„Sonur minn bjargaði lífi mínu“

Agnes Barkar verkfræðingur og markþjálfi.
Agnes Barkar verkfræðingur og markþjálfi.

Agnes Barkar verkfræðingur og markþjálfi er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins, Sterk saman. Hún hefur í gegnum tíðina upplifaði ýmislegt. Farið á botninn en náð að snúa við blaðinu eftir áföll. 

„Ég upplifði mig alltaf aðeins öðruvísi. Ég átti erfitt með að tengjast og fór bara með straumnum,“ segir hún og bætir við að henni hafi ekki liðið vel í skóla. Skólagangan varð verri eftir því sem hún varð eldri. Þegar hún kom í framhaldsskóla varð ástandið óbærilegt.

„Í framhaldsskóla var ég lögð í ljótt einelti eins og það væri kallað í dag. Þetta var á þeim tíma sem netið var að koma og hægt að senda nafnlaus skilaboð gegnum netið í símann hjá manni. Ég fékk líflátshótanir, var hótað miklu ofbeldi og viðbjóði ef ég myndi mæta í skólann svo ég hætti bara að mæta,“ segir Agnes og bætir við að lögreglan hafi verið dregin inn í þetta og hún viti hver hafi staðið á bakvið þetta en á þessum tíma hafi ekkert verið hægt að gera.

Á þessum tíma var ekki eðlilegt að hætta í skóla, það fóru allir í skóla og urðu stúdent. Það er ein setning sem situr enn þann dag í dag föst í huga hennar. Henni var sagt að það yrði aldrei neitt úr henni. Agnes varð staðráðin í að sanna fyrir öllum að þessi setning væri ekki sönn án þess ræða það við neinn. 

„Ég fór ein til Spánar í tungumálaskóla, í burtu frá öllu, kynntist nýju fólki og naut þess,“ segir hún en svo kynntist hún ástinni. 

„Ég var í sambandi með fyrri barnsföður mínum í sjö ár, við eignuðumst son þegar ég var tvítug og sonur minn, sem er einstakur, bjargaði lífi mínu,“ segir hún en svo ákvað hún að flytja til Danmerkur. 

„Ég ákvað að fara í nám, einstæð móðir í Danmörku, sem var ekki algengt. Ég tók fyrst svona háskólabrú því ég tók aldrei stúdent og fór svo í verkfræði, það var svo flott og ég ætlaði að sýna fólki að ég gæti þetta.“

Seinna átti lífið eftir að verða henni erfitt. Hún upplifði hindranir, kulnun og áföll. Á einhverjum tímapunkti tók hún 180 gráðu beygju og breytti algerlega um stefnu eftir að hafa lent á botninum. Hún lærði markþjálfun, nýtir hana í sínu lífi og sjálfsvinnu, í daglegu lífi þar sem hún á 10 ára gamlan son með nokkrar greiningar og finnur hún mikinn mun á honum eftir að hún lærði þessa aðferðafræði og tileinkaði sér hana í samskiptum og uppeldi.

„Ég er hvatvís, var búin að reyna allt, sat ein uppi í bústað að lesa enn eina sjálfshjálparbókina og áður en ég vissi af var ég búin að senda höfundi bókarinnar skilaboð, skrá mig í nám og byrjuð að læra markþjálfun, ég sé ekki eftir því.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál