Það er hægt að vera í garðinum allt árið

Dagbjört Garðarsdóttir er náttúrubarn sem fékk snemma mikinn áhuga á hönnun og arkitektúr. Það lá því beint við að hún legði stund á nám í landslagsarkitektúr en hún útskrifaðist með meistaragráðu í faginu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2018. 

Hún segir það að fá að vinna með lifandi efnivið í hönnun sinni einstaklega gefandi og telur þar með að sjá verkið taka breytingum eftir því sem tíminn líður því gróður vex jú og landslag er alltaf að breytast.

„Þegar ég kynnti mér námið fannst mér mikil áskorun fólgin í því að hanna umhverfi okkar og koma náttúrunni fyrir í þá hönnun á fallegastan og bestan máta en það skemmtilegasta við starfið finnst mér vera tækifærið sem felst í því að hanna hið byggða umhverfi. Það hvernig við sem einstaklingar skynjum umhverfi okkar, og hvernig við nýtum þessa upplifun í kringum byggingar, þótti mér strax mjög áhugavert þegar ég hóf námið. Það sem heillar mig mest þegar ég skoða garða og lóðir er hvernig mannvirki falla að sínu náttúrulega umhverfi eða inn í það. Mér finnst það merki um góða hönnun þegar það er borin virðing fyrir því náttúrulega sem er fyrir á staðnum og þegar natni er lögð í val á efnum, og þegar samsetning efna gefur hönnuninni góðan heildarsvip,“ segir Svanfríður.

Fimm ára háskólanám til að fá löggildingu

Líkt og kemur fram í viðtalinu við Svanfríði Hallgrímsdóttur annars staðar í þessu blaði er nám í landslagsarkitektúr afar fjölbreytt. Þar mætast ýmis fög og hönnunaráfangarnir eru fjölbreyttir.

„Við fáum tækifæri til að skapa, teikna og hanna allt frá einkalóðum og almenningsrýmum yfir í stór bæjarskipulög. Svo tökum við bóklega áfanga sem koma meðal annars inn á lýðheilsu, vistfræði og grasafræði svo eitthvað sé nefnt. Mér finnst þetta samspil listrænnar sköpunar og bóklegrar þekkingar gera námið mjög áhugavert og skemmtilegt. Þetta er svo fjölbreytt og svo margt sem er tekið með inn í myndina. Sem löggildur landslagsarkitekt þarf maður að klára fimm ára háskólanám í faginu sem samanstendur af þriggja ára grunnnámi til BS-gráðu og tveggja ára meistaranámi. Í dag er einungis hægt að taka fyrstu þrjú árin hér í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, en meistaranámið þarf að klára erlendis. Ég fór í Landbúnaðarháskólann og útskrifaðist svo frá Kaupmannahafnarháskóla með cand.hort.arch í landslagsarkitektúr.“

Þekking og reynsla eykur notagildi lóðarinnar

Dagbjört segir flesta Íslendinga halda til Norðurlandanna til að leggja stund á nám í landslagsarkitektúr en eitthvað hafi þó verið um að fólk færi til Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskalands.

„Ég valdi Kaupmannahafnarháskóla af því þar var boðið upp á borgarhönnun meðfram námi í landslagsarkitektúr og það heillaði mig sérstaklega,“ segir hún og bætir við að Íslendingar séu alltaf að verða duglegri og duglegri að nýta sér þekkingu fagfólks við að hanna einkagarða og nærumhverfi. „Maður tekur eftir því að flestir hafa myndað sér hugmynd um hvernig þeir vilja sjá garðinn sinn og nærumhverfið. Hafa eytt tíma í hugmyndavinnu og hvert notkunargildið á að vera. Þegar leitað er til landslagsarkitektsins þá vinnur hann eða hún áfram með hugmyndir eigandans, nú eða hannar þær frá grunni. Þekking og reynsla gefur oft á tíðum meiri gæði í hönnunina og notagildi lóðarinnar verður meira og betra enda vita fagmenn hvað ber að varast og hvað er gott að leggja áherslu á,“ segir hún.

Dagbjört segir að margir eigi það til að huga ekki að öllum árstíðum þegar kemur að gróðurvali, efnisvali eða tegund dvalarsvæðis.

„Fólk á það til að hugsa að garðurinn sé einungis nýttur á sumrin og sé að mestu viðhaldsfrír. Það er samt vel hægt að njóta einkagarðsins árið um kring, og það eru sannarlega lífsgæði sem við ættum að nýta okkur betur, hvort sem er í glampandi sól eða á köldum vetrarkvöldum,“ segir landslagsarkitektinn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál