Gróðurhúsið breytist í garðskála

Agnes Ósk Snorradóttir á fallegan garð.
Agnes Ósk Snorradóttir á fallegan garð.

Agnes Ósk Snorradóttir, náms- og starfsráðgjafi í Fjölbrautaskóla Suðurlands býr á Selfossi ásamt Björgvini Guðmundssyni eiginmanni sínum, barni og hundi. Hjónin eiga tvö börn til viðbótar sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir utan vinnuna er það garðurinn sem á hug hennar allan.

„Ég bý í gömlu tvílyftu húsi sem var byggt árið 1956 og er í einum elsta hluta af ört vaxandi Selfossi. Húsið stendur því við mjög skjólsæla og gróna götu. Við keyptum húsið árið 1999 og höfum alveg tekið garðinn í gegn á þeim tíma. Hugmynd okkar hjóna er að garðurinn sé framlenging á húsinu yfir sumarmánuðina,“ segir hún.

Bogadregnar línur róa í garðinum

Garðurinn er ekki stór en íverusvæði eru allan hringinn þannig að hægt er að njóta sólar alltaf þegar hún er til staðar.

„Við tókum niður hekk sem var allan hringinn til þess að opna garðinn betur. Með því rennur garðurinn og bæjarsvæðið betur saman sem mér finnst kostur. Upp við húsið að framan erum við svo með pall, stétt og skjólvegg. Fyrir framan húsið er líka grasflöt og stór stakstæður hlynur. Einnig beð með trjáþyrpingu, göngustíg og tjörn með gosbrunni. Þessi þyrping er þannig staðsett að gróðurinn í henni kemur aldrei til með að taka sólina frá pallinum. Bak við hús erum við með pall fyrir morgunsólina, stétt sem er íverusvæði með heitum potti og garðhúsgögnum, beð, göngustíga og lítinn pottaskúr. Þetta hljómar kannski eins og garðurinn sé stór. En hann er það ekki, en hver fermetri er vel nýttur. Austan megin við húsið er svo svæði með sjávarmöl, stikklum, sírenum, alpareyni og birkikvisti. Kannski má segja að það sem einkennir garðinn hjá mér er að það eru fáar beinar línur. Mér leiðist beð, göngustígar, runnar og afmarkanir sem eru með beinar línur og 90 gráðu horn og reyni að forðast það eins og hægt er. Mér finnst bogadregnar og ávalar línur einhvern veginn meira róandi og minna áreiti.“

Lærði fyrstu handtökin af móður sinni

Hefur þú alltaf verið svona mikil garðakona?

„Já, ég held það bara. Ég hugsa að ég hafi fengið ræktunar áhugann með móðurmjólkinni en mamma mín er með magnaða græna fingur. Ég kemst ekki með tærnar þar sem hún hefur hælana í þeim efnum. Ég valdi þegar ég var unglingur að vinna öll sumur í vinnuskóla Selfoss eða bæjarvinnunni eins og það var kallað þá. Tók það fram yfir það að vinna í fiski sem var mjög algeng og betur launuð sumarvinna hjá jafnöldrum mínum. Ég fékk að kynnast öllum hliðum vinnuskólans, vann á sláttuvél, í hóp, svo sem flokkstjóri í nokkur sumur og svo sem verkstjóri. Ég byrjaði að vinna í vinnuskólanum um leið og ég gat vegna aldurs og þangað til ég kláraði fyrsta háskólaprófið. Það er mér minnisstætt þegar ég fékk að eiga plöntur þegar ég var unglingur að vinna í einkagörðum. Þá voru oft fullir pokar af plöntum og jafnvel runnum settir á stýrið á hjólinu og hjólað með heim eftir vinnudaginn,“ segir Agnes.

Það var í vinnuskólanum sem hún fékk tækifæri til þess að vinna úti í grænu umhverfi og ekki síst að vinna með ungu fólki sem varð svo hennar starfsval í framhaldinu.

„Ég verð alltaf dálítið sár þegar ég heyri talað neikvætt um vinnuskóla sveitarfélaganna. Þessi starfsreynsla gaf og kenndi mér svo margt hvað varðar garðyrkju, vinnubrögð og ekki síst samskipti og samvinnu.“

Ég sé að þú ert með tré, runna, sumarblóm og fjölærar plöntur. Hvaða tegundir ertu með í garðinum?

„Ég er með alls konar tré og runna. Sem dæmi stóran hlyn, greni, sírenur, koparreyni, kasmírreyni, alpareyni, fjallarifs, birki, beiki, súluösp, loðvíði, baunatré og síprus og nokkrar tegundir af skrautrunnum eins og kvisti, brodda, klifurhortensíu og klifurrósina pólstjörnuna. Svo er ég með fjölærar plöntur eins og geitaskegg, alpaþyrnir, íris, clemantis og haustlauf. Mér finnst skipta máli að hafa allskonar áferð og liti í runnum, trjám og fjölæringum. Það gerir svo mikið fyrir upplifunina.“

Helsta breytingin í garðinum hennar Agnesar á milli ára eru sumarblómin.

„Ég er með alls konar sumarblóm sem er þó breytilegt eftir árum og hvað ég prufa að rækta.“

„Ég nýti gróðurhúsið mjög vel. Það má eiginlega segja að gróðurhúsið mitt sé fjölnota hús, er það ekki inn í dag? Ég rækta flest öll sumarblómin mín þar, eða um 200-300 blóm á hverju vori. Gróðurhúsið er það sem er kallað kalt hús og því ekki upphitað. Ég byrja því ræktunina inn í bílskúr í febrúar og svo yfirleitt í byrjun apríl þá fara sumarblómin út í gróðurhús. Það getur gert kaldar nætur þannig að þá hita ég gróðurhúsið upp með hitablásara og held því frostfríu. Yfirleitt er ég með 9-12 tegundir af sumarblómum sem fara svo út í beðin í garðinum, í potta og ker og til gjafa. En mér finnst mjög gaman að gefa blóm sem ég hef ræktað sjálf. Ég er nokkuð sjálfbær með sumarblómin en kaupi yfirleitt nokkrar aðrar tegundir svona til þess að brjóta upp. Í júní þegar blómin eru komin út í beð breytist gróðurhúsið í garðskála eða „she shed“. Þá eru ræktunarhillur teknar niður og stólar, borð og hengiróla sett inn. Í fyrra áskotnaðist mér skápur sem ég setti inn í gróðurhúsið. Skápurinn var notaður fyrir alls konar punt, spáspil og rúnir sem gaman var að grípa í í góðum félagsskap. Ég er yfirleitt með kaffivél út í gróðurhúsinu yfir sumarmánuðina svo að það þurfi ekki að fara inn eftir kaffibollanum. Það er best í heimi að taka morgunbollann þarna inni. Við erum með frekar stórt hringlaga borð í gróðurhúsinu sem við borðum oft við. Í gróðurhúsinu er ég líka með vínvíð, fíkjutré, kirsuberjatré og hvíta clemantis sem klifrar um húsið og býr til notalega stemming ásamt hangandi bastljósi, borðlömpum og ljósaseríu.“

Á veturna nota þau gróðurhúsið sem grillskála.

„Fyrir jólin í fyrra skreytti ég gróðurhúsið í fyrsta skipti með ljósaseríum, furugreinum, eplum, könglum og öðru náttúrulegu jólaskrauti. Í kórónuveirufaraldrinum byrjaði ég á því að hafa Jólaverkstæði Agnesar í bílskúrnum þar sem ég brasa ýmislegt tengt jólunum. Það var mjög gaman að bjóða gestum og gangandi upp á heitt jólaglögg, kakó og heitar eplaskífur með hindberjasultu í gróðurhúsinu. Að eiga gróðurhús er forréttindi. Ég mæli mikið með fyrir þá sem hafa tök á því, að koma sér upp slíku. Með því lengir þú sumarið í báða enda, sem ekki veitir af hér á Íslandi. Að geta setið út í hlýju gróðurhúsinu þegar kalt er úti eða rigning er algjört æði.“

Yndislegt að liggja í hengirúmi

Er gott að vera með hengirúm og hvernig notar þú það?

„Hengirúmið er hengt undir þvottasnúrurnar þegar ekki er verið að nota þær. Ég lét bláa clemantis klifra upp við snúrurnar og hefur hann alveg skriðið yfir þær og niður hinum megin. Það þarf að klippa plöntuna reglulega svo að hægt sé að nota snúrunar. En það er yndislegt að liggja í hengirúminu undir þessari himnasæng gróðurs, að njóta, glugga í bók og jafnvel dotta aðeins.“

Hvað með að borða úti?

„Við erum með fjögur íverusvæði í kringum húsið sem hægt er að borða á ef ég tel gróðurhúsið með. Ég hugsa að við nýtum mest svæðið fyrir framan hús þar sem útieldhúsið er. En við erum líka með grill bak við hús ef við borðum þar. Mér finnst fátt skemmtilegra á góðum degi en að leggja fallega á borð úti og njóta matarins úti. Fyrir framan hús erum við með heilsársgarðskála sem við setjum tjald á fyrir sumarið en jólaseríu fyrir jólin.“

Svo ertu með aðstöðu við grillið. Er mikið setið og borðað úti þar?

„Það hefur verið draumur minn í mörg ár að eignast útieldhús. Við hjónin smíðuðum eitt síðastliðið sumar úr gömlum garðhúsgögnum. Það tókst vel til og er frábær vinnuaðstaða þegar eldað er úti hvort sem þú ert að grilla, henda pizzu í ofninn eða undirbúa matinn. Það er svo gott að hafa pláss til þess að vinna með og geta lagt frá sér hlutina.“

Lýsing býr til stemningu í garðinum

Skiptir lýsing úti miklu máli?

„Já mér finnst það. Lýsing skiptir miklu máli þegar þú býrð til stemningu þegar farið er að skyggja. Hvort sem þú ert með kastara til þess að lýsa upp fallegt tré, veggljós eða staura til þess að vísa veginn eða lýsa upp svæði, eða luktir og kerti. Við erum líka með eldstæði fyrir framan hús sem notalegt er að kveikja upp í. Eldstæðið er yfirleitt staðsett við tjörnina og gosbrunninn. Það er eitthvað við það að stilla þessum elementum saman. Einnig má ekki gleyma að lýsing er ákveðið öryggisatriði til þess að halda óboðnum gestum frá.“

Hvað með hitalampa og að halda hita á ykkur þegar þið eruð úti að næturlagi?

„Við eigum rafmagnshitalampa sem við getum notað ef það er farið að kula. Svo er líka mjög hentugt að fara inn í gróðurhús í hlýjuna. Þar hefur alveg verið setið og spjallað fram á nótt.“

Fyrir þremur árum keyptu þau heitan pott í garðinn.

„Heiti potturinn okkar er frá NormX. Potturinn er mikið notaður allt árið og ekki síst á veturna. Það er hitalögn undir hellunum að pottinum þannig að það er alltaf fært í hann. Þó að allt sé á kafi í snjó.“

Garðurinn fyrir framan húsið hefur þróast í gegnum árin. „Einhvern veginn fór það þannig að við hjónin formklippum öll tré og runna fyrir framan hús nema hlyninn. Við erum með nokkra mjög stóra sýprusa sem gerir svæðið kannski dálítið framandi en þeir spretta mjög vel í skjóli við flétturnar í skjólveggnum og umkringja tjörnina fallega.“

Gott fyrir sálina að vera í garðinum

Er ekki gífuleg vinna fólgin í svona garði?

„Nei mér finnst þetta ekki mikil vinna. Ég held að garðurinn sé þannig skipulagður og viðhaldið að hann krefst ekki mikillar vinnu. Við sláum grasið yfirleitt einu sinni í viku. En flötin er mjög lítil og það er ekki lengi gert. Hvað varðar beðin, þá fylgist ég bara með þeim og fer með hrífuna yfir ef eitthvað íllgresi lætur á sér kræla. Ég held að það skipti máli að láta illgresið ekki ná yfirhöndinni. Svo er garðurinn líka áhugamál fyrir mér og alls ekki kvöð eða streituvaldur. Ef það er gott veður, þá er ég iðulega úti í garði. Eitthvað að dunda mér.“

Er garðrækt eins og hugvekja?

„Ég tel að útivist sé alltaf af hinu góða. Það er misjafnt hvað hentar fólki í þeim efnum. En fyrir mig er garðurinn, ræktunin, að vera úti í grænu umhverfi algjört jóga. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig umhverfi okkar getur aukið vellíðan og bætt heilsu fólks. Það á við bæði innanhúss og utan. Á heimilinu og á vinnustöðum. Það hljómar kannski undarlega fyrir einhvern. En að handfjatla plöntur og mold, hlú að og hlusta á þarfir gróðursins veitir mér svo sannarlega þessa sálfræðilegu endurheimt sem umhverfissálarfræðin snýst meðal annars um.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál