Keypti hús á Bland.is og gerði það upp

Sæbali á Ólafsfirði er nýuppgerður og til sölu.
Sæbali á Ólafsfirði er nýuppgerður og til sölu. Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir

Listgreinakennarinn Helena H. Aspelund hefur sett eign sína á Ólafsfirði á sölu. Um er að ræða lítið, krúttlegt 29 fermetra hús sem var byggt árið 1895 og heitir Sæbali. Helena keypti húsið á Bland.is árið 2016 án þess að hafa séð það. Þegar hún hafði keyrt norður úr Reykjavík og varið um tveimur klukkustundum í því var hún sannfærð að hún hefði gert kjarakaup. 

Helena hefur eytt undanförnum árum í að gera það upp og í dag er það búið öllum helstu þægindum sem nútímamaður óskar sér, rennandi vatni, rafmagni og jafnvel hita í gólfinu. Gólfflötur hússins er 29 fermetrar en í risinu er svefnloft sem ekki telur með inn í fermetrafjölda. Vegna aldurs hússins er það friðað af Húsafriðunarnefnd ríkisins. 

„Ég kaupi Sæbala í gegnum Bland.is árið 2016, sá það auglýst og keyrði norður á Ólafsfjörð til að vera viss um að það væri þarna hús. Engin lykill var til að húsinu og þurfti ég að skríða inn um glugga á baðstofuloftinu, því lykillinn var týndur. Ég gat kveikt ljós og það var hlýtt og upplifunin góð í húsinu. Ég var þarna í tvo tíma og varð ástfangin af húsinu. Ég vildi takast á við nýja áskorun í lífinu og læra að smíða og stunda meira líkamlega vinnu,“ segir Helena í viðtali við mbl.is. 

Það sem heillaði Helenu mest við húsið var smæðin og líka saga hússins. Það var byggt af Ásgrími Guðmundssyni hákarlaformanni og eitt sinn voru átján manns skráðir til heimilis í húsinu, en Helena telur að það hafi verið áhöfnin á bát Ásgríms. 

Helena hefur ákveðið að selja húsið vegna þess að hún er að fara í nýtt verkefni í Fljótshlíð, þar sem hún ætlar að gera upp ættaróðal fjölskyldunnar, hús byggt af afa hennar, ömmu og langafa. 

Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir

Þurftu á hvort öðru að halda

Spurð af hverju hún hafi ákveðið að gera Sæbala upp segir Helena að þau húsið hafi þurft á hvort öðru að halda. 

„Ég var búin að láta mig dreyma um að gera upp hús í framtíðinni með einhvern mér við hlið. En svo nennti ég ekki að bíða lengur og ákvað að þetta væri tækifærið og fór að safna verkfærum og gera upp Sæbala. Staðsetningin á húsinu er sjarmerandi, þar sem húsið er nálægt höfninni. Sá sem bjargaði þessu húsi frá niðurrifi á sínum tíma er Sveinn Magnússon sem á sínum tíma skrifaði um húsið og sendi til Minjastofnunar og upp frá því var húsið friðað. Sveinn gaf mér svo sögu hússins.

Það er gefandi að gera upp hús og maður er í rauninni að vinna í sjálfum sér í leiðinni. Sæbali er alþýðuhús en þau eru ekki mörg, ég hef meira séð af uppgerðum stærri húsum eins og prestsetrum, apótekum og heldri manna húsum. Það er auðvitað dýrt að gera upp friðað hús. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað það tekur langar tíma að gera upp á móti því sem tekur að jafna það við jörðu. Sæbali er einstakt hús og það er framandi upplifun að vera í þessum smáu hlutföllum, litlu húsi,“ segir Helena.

Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir

Helena er búin að leggja mikla vinnu í kotið litla og því er það hentugur kostur fyrir þau sem sjá ekki fyrir sér að fara í miklar framkvæmdir. „Kosturinn er að ekki þarf að lyfta hendi, allt er nýuppgert á vandaðann hátt með aðstoð Minjastofnunar eftir kúnstarinnar reglum. Húsið er einstakt og friðaðað og er gott fjárfestingatækifæri, hægt að leigja það út í skammtímaleigu og leyfa þá fleirum að njóta þess eða eiga það bara fyrir sjálfan sig. Húsið heldur vel utan um mann og svo er það svo sjarmerandi og rómantískt að dvölin í húsinu er engri lík. Það eru öll nútíma þægindi sem hægt er að koma fyrir í svona litlu húsi og háhraða internet. Hægt að vera með lögheimili og fá þá hagstæðari lán fyrir vikið ef út í það er farið,“ segir Helena. 

Þegar Helena byrjaði að gera upp húsið lagðist hún í rannsóknarvinnu til að geta fært húsið í upprunalegt útlit. „Ég vildi að gæðin og hvert smáatriði fengi að njóta sín. Allt húsið er málað með olíumálningu og það tók ótrúlega langan tíma að mála það. Mikil undirbúnings vinna og margir litir, hver listi með sinn lit,“ segir Helena. 

„Húsið er fyrir þá sem hafa áhuga á gömlum húsum og fyrir þá sem vantar smá rómantík í lífið. Sá hin sami gæti einnig langað að deila því með öðrum og fá þá kannski einhverjar tekjur af húsinu. Þetta er í rauninni einstakt tækifæri og mikil blessun fyrir mig að hafa fallið fyrir þessu húsi,“ segir Helena. 

Húsið er falt fyrir aðeins 18.900.000 krónur.

Af fasteignavef mbl.is: Kirkjuvegur 19 Sæbali

Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
Ljósmynd/Halldóra Hafdísardóttir
mbl.is