Bótox og borgarar virka ekki á Íslendinga

Þorlákur Einar Ómarsson segir að það virki ekki að nota …
Þorlákur Einar Ómarsson segir að það virki ekki að nota sömu ráð og í Ameríku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorlákur Ómar Einarsson, löggildur fasteignasali og eigandi Stakfells Stóreignar, vaknar hvern morgun þakklátur fyrir lífið. Hann er skemmtilegur maður sem trúir ekki á söluaðferðir á borð við þær sem við sjáum í Selling Sunset, þar sem bótox og borgarar höfða ekki til markaðarins hér. 

„Ég vakna venjulega um sex á morgnana til að mæta á æfingu klukkan sjö í Mjölni, sem ég geri að lágmarki fjóra daga vikunnar. Síðan geng ég að minnsta kosti þrisvar í viku með góðum félögum, enda er góð heilsa grundvöllur undir gott líf. Svo fer ég bara að vinna sem ég geri nánast stanslaust, það er nóg að gera og hefur gengið bara vel. Það vantar reyndar alltaf eignir til sölu og kaupendur hafa aðeins verið að draga að sér hendurnar, þeir eru að bíða og sjá, því leitin hefur verið erfið að undanförnu.“

Þorlákur segir ástandið einkennilegt, en undirliggjandi vandi sé lóðaskortur, þar sem ekki hefur verið samfella í lóðaúthlutun.

„Að kaupa eignir er ekki flókið núna, að mínu mati, þar sem lánahlutfallið er hátt og fólk minnkar bara við sig í ferðalögum, símum og sjónvörpum til að safna fyrir útborgun. Fólk þarf ekki að eiga 10 milljónir til að kaupa fyrstu eign.“

Fasteignasölur eru þjónustufyrirtæki í dag

Hvernig lýsirðu starfinu þínu sem eigandi fasteignasölu?

„Það er voðalega skemmtilegt. Fasteignasölur eru þjónustufyrirtæki í dag í stað stofnana eins og þau voru hér á árum áður. Það eru fleiri fasteignasölur til núna en nokkru sinni fyrr og samkeppnin því mikil. Netið er það sem koma skal fyrir markaðssetningu og almenningur vill þekkja persónuna á bak við fyrirtækið meira en vörumerkið. Það er ástæða þess að ég leitast við að færa mig nær fólkinu, með markaðsefninu okkar.“

Þorlákur er að vísa í skemmtileg kynningarmyndbönd af honum sem hafa verið á netinu undanfarin ár.

Varstu ekkert feiminn við að gera þessi myndbönd fyrst?

„Nei, þetta hefur alltaf verið alveg ótrúlega auðvelt fyrir mig og alltaf legið mjög vel fyrir mér. Í raun hef ég mjög gaman af þessu. Ég er með mann í vinnu, sem tekur myndböndin upp með mér og vinnur efnið einstaklega vel, sem ég tel lykilástæðu þess að þetta hefur gengið svona vel hjá okkur.

Að vera með fasteignasölu í dag er langhlaup, svo við þurfum stöðugt að vera með ný myndbönd í umferð, það er því ágætt að taka lífinu ekki of alvarlega og leyfa sér bara að prófa sig áfram með efni sem þetta. Ég er mjög þakklátur fyrir hvern dag í vinnunni og byrja alla daga á því að brosa. Það er engin undantekning með markaðssetninguna, maður verður bara að hafa gaman af henni líka. Dagarnir í lífinu telja niður, svo maður er bara heppinn að fá að vakna hvern morgun og lifa einn dag í viðbót.“

Persónuleg tengsl og góð þjónusta aðalmálið

Hvernig eignir eruð þið aðallega að selja?

„Við erum lítið fjölskyldufyrirtæki og seljum allar tegundir eigna. Við viljum fyrst og fremst bjóða upp á persónulega og góða þjónustu, til okkar leita bæði einstaklingar, verktakar og fjárfestar. Við viljum mynda persónulegt samband við þá sem eru að selja og kaupa.“

Hvaða áhrif hafa hækkun stýrivaxta haft á söluna að undanförnu?

„Ég er ekki viss um að þeir hafi haft svo mikil áhrif, því Íslendingar eru vanir að borga háa vexti af lánum sínum. Það eru frekar sértækar aðgerðir varðandi greiðslumöt, sem eru að valda aðeins hiki hjá kaupendum, breyttur lánstími og þá styttri lánstími sem er að hindra fólk í að kaupa eignirnar sem það dreymir um að kaupa sér.“

Umkringdur góðum konum í vinnunni

Eru minni peningar í umferð ástæða þess að fólk er ekki að fá eins há greiðslumöt í bankanum og áður?

„Nei ég held að það sé nóg af peningum til í landinu, en þetta er aðeins breytilegt og einhver eilítil bremsa í þessu núna hjá bönkunum. Það er mín tilfinning.“

Með Þorláki á Stakfelli starfa fimm konur, þar á meðal eiginkona hans, Sara María Karlsdóttir, framkvæmda- og fjármálastjóri, og dóttir hans, Matthildur Sunna Þorláksdóttir, lögfræðingur og löggildur fasteignasali.

„Það er alveg dásamlegt að starfa í eigin fjölskyldufyrirtæki og nú hin seinni ár dreymdi mig um að starfa með fjölskyldunni, svo ég veit fátt betra en að vera umkringdur öllum þessum dásamlegu konum sem sumar hverjar tengjast mér persónulega.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru að hugleiða að selja eignirnar sínar?

„Besta ráðið sem ég á fyrir þá sem vilja selja er að undirbúa söluna vel. Eignin þarf að vera á réttu verði, það er númer eitt, tvö og þrjú að mínu mati. Svo skiptir máli að hafa eignina í góðu standi, einnig er gott að fá ástandsskoðun á hana, ekki síst ef eignin er eldri eign.“

Hvað með að setja köku í ofninn fyrir opið hús. Nú hefur maður heyrt að það geri söluna vænlegri?

„Já, við erum nú ekki mikið þar. Það er aftur á móti gott ráð að fá fagfólk til að aðstoða með að stilla upp innbúinu. Það getur oft verið einfalt og tekur ekki langan tíma, en þegar maður hefur búið lengi í eigninni sinni þá verður maður oft samdauna henni. Glöggt er gests augað, eins og stundum er sagt, og það er ótrúlegt hvað smávegis tilfærslur geta gert mikið fyrir eignina. Ég mæli hiklaust með því frekar en að baka.“

Bótox og borgarar ekki að selja eignir á Íslandi

Nú eru margir að fylgjast með Selling Sunset-þáttunum á Netflix þar sem fólk er að selja íbúðir og bjóða upp á bótox og hamborgara og fleira í þeim dúrnum. Er eitthvað svipað að eiga sér stað á Íslandi?

„Nei það get ég ekki sagt. Ég er ekki að upplifa fasteignamarkaðinn eins og í þessum þáttum, enda held ég að þeir séu meira í anda sjónvarpsþátta og byggðir á fyrirframskrifuðu handriti en lífinu í vinnunni. Við erum ekki að ákveða verð fyrir fólk eins og gjarnan sést í þessum þáttum, fólkið sem á eignirnar ræður verðunum og svo ræður markaðurinn að lokum sölunni, en að sjálfsögðu tekur markaðurinn breytingum og við erum fljót að aðlagast því, sem og nýjum markaðssetningum.“

Hvaða eiginleikum þarf góður fasteignasali að búa yfir?

„Hann þarf að vera samviskusamur og heiðarlegur og hafa áhuga á því sem hann er að gera, svo er góð regla að segja alltaf satt. Þetta á sérstaklega vel við fasteignasala. Að þegja eða segja satt, það er besta reglan.“

Vonar að áhugaverðar lóðir verði í boði bráðlega

Hvað er nýtt að gerast á markaðnum?

„Það nýjasta er að markaðssetningin er að færast í auknum mæli á netið og erum við að bregðast við því. Í náinni framtíð munum við sjá rafrænar þinglýsingar og svo er mikið af lausnum nú þegar komið á netið í gegnum fjártæknifyrirtæki sem eru að auðvelda kaupendum lífið.“

Hvað óskarðu að framtíðin beri í skauti sér?

„Ég vona bara að Reykjavík og nágrannasveitarfélög haldi áfram að brjóta land til uppbyggingar fyrir hagkvæmt íbúðarhúsnæði og einnig fyrir einbýlishús og sérbýli. Það eru svo margir að óska sér að byggja draumahúsið og þær lóðir hafa ekki verið í boði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »