Íburðarmikil íbúð Coco Chanel í París

Hér er Coco Chanel í hvíta stólnum árið 1944. Myndin …
Hér er Coco Chanel í hvíta stólnum árið 1944. Myndin var tekin í París. AFP

Íbúð Gabrielle Chanel við 31 rue Cambon í París er töfrandi. Stór húsgögn, þykk teppi, speglar og gulir veggir eru í aðalhlutverki ásamt ógrynni af skrautmunum og kínverskum veggklæðningum. Í þessari fjögurra herbergja íbúð gaf hún ímyndunaraflinu lausan tauminn og lagði grunn að næstu stórsigrum tískuheimsins. Það er eftirsóknarvert að koma í íbúð tískuhönnuðarins sáluga en þangað kemst fólk ekki inn nema því sé boðið sérstaklega. 

Íbúðin er staðsett á annarri hæð hússins en á fyrstu hæðinni rekur tískuhúsið Chanel verslun. Þetta er á sama stað og fyrsta hattabúð tískuhússins var til húsa. Stiginn upp í íbúðina er sögufrægur en speglarnir sem prýða veggina þóttu framandi þegar þeir voru settir upp á sínum tíma. Speglarnir og stigagangurinn upp í íbúðina endurspegla þó ekki íbúðina sjálfa. Á meðan stigagangurinn er glamúrinn holdi klæddur er íbúðin notaleg. Þar ríkir ákveðið „zen“ sem fólk í nútímasamfélagi er oft að reyna að framkalla heima hjá sér en nær sjaldnast. Anganin, stemningin og uppröðun á húsgögnum gerir það að verkum að þig langar helst að leggjast upp í sófa, grípa bók úr stóru bókahillunni á bak við sófann eða láta þig dreyma. Þegar mér var boðið í heimsókn nýtti ég hverja sekúndu til að grandskoða umhverfið og voru öll skilningarvit á yfirsnúningi.
Stiginn upp í íbúðina er sögufrægur. Hann endurspeglar þó ekki …
Stiginn upp í íbúðina er sögufrægur. Hann endurspeglar þó ekki stemninguna sem ríkti í íbúðinni sjálfri.

Munaðarlaus 12 ára stúlka

Gabrielle Chanel, eða Coco eins og hún var kölluð, átti skjól á þessum stað og þangað var ekki hverjum sem er boðið. Hún fæddist 1888, lifði í 88 ár og kvaddi í janúar 1971. Það sem vekur athygli er að hún giftist aldrei og eignaðist ekki afkvæmi. Hún naut þó heilmikillar karlhylli og var eftirsótt hjá vel tengdum og ríkum mönnum. Það eru líklega ótal ástæður fyrir því að ekkert ástarsamband endaði með hjónabandi, en ætli stærsta ástæðan sé ekki sú að hún missti móður sína 12 ára gömul. Það markaði tímamót. Í stað þess að alast upp hjá ekklinum föður sínum gafst hann upp og sendi hana á heimili fyrir munaðarlaus börn. Þar átti hún dapurlega æsku. Það er ekki ósennilegt að þessi ár hafi mótað hana og gert það að verkum að hún gerði hlutina á sinn hátt, ekki eftir uppskrift annarra.

31 rue Cambon

Á 31 rue Cambon réð Chanel ríkjum og hagaði sér eins og hana sjálfa lysti. Innismókurinn var ekki búinn að skila skömminni og til þess að íbúðin ilmaði ekki eins og gamall öskubakki úðaði hún Chanel N°5 yfir viðarkubbana sem hún brenndi í arninum. Þetta var náttúrulega fyrir tíma ilmkertanna en í dag er þess gætt að ilmurinn af þessu þekktasta ilmvatni heims finnist vel þegar stigið er inn í íbúðina.

Þótt Chanel ætti þessa glæsilegu íbúð á besta stað í París þá gisti hún á Ritz-hótelinu í 34 ár. Íbúðin var því eins konar griðastaður þar sem hún hlóð batteríin, tók á móti fólki og lét hugann reika. Las bækur og hugsaði.

Sótti innblástur til Kína

Veggir forstofunnar eru klæddir með kínverskum viðarplötum sem eru skreyttar með drekum og táknum sem oft hefur mátt sjá bregða fyrir í hönnun Chanel. Hún var hrifin af munum frá Kína og sjást þeir víða í íbúðinni. Í forstofunni er hvíti stóllinn sem sem Chanel var mynduð í 1937. Um er að ræða antik-stól með hvítu satín-áklæði. Eftir myndatökuna hvarf stóllinn og enginn hafði hugmynd um hvað hefði orðið af honum.

Það var svo ekki fyrr en á níunda áratugnum að Karl Lagerfeld heitinn, einn helsti hönnuður Chanel í gegnum árin, fann stólinn á uppboði á Monte Carlo og þá var honum komið fyrir í anddyri íbúðarinnar. Síðan þá hefur stóllinn verði notaður í auglýsingar fyrir Chanel og þykir hann kalla fram stemningu liðins tíma.

Allt af öllu

Hlutir úr ólíkum áttum búa til heillandi heim. Chanel hafði mikinn áhuga á Kína þótt hún hefði aldrei komið þangað og sótti í hluti þaðan eins og kínversku klæðningarnar á veggjunum segja til um. Hún dýrkaði líka Feneyjar á Ítalíu eftir að hafa ferðast þangað í fyrsta skipti 1920 og svo kunni hún að meta verk frá Grikklandi til forna og Egyptalandi.

Í íbúðinni má sjá risastórar bergkristalsljósakrónur og barokkspegla sem fara vel við stórt og ríkulegt bókasafn Chanel. Í aðalstofunni er stór ljósgulur flauelssófi sem Chanel naut þess að liggja í og lesa. Það fór vel um hana í sófanum því sófinn er extra djúpur. Bækurnar í hillunum á bak við sófann eru af ýmsum toga. Það er óvenjulegt að sjá grunnar bókahillur á bak við sófa en þannig vildi hún hafa heima hjá sér. Í miðju bókaveggsins eru aðeins lægri hillur og þar fyrir ofan er stór spegill í ramma. Sá spegill er í takt við aðra spegla í íbúðinni sem komið er fyrir á mismunandi stöðum til að búa til meiri dýpt. Fyrir gluggunum eru ljósar þykkar gardínur en þegar þær eru dregnar frá er hægt að opna stóra glugga upp á gátt. Á milli glugganna er stór spegill og fyrir framan hann borð og lampi ásamt skrautmunum. Í stofunni eru einnig nokkur borð sem eru þakin af smáhlutum sem gaman er að skoða. Í stofunni eru líka kínversk skilrúm sem eru í stíl við veggklæðningar sem eru í öðrum herbergjum.

Við hliðina á aðalstofunni á hægri hönd er önnur stofa. Hún er með svipuðum klæðningum og forstofan og þar er einnig arinn, stór bókahilla og ljónastytta sem oft sést í einhverri mynd í hönnun Chanel. Veggirnir eru listaverk og því þarf ekki mikið magn af húsgögnum til að fylla út í rýmið. Hvítur þriggja sæta antík-sófi prýðir þessa stofu og þar er einnig stór kristalsljósakróna en saman býr þetta til sterka og notalega heild.

Í íbúðinni er borðstofa með borðstofuborði í miðju herbergi. Þar geta sex manneskjur setið til borðs. Þótt Chanel fengi gesti var hún ekki hrifin af of stórum boðum og vildi geta einbeitt sér að gestunum. Þetta með að koma svona fáum fyrir við borðið var útpælt. Í borstofunni fá gulir veggir að njóta sín. Fyrir utan kristalsljósakrónu sem hangir í miðju herbergi eru stóru útskornu speglarnir í gullrömmunum sem setja mestan svip á borðstofuna. Fyrir neðan þau eru stór borð með marmaraplötu. Í miðjunni fyrir ofan arininn er svo myndarleg stytta sem hrífur fólk með sér.

Gestalistinn á 31 rue Cambon var fjölbreyttur en vinir Coco Chanel voru allt frá Salvador Dalí yfir í Elizabeth Taylor. Íbúðin er þrungin af minningum, sögu og menningu sem sjaldséð er hérlendis. Það er kannski þess vegna sem heimsókn í þessa íbúð var jafnmikil upplifun og hún var.

Hvíti stóllinn er á sínum stað í forstofunni. Það var …
Hvíti stóllinn er á sínum stað í forstofunni. Það var Karl Lagerfeld sem fann stólinn á uppboði og kom honum í íbúðina.
Í hliðarstofunni er antík-sófi og á veggjunum eru kínversk veggspjöld …
Í hliðarstofunni er antík-sófi og á veggjunum eru kínversk veggspjöld sem fest eru á vegginn. Chanel sótti mikinn innblástur í þessi listaverk.
Í forstofunni eru kínverk veggspjöld á veggjunum. Í miðjunni er …
Í forstofunni eru kínverk veggspjöld á veggjunum. Í miðjunni er stór spegill og fyrir framan hann afar fallegt gyllt borð. Hvíti antík-stíllinn sem Chanel var mynduð í á sínum tíma sést í speglinum.
Hér er horft úr hliðarstofunni inn í aðalstofuna. Veggklæðningin var …
Hér er horft úr hliðarstofunni inn í aðalstofuna. Veggklæðningin var sett þannig á vegginn að munstrið yrði ekki vanskapað ef hurðin væri opnuð.
Fyrir ofan arininn er risastór stytta af Maríu mey sem …
Fyrir ofan arininn er risastór stytta af Maríu mey sem fer ágætlega við spegilinn og veggklæðningarnar. Chanel var mjög hrifin af munum frá Kína, Feneyjum og Grikklandi.
Í íbúðinni er fjöldinn allur af skrautmunum eins og sést …
Í íbúðinni er fjöldinn allur af skrautmunum eins og sést á þessari mynd.
Ljónið er mikið notað í hönnun hjá Chanel.
Ljónið er mikið notað í hönnun hjá Chanel.
Það er gaman að sjá hvernig Chanel vildi að hlutum …
Það er gaman að sjá hvernig Chanel vildi að hlutum væri raðað upp. Þessir hlutir prýða borðstofuborðið.
Risastórir útskornir speglar, marmaraborð með útskornum fótum og svo er …
Risastórir útskornir speglar, marmaraborð með útskornum fótum og svo er allt miðjustillt í íbúðinni eins og sést á þessari mynd.
Þessir gluggar vísa út á rue Cambon. Á milli glugganna …
Þessir gluggar vísa út á rue Cambon. Á milli glugganna er spegill og svo eru þykkar ljósar gardínur fyrir gluggunum.
Hér má sjá uppröðun á hlutum í stofunni.
Hér má sjá uppröðun á hlutum í stofunni.
Chanel
Á bak við sófann eru grunnar bókahillur en sófinn sjálfur …
Á bak við sófann eru grunnar bókahillur en sófinn sjálfur er mjög djúpur. Það djúpur að tvær manneskjur gætu hæglega kúrt saman í sófanum án þess að annar myndi detta út úr.
Það er svo hlýlegt um að litast hér. Mjúkir litir, …
Það er svo hlýlegt um að litast hér. Mjúkir litir, þægilegur sófi og mild lýsing framkalla einstaka stemningu.
Á götuhæðinni opnaði Coco Chanel sína fyrstu verslun sem var …
Á götuhæðinni opnaði Coco Chanel sína fyrstu verslun sem var hattabúð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál