Þarf að vera hálfklikkaður til að reka jólaverslun

Anne Helen Lindsay rekur jólaverslun.
Anne Helen Lindsay rekur jólaverslun.

Þrátt fyrir að vera í jólagírnum allan ársins hring segist Anne Helen Lindsay ekki vera orðin leið á jólunum, en hún rekur Litlu jólabúðina við Laugaveg. 

„Það eru bara jólabörn sem reka jólaverslun allt árið um kring. Maður þarf að vera hálfklikkaður til að gera það,“ segir Anne Helen og hlær. Hún segir að það sé jafnmikið að gera í versluninni á sumrin og veturna, enda komi ferðamenn gjarnan í búðina til að kaupa íslenskt jólahandverk. En hvernig er að vinna í jólabúð yfir sumarið á meðan aðrir eru að grilla og sóla sig?

„Um leið og við komum inn í búðina förum við bara í okkar jólastemningu og svo grillum við bara eftir klukkan sex. Þannig að við setjum okkur í stellingar, sem er bara gaman. Starfsstúlkurnar mínar sækjast einmitt eftir því að vinna þarna vegna þess að þetta er jólabúð,“ segir Anne Helen og bætir við að það skemmtilegasta við starfið sé að hitta hressa viðskiptavini. En skyldi hún skreyta mikið heima við fyrir jólin?

„Ég skreyti bara með mínu skrauti og er ekki með neitt úr búðinni. Ég gerði það einu sinni og þá fannst mér ég bara vera í vinnunni. Ég ákvað því að nota skraut heima sem ég hef keypt og safnað sjálf í gegnum árin. Þegar ég tek upp mitt eigið skraut kemst ég í mína jólastemningu,“ bætir Anne Helen við, en þótt hún sé mikið jólabarn segist hún ekki hlusta á jólatónlist heima við.

„Ég kveiki á útvarpinu klukkan sex á aðfangadag og hlusta á messuna og svo hef ég þögnina. Ég er aldrei með tónlist yfir jólin. Mér finnst nefnilega dásamlegast að hlusta á þögnina,“ segir Anne Helen sem þvertekur fyrir að eiga erfitt með að komast í jólaskap, þrátt fyrir starfið.

„Yfir sumartímann er ekki eins mikil jólastemning í viðskiptavinunum eins og þegar Íslendingarnir fara að flykkjast að í október og nóvember. Þá kemur allt öðruvísi stemning í búðina og það eru viðskiptavinirnir sem skapa hana. Ég á til dæmis fullt af góðum viðskiptavinum sem koma á hverju ári með börnin sín og kaupa einn fallegan hlut á tréð. Maður sér krakkana stækka frá ári til árs og það er voðalega gaman að fylgjast með því. Annars er ég alltaf í jólaskapi,“ segir Anne Helen að lokum, létt í bragði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál