Svikin loforð

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is.
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is. Ljósmynd/Kári Sverriss

Þegar við fjölskyldan fluttum í vor hringsnerist hraðlest í hausnum á mér. Í eldhúsinu hafði verið tveggja metra hár vínkælir, sem ég veit að marga dreymir um að eignast, en ég gat ekki hugsað mér að hafa slíkan grip sem eldhússtáss.

Ætli það hafi ekki verið óttinn við að lenda á meðferðarstofnun ef ég hefði tveggja metra hátt búbblu-altari fyrir augunum alla daga. Fyrir mig er alveg nógu mikil áskorun að eiga ísskáp.

Mitt fyrsta verk var að hafa samband við arkitektinn sem hannaði eldhúsið fyrir nokkrum árum og biðja hann um að hanna endurbætur án vínkælis. Ekki stóð á viðbrögðunum. Á örfáum dögum var hann búinn að teikna þetta líka fína eldhús og það eina sem vantaði upp á var að fá trésmiðjuna sem smíðaði innréttinguna til þess að smíða viðbæturnar. Eftir nokkrar tilraunir svaraði trésmiðjan póstinum mínum og gaf okkur tilboð.

Manninum mínum ofbauð reyndar verðmiðinn á sérsmíðinni en ég benti honum á að hann ætti bara að vera þakklátur fyrir að einhver vildi smíða þetta fyrir okkur og það á tilsettum tíma.

Björt og brosandi var ég farin að raða inn í skápa í huganum. Svo kom að því að mennirnir frá trésmiðjunni vildu endilega mæla upp teikningarnar svo þetta yrði allt upp á tíu þegar innréttingin mætti á svæðið um miðjan júní. Sælan varði þó ekki lengi.

Tveimur dögum áður en innréttingin átti að koma í hús barst tölvupóstur um að innréttingin væri ekki tilbúin en þær gætu hugsanlega byrjað að smíða hana eftir tvo mánuði.

Ég hef alltaf svo mikla trú á fólki og er svo góðu vön að það hvarflaði ekki að mér að innréttingafyrirtækið myndi svíkja mig. Í stað þess að halda áfram að svekkja mig á þessu ákvað ég að slaufa pöntuninni og finna aðra lausn.

Næstu kvöld lá ég andvaka að hugsa hvað við gætum gert í staðinn. Skyndilega mundi ég eftir því að í bílskúrnum ættum við forláta palesander-skáp sem hugsanlega gæti komið í staðinn fyrir sérsmíðuðu hillurnar. Fyrrnefndur skápur er handsmíðaður í Danmörku og mikil völdunarsmíði.

Næsta skref var að hringja í smiði sem ég þekki og svíkja mig aldrei. Stuttu síðar voru litlu meistararnir mættir á svæðið og um hálftíma síðar var skápurinn kominn upp á vegg. Einhvern veginn smellpassaði hann og var í raun miklu betri lausn en sú sem ég hafði séð fyrir mér áður. Í skápinn má raða bollum og diskum, skrautmunum eða nota sem bókahillur.

Á hverjum morgni hugsa ég hlýlega til tengdaföður míns sem erfði skápinn eftir móður sína. Á meðan efri hlutinn af þessum palesander-skáp lifir góðu lífi í eldhúsinu er neðri hlutinn á ganginum þar sem hann gegnir lykilhlutverki sem hirsla og hleðslustöð fyrir raftækin sem trufla tilveru nútímafólks eins og okkar. Það sem ég lærði af þessu er að það þarf ekki alltaf að sækja vatnið yfir lækinn því stundum blasir lausnin við þegar við neyðumst til að hugsa!

Hér má sjá eldhúsið eftir að palesander-skápurinn var festur upp …
Hér má sjá eldhúsið eftir að palesander-skápurinn var festur upp á vegg.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »