Svona málar þú með kalkmálningu

Ljósmynd/housedoctor.com

Kalkmálning hefur verið áberandi á heimilum víða um heim upp á síðkastið, enda auðveld leið til að gefa hvaða rými sem er mikinn karakter. Áhrifavaldurinn Lisa Mistry er orðin mikill sérfræðingur í að kalkmála, en hún byrjaði á því að mála einn vegg á heimili sínu og varð svo hrifin að nú hefur hún kalkmálað alla íbúðina sína. 

Að undanskildri fallegri áferð þá hefur kalkmálningin þann eiginleika að vera auðveld í notkun og fyrirgefur öll mistök. Það eina sem þarf er réttur pensill, grunnur og kalkmálning. 

Mistry hefur deilt nokkrum góðum ráðum þegar kemur að því að kalkmála, og ekki skemmir fyrir hve fallegt heimili hennar er og því alltaf unun að fylgjast með myndböndum hennar. 

1. Undirbúðu veggin vel

Áður en kalkmálning er sett á vegginn þarf að grunna hann með sérstökum kalkgrunni. Undirbúningurinn skiptir miklu máli, en ef veggurinn er ekki grunnaður virkar kalkmálningin ekki eins og hún á að gera. 

2. Notaðu léttar strokur 

Kalkmálningin er borin á með stórum pensli, en í málningarvöruverslunum er oft hægt að fá sérstaka kalkpensla sem henta vel í verkið. Berðu málninguna á í léttum strokum í gagnstæðar áttir, en þannig myndast hálfgerð ský. 

3. Færri umferðir gefa náttúrulegri áferð

Eftir því sem þú ferð fleiri umferðir, því minni verður þessi náttúrulega steypuáferð. 

4. Ekki örvænta ef fyrsta umferðin lítur illa út

Fyrsta umferðin lítur yfirleitt ekki vel út, en ekki örvænta. Þar að auki er lítið mál að fara aftur yfir ef partur af fleti misheppnast, en mundu að þú ert að reyna að ná fram ófullkomnari áferð. 

5. Leyfðu hverri umferð að þorna alveg

Að mati margra gefa tvær umferðir af kalkmálningunni hina fullkomnu áferð, en það er þó smekksatriði. Mikilvægt er að málningin fái að þorna alveg á milli umferða. 

mbl.is