Hefur séð gamla hluti breytast með smá ást

Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins.
Ruth Einarsdóttir rekstrarstjóri Góða hirðisins. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins, segir Ísland mikið neyslusamfélag sem sé gott og blessað en bendir á að þá þurfum við að vera tilbúin til að taka ábyrgð á hringrásarhagkerfinu okkar. Hún hvetur alla til að gefa hlutum nýtt líf. Hún hafi séð ótrúlegustu hluti breytast með smávegis sandpappír, málningu og spreyi. 

Það vantar ekki verkefnin hjá henni þessa dagana. Enda landsmenn duglegir að losa sig við gamla hluti og kaupa sér nýja.

„Við vorum að leggja lokahönd á opnun verslunar Góða hirðisins á Hverfisgötu 94-96. Við opnuðum þar í lok apríl. Hringrásarhagkerfið er okkur efst í huga þessa dagana með aukna áherslu á endurnot. Við erum að sníða verkferla og vettvanga til aukinna endurnota. Verslun okkar að Hverfisgötu er einn liður í því. Síðan erum við að þróa áfram netverslun okkar og svo er flaggskipið okkar í Fellsmúla alltaf ofarlega í huga. Ég verð að nefna einnig Efnismiðlun Góða hirðisins sem er staðsett á Endurvinnslustöðinni Sævarhöfða sem er markaður með byggingavörur og efni til framkvæmda.“

Ruth er ófeimin við að nota liti heima hjá sér.
Ruth er ófeimin við að nota liti heima hjá sér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eru lyftistöng inn í líknarfélög

Ruth gengur í öll störf innan fyrirtækisins.

„Þau þrjú ár sem ég hef starfað sem rekstrarstjóri GH hef ég kosið að ganga í öll störf innan einingarinnar. Þannig fékk ég innsýn inn í alla króka og kima rekstursins og hef þar af leiðandi tengst vel öllu starfsfólki okkar. Í dag er mitt hlutverk að halda utan um vörumerkið Góði hirðirinn. Finna hagkvæmar leiðir til að auka endurnot og láta gott af okkur leiða enda gefum við allan hagnað til góðgerðarmála. Það hvílir mikil ábyrgð á okkur gagnvart samfélaginu, bæði þegar kemur að umhverfismálum og svo sem lyftistöng inn í líknarfélög.“

Hvað hefur breyst með árunum? „Við höfum breytt ýmsu í okkar verklagi til að auka endurnot. Við höfum teymi frá GH sem starfar við það að fara á milli stöðva og þétta okkar nytjagám, einnig erum við með starfsmenn á stærstu endurvinnslustöðvunum um helgar í sama hlutverki. Það eykur nýtingu þeirra og kemur í veg fyrir að munir skemmist í flutningi. Meðalþyngd gáma hefur farið úr 2,3 tonnum í 3,6 tonn og þarna verður líka mikil hagræðing í kostnaði. Við höfum bætt við netverslun og svo útibúi á Hverfisgötu. Ef það verður uppsöfnun á vöruflokkum þá stillum við upp tilboðum eða afsláttum frekar en að farga. Á þremur árum höfum við náð endursöluhlutfallinu upp frá því að vera 26% í 70%.“

Eru landsmenn að losa sig við mikið af húgögnum og heimilisvörum?

„Já, okkur berast um 7 til 10 tonn á dag. Það er þá allt frá smávöru og upp í húsgögn og allt þar á milli. Landmenn eru mjög meðvitaðir um að hlutir sem þjónað hafi sínum tilgangi á þeirra heimili geti vel nýst öðrum.

Viðskiptavinir okkar eru dásamlegur og fjölbreyttur hópur. Í raun þverskurður af samfélaginu. Til okkar kemur fólk sem til dæmis hefur ekki mikið á milli handanna, fólk sem lifir þessum lífsstíl að eingöngu kaupa notað en sá hópur fer stækkandi. Til okkar koma einnig endursöluaðilar, sem kaupa húsgögn, gera þau upp og selja svo á netinu áfram. Eins er mikið um áhugafólk um gamla muni. Sá hópur er einnig duglegur að gera upp hlutina sem keyptir eru. Einnig koma hingað stílistar sem eru að vinna að leikmyndum þátta, bíómynda og leikhúsa.“

Sólstofan hefur verið vinnustofan heima á tímum kórónuveirunnar.
Sólstofan hefur verið vinnustofan heima á tímum kórónuveirunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opnuðu verslun á Hverfisgötu með gæðavörur

Hvað með verslunina á Hverfisgötu?

„Þar sem mikla aukningu er að finna á vilja fólks til endurnota var rökrétt að opna á Hverfisgötu. Við sáum hvað viðbrögðin við netsölunni voru mikil. Við þurftum að auka við fermetra og aðgengi fólks að Góða hirðinum. Viðskiptavinir okkar voru í raun að kalla eftir þessu. Það er blæbrigðamunur á Hverfisgötu og Fellsmúla. Við tökum allar vörur í hús í Fellsmúla og flytjum þær svo niður á Hverfisgötu. Þannig að það er valin vara sem fer þangað. Þar höfum við tækifæri til að hafa svo kallaðar „high-end“-vörur en reynum líka að hafa alla okkar vöru- og verðflokka. Verslunin á Hverfisgötu er svona meiri upplifun í framsetningu. Við leggjum mikið upp úr að stilla út og skapa þar ákveðið andrúmsloft á meðan í Fellsmúla er meiri áhersla lögð á einfaldari framsetningu og keyrt á magni. Viðtökur GH á Hverfisgötu hafa verið frábærar og viðskiptavinir okkar mjög jákvæðir. Ég persónulega hef trú á framtíð miðbæjarins enda starfaði ég þar í verslun í mörg ár á árum áður, fyrir Kringlu og Smáralind. Allar borgir þurfa að hafa miðbæ með fjölbreyttum verslunum og þjónustu, við teljum okkur vera að leggja af mörkunum þar. En við erum ekki hætt og erum að skoða að bæta enn frekar við verslunarrými Góða hirðisins.“

Hvað með þitt eigið heimili?

„Við keyptum okkur hús á Akranesi fyrir ári og fer einstaklega vel um fjölskylduna okkar hér.

Hér er ró, öll þjónusta, stutt í náttúruna og svo göngum við bara út á golfvöll sem er mikið fjölskyldusport á okkar heimili.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn heima?

„Það er klárlega sólstofan. Hún hefur verið minn griðastaður og vinnustaður á tímum kórónuveirunnar. Þaðan horfi ég upp á Akrafjallið og kann einstaklega vel við mig á stað með svo góðu útsýni.“

Hvað með uppáhaldshúsgagnið þitt?

„Það er skemill sem hann afi minn heitinn, Gunnar Guðmundsson, tré- og húsgagnasmiður, smíðaði. Skemillinn er vel yfir 50 ára og hefur því verið í mínu lífi alla tíð. Hann er enn með upprunalega áklæðinu sem reyndar er nú orðið lúið og planið er að láta bólstra hann upp á nýtt. Hann minnir mig á afa minn sem var mikill handverksmaður og smíðaði mikið af tekkhúsgögnum. Ég á líka mjög fallegan tekkbakka eftir hann. Þessir hlutir munu fá að vera samferða mér og færast svo til barnanna minna. Mér finnst það fallegt.“

Fallegir munir frá hinum ýmsu tímabilum eru víða á heimilinu.
Fallegir munir frá hinum ýmsu tímabilum eru víða á heimilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er sjálf mikið fyrir gamla hluti

Kaupir þú mikið af húsgögnum sjálf sem eru antík?

„Það hef ég alltaf gert alveg frá því ég flutti að heiman. Mér finnst skapast meiri karakter á heimilum þar sem þetta nýja og gamla fær að mætast. Það væri líka bara svo mikil synd að loka á alla fallegu munina og handbragðið sem orðið hefur til í gegnum árin. Svo er auðveldara að skipta notuðu út því það eru oftast ódýrari munir og þá verður okkar nánasta umhverfi ekki staðnað.“

Ruth vil hvetja alla landsmenn til að huga að endurnotum. „Við Íslendingar erum mikið neyslusamfélag sem er gott og blessað en við verðum þá að vera tilbúin til að taka ábyrgð á hringrásarhagkerfinu okkar. Gefið hlutum annað líf. Maður hefur séð ótrúlega fallega hluti umbreytast með smá ást, sandpappír, málningu eða spreyi.“

Borðstofan er björt og falleg.
Borðstofan er björt og falleg. mbl.is/Kristinn Magnússon
Listaverk eftir Snorra Ásmundsson setur svip sinn á stofuna.
Listaverk eftir Snorra Ásmundsson setur svip sinn á stofuna. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fallegar bækur á stofuborðinu.
Fallegar bækur á stofuborðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ruth velur mynstur og liti fram yfir einfaldleikann.
Ruth velur mynstur og liti fram yfir einfaldleikann. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál