„Það verður enginn meistari í fyrsta sinn“

Ásdís og Oddný með nokkrar af vörum sínum.
Ásdís og Oddný með nokkrar af vörum sínum. mbl.is/aðsend mynd

Þær Ásdís Inga Helgadóttir og Oddný María Haraldsdóttir áttu ekki von á því að geta farið að kalla sig vöruhönnuði eftir að þær sóttu námskeið í sementsgerð í byrjun árs. Eftir botnlausa vöruþróun síðustu mánuði létu þær til skarar skríða og stofnuðu litla vefverslun undir nafninu BURK sem sérhæfir sig í að hanna og framleiða fallegar og nýtískulegar heimilisvörur úr sementi.

„Við fórum alveg óvart út í þessa framleiðslu. Við ætluðum fyrst bara að fara saman á keramik námskeið upp á gamanið en svo rákumst við á námskeið þar sem verið var að kenna að búa til vörur úr sementi. Við skelltum okkur á það og lærðum undirstöðuatriðin en það er heill hellingur sem við höfum þurft að læra sjálfar og af því erum við ákaflega stoltar.“

Framleiðslan fer að öllu leyti fram á heimilum þeirra beggja en þær eru búsettar í Reykjanesbæ. 

„Heimilin okkar líta oft út eins og verksmiðjur. Við höfum alveg sett allt heimilislíf á hliðina en það finnst okkur bara vera vel þess virði. Erum samt ekki vissar hvort aðrir heimilismeðlimir okkar séu sammála því.“

Ljósmynd/Aðsend

Mikill áhugi og þrotlaus vinna

„Við ákváðum að stofna síður á Facebook og Instagram núna í ágúst í nafni BURK til þess að sjá hvort almenningur hefði jafn mikinn áhuga á þessum vörum og við sjálfar. Það heltist yfir okkur algjör sprengja á Facebook – algjör gleðisprengja.“

Allt seldist upp á örskots stundu sem setti lagerstöðuna tímabundið á ís. Framleiðslan þurfti að taka kipp og vinna þær þrotlaust að því að framleiða og bæta við vöruúrvalið jafnt og þétt, sem getur oft verið meira en tveggja manna verk. Viðtökurnar kalla á fleira starfsfólk.

„Það eru bara við tvær sem stöndum að þessu öllu. Það er auðvitað á nógu að taka.  Okkar draumur með BURK er að fá að starfa við þetta og jafnframt búa til störf í Reykjanesbæ. Við teljum vera þörf á því miðað við atvinnuleysið sem á sér stað þar sem og annar staðar á landinu. Við höfum áður unnið með Virk og það hefur gefið góða raun. Það er mikilvægt að geta hjálpað fólki aftur út á vinnumarkaðinn með því að gefa þeim einhvern tilgang.“

Ljósmynd/Aðsend

Lærdómsríkt að gera mistök

Mikill tími hefur farið í að ná fram réttum áferðum og litasamsetningum en allar vörurnar eru handunnar og því hefur hver einasta vara sitt einstaka yfirbragð. Það sem gefur vörunum mikinn sjarma er að engin þeirra en nákvæmlega eins. Þó svo að það sé hluti af heildarhugmyndinni þarf samt sem áður að vanda vel til verka.   

„Við erum búnar að klúðra helling af hlutum. Það tekur tíma að finna hvaða efni hentar best á hvað og hvað kemur best út hverju sinni. Það verður enginn meistari í fyrsta sinn en við höfum það mikla trú á því sem við erum að gera og það er það sem hefur haldið okkur gangandi í gegnum þau mistök sem við höfum gert. Við lærum mest á þeim og þar með getum við verið vissar um að við séum að bjóða upp á betri gæði og fallegar vörur.“

Ljósmynd/Aðsend

Spenntar fyrir komandi tímum

Ásdís og Oddný segjast vera mjög ólíkar þegar kemur að mörgu. Það geri vinskap þeirra sterkari því þær læra sífellt eitthvað nýtt af hvor annarri.

„Við sjáum hlutina oft á ólíkan hátt og við trúum að það sé ein af mörgum ástæðum þess að BURK hafi heppnast svona vel. Okkur finnst dásamlegt að engin vara sé eins og skemmtilegt að fylgjast með því hvaða vörur kalla á viðskiptavini okkar. Við erum öll svo ólík og heillumst af ólíkum mynstrum, áferðum og litum.“

Ljósmynd/Aðsend

Auðmjúkar segjast þær hlakka til framtíðarinnar og séu yfir sig þakklátar yfir viðtökunum sem þær hafa fengið. BURK sé demantur sem sé í þann mund að slípast.

„Þakklæti er okkur efst í huga. Það eru forréttindi að fá að hanna og skapa, tvær ólíkar vinkonur saman. Við erum með gjafaleiki á samfélagsmiðlunum okkar til þess að þakka fyrir okkur. Það er okkar æðsti draumur að BURK komi til með að vaxa og dafna í framtíðinni. Þessi draumur skal fá að rætast,“ segja þær stöllur ákveðnar að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is