„Var orðin ansi djúpt sokkin í handverk“

Kristín Vala Breiðfjörð.
Kristín Vala Breiðfjörð.

Kristín Vala Breiðfjörð, formaður og framkvæmdastjóri Heimilisiðnaðarfélags Íslands, segir námskeið félagsins mótandi og að margir hafi orðið sérfræðingar á sínu sviði eftir að sækja þau. Hún er á því að fólk kynnist áður óséðum hliðum á sér með því að læra eitthvað nýtt og skapandi. 

Kristín Vala Breiðfjörð er um þessar mundir að undirbúa nýja önn hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Kennt er bæði í Reykjavík, Eyjafirði og Stykkishólmi, en síðustu ár hefur félagið boðið upp á regluleg þjóðbúninganámskeið utan Reykjavíkur.

„Sjálf er ég með mörg verkefni í gangi í einu. Ég þarf að knipla aftan á nýjan upphlut handa eldri dótturinni og leggja lokahönd á faldbúning yngri dótturinnar.“

Hvað getur þú sagt mér um námskeiðin sem Heimilisiðnaðarfélag Íslands stendur fyrir?

„Við bjóðum upp á fjölbreytt námskeið í hvers kyns handverki, svo sem tóvinnu, vefnaði, útsaum, tálgun, leðursaum og silfursmíði. Námskeið sem tengjast þjóðbúningasaum njóta sífellt meiri vinsælda, þannig að oft komast færri að en vilja. Í bland við gamlar og þjóðlegar handverksaðferðir bjóðum við líka upp á nýjungar. Sem dæmi kenndi Margrét Guðnadóttir á námskeiði síðasta haust, hvernig flétta mætti fallegt loftljós. Flest námskeið vorannar eru komin á heimasíðuna okkar en önnur á eftir að tímasetja eða eru í þróun, eins og til dæmis nýtt námskeið í endurnýtingu á textíl.“

Félagið var stofnað árið 2013

Fyrir hverja eru þessi námskeið og hvernig fara þau fram?

„Námskeiðin eru fyrir alla sem hafa áhuga á handverki og vilja læra að skapa eitthvað sem er bæði fallegt og nytsamlegt. Flest námskeiðin eru kennd í húsnæði Heimilisiðnaðarfélagsins í Nethyl 2e í Reykjavík. Sem fyrr segir bjóðum við líka upp á námskeið í Eyjafirði og í Stykkishólmi. Stundum þurfa nemendur að taka með sér einhver áhöld svo sem saumavél og skæri, en í öðrum tilfellum skaffar félagið allt sem til þarf.“

Félagið var stofnað árið 1913 og var markmið félagsins að vernda þjóðlegan íslenskan heimilisiðnað, auka hann og efla, stuðla að vöndun hans og fegurð og vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti er hæfi kröfum nýs tíma með rætur í þjóðlegum menningararfi, eins og segir í lögum félagsins.

„Okkur hefur tekist ágætlega til þessi 118 ár eða svo, en Heimilisiðnaðarfélag Íslands telur í dag yfir 800 félagsmenn og heldur úti öflugu félagsstarfi, námskeiðahaldi, útgáfu og verslun. Félagið tekur virkan þátt í norrænu samstarfi og má þar helst nefna Norrænu handverksbúðirnar fyrir ungmenni sem haldnar verða í Danmörku í ár, Norræna þjóðbúningaþingið sem haldið verður í Reykholti í ágúst og svo verkefnið 1 fermeter af hör, sem hefst snemma á þessu ári. Frá árinu 1966 hefur Heimilisiðnaðarfélag Íslands gefið út ársritið Hugur og hönd sem fjallar um handverk og handverksfólk. Blaðið er endalaus uppspretta hugmynda og heimilda um íslenskt handverk og nytjalist, en nú er hægt að skoða eldri árganga á vefsíðunni tímarit.is.“

Er áhugi fólks á fallegu íslensku handverki alltaf sá sami?

„Áhuginn hefur aukist mikið síðustu ár og við merkjum sérstaka aukningu þegar þjóðin gengur í gegnum einhvers konar hremmingar, hvort sem um er að ræða efnahagskreppur eða heimsfaraldra. Það er eins og fólk sæki þá meira í handverkið, í leit að innri ró. Til dæmis hefur áhugi á útsaumi stóraukist í heimsfaraldrinum og við sjáum það á vinsældum krosssaums Karólínu, en Heimilisiðnaðarfélagið gaf út og selur handavinnupakkningar í tengslum við sýninguna á lífi og störfum Karólínu Guðmundsdóttur vefara, sem var formaður félagsins á árunum 1923 til ársins 1927. Nú sjáum við útsaumaða púða spretta upp víðsvegar á samfélagsmiðlum og greinilegt að fólk er að leita eftir þessari tilfinningu sem var á heimili eldri kynslóða, þar sem maður var umvafinn hlýju og fallegu handverki sem unnið var af ást og alúð.“

Hver er þín saga þegar kemur að íslensku handverki og hefðum?

„Ég skráði mig á námskeið í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands á Handverkshátíðinni í Eyjafirði árið 2014. Þá stóð „aðeins til að sauma einn faldbúning“, sem er þó stórt verkefni. En málin þróuðust á þá leið að ég saumaði tvo búninga til viðbótar samhliða faldbúningnum; tvo 19. aldar barnaupphluti á stelpurnar mínar. Ég skráði mig líka á frábært námskeið hjá Júlíu Þrastardóttur gullsmíðameistara, sem kennir hjá okkur námskeið í vor, sem lagði það til að ég smíðaði bara millurnar á búningana líka, ég gæti alveg gert það. Fyrst ég var á annað borð farin að gera allt mögulegt óf ég líka svuntuna fyrir upphlutinn minn og lærði að knipla blúndur. Ég var því orðin ansi djúpt sokkin í handverk, og varð formaður Þjóðháttafélagsins Handraðans árið 2017. Heimilisiðnaðarfélagið hefur átt í samstarfi við Handraðann um árabil. Eftir að ég lauk við faldbúninginn fann ég fyrir smá tilvistarkreppu, þar sem óvíst var hvað hvað tæki við eftir hann. Til allrar hamingju gat ég þá farið að snúa mér að því að sauma faldbúninga á stelpurnar mínar, og annan 20. aldar upphlut á mig. Einhvern tíma inn á milli búninga saumaði ég líka dagtreyju, en svona getur þetta orðið ávanabindandi. Ekki skemmir fyrir félagsskapurinn, en það er alveg ótrúlega gaman að sitja þjóðbúninganámskeið.“

Gerir ekki upp á milli handverks og reksturs

Ertu meira fyrir að vinna í höndunum en að starfa í rekstrinum?

„Ég sinni daglegum rekstri Heimilisiðnaðarfélagsins en ég kenni líka námskeið hjá félaginu. Á þjóðbúninganámskeiðinu fyrir norðan er ég Oddnýju Kristjánsdóttur klæðskerameistara innan handar og kenni nemendum að knipla og baldera, sauma blómstursaum og flauelsskurð. Í umsjónartímum þjóðbúninganemenda fyrir sunnan veiti ég líka leiðsögn í öllum þessum skreytingum sem eru á íslensku búningunum. Það er svo gaman að taka þátt í þessu verkefni með nemendum, að sjá búningana þróast og verða til.“

Getur þú sagt okkur skemmtilega þjóðbúningasögu af þér?

„17. júní árið 2020 stóð til að aka fjallkonu Akureyrar upp að hjúkrunarheimilinu Hlíð, þar sem hún átti að flytja ávarp sitt. Við vorum þrjár að skauta fjallkonuna, allar klæddar í faldbúning með tilheyrandi höfuðbúnaði sem gerði það að verkum að við gátum ekki með góðu móti setið í venjulegum bíl. Ég hringdi á leigubílastöð og bað um rúmgóðan bíl með góðri lofthæð. En allt kom fyrir ekki, við pössuðum ekki í bílinn með 30 cm háa falda á höfðinu. Það var Bílaklúbbur Akureyrar sem kom okkur til bjargar: þeir sendu rauðan blæjubíl af fínustu sort og í honum var okkur ekið upp að dvalarheimilinu með stæl. Faldarnir tóku þó á sig nokkurn vind og því þurftum við að styðja við þá þegar ekið var eftir Drottningarbrautinni!“

Ertu stöðugt að læra eitthvað nýtt sjálf?

„Það fylgir því að vinna fyrir Heimilisiðnaðarfélag Íslands, að maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Það er erfitt að vera alla daga innan um ný og spennandi námskeið, og skrá sig ekki. Ég á til dæmis eftir að læra spjaldvefnað, ætli ég læri það ekki næst.“

Hefur alltaf verið dugleg að kaupa íslenska listmuni

Ertu með fallegt íslenskt handverk á heimilinu þínu?

„Já, bæði gamalt og nýtt. Ég hef alltaf verið dugleg að kaupa listmuni af íslensku handverksfólki, enda fátt fallegra en íslenskur leir og útskurður. Ég sauma svo mikið út sjálf enda hef ég ættir til þess. Krosssaumuð mynd af fuglum sem mamma saumaði út árið 1974 er uppi á vegg inni í eldhúsi hjá mér og púðar með krosssaumi Karólínu fá víða að njóta sín. Ég er búin að sauma út þrjú munstur eftir hana Karólínu en eldri dóttir mín fjögur!“

Hvað gerist áhugavert á námskeiðunum?

„Námskeiðin hjá Heimilisiðnaðarfélaginu hafa haft mótandi áhrif á svo marga, og margir sem hafa skráð sig á námskeið hjá okkur af forvitni hafa síðar meir orðið að sérfræðingum í sínu handverki. Það er eins og þú kynnist áður óséðum hliðum á þér þegar þú lærir eitthvað nýtt og skapandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda