar frá Lundi. Ég skil núna hvers vegna unglingar geta verið eins og þeir eru. Fólk sem býr í sjoppulegu unglingaherbergi missir smátt og smátt lífsviljann og fer að haga sér furðulega. Það er bara eitt sem gæti gert út af við okkur og það er ef eigandi íbúðarinnar, tengdafaðir minn blessaður, myndi banka óvænt upp á. Þá væri úti um okkur!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »