„Kyrrlát stemning í Háskólanum yfir jólin“

Torfi H. Tulinius.
Torfi H. Tulinius. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Torfi H. Tulinius, forseti íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, er í París um þessar mundir þar sem hann kennir við Collège de France tímabundið. Hann mælir með því að fólk lesi á jólunum og segir smásögur góðan valkost yfir hátíðina. 

„Jólin eru sá tími þar sem maður safnar sér saman með sínum nánustu og gleðst yfir lífinu. Það er tími innileika og hlýrra tilfinninga. Það er líka stund milli stríða en um leið undirbúningur undir nýtt ár, nýja tíma og ný tækifæri.“

Hann segir Collège de France mjög merkilega menntastofnun sem stofnuð var árið 1530 til að endurreisa fornaldarfræði.

„Markmið stofnunarinnar er að styðja við frjálsar rannsóknir. Við hana starfa um 50 prófessorar á öllum sviðum þekkingar. Fyrir utan að rannsaka, ber þeim að halda opna fyrirlestra þar sem hver og einn getur komið og numið við fótskör þeirra. Ég er að halda fyrirlestra um íslenskar fornbókmenntir, en þetta er í fyrsta sinn sem fjallað er um fornsögurnar við stofnunina.“

Hvernig er stemningin í Háskólanum á jólunum?

„Það er kyrrlát stemning í Háskólanum yfir jólin. Nemendur hafa lokið prófum og eru komnir í frí, en kennarar strita við að yfirfara próf og undirbúa kennslu næsta misseris sem hefst snemma í janúar. Fyrr á árum byrjaði kennslan seinna á haustin og prófin voru haldin í janúar. Þá fengu kennarar náðugri tíma um jólin en nú, en aftur á móti geta nemendur betur notið jólanna en áður, þegar þeir voru að búa sig undir prófin í jólafríinu.“

Getur mælt með lestri smásagna á jólunum

Áttu skemmtilega jólasögu af þér?

„Einu sinni lék ég jólasvein á jólaskemmtun á barnaheimili Siggu dóttur minnar, sem þá var rúmlega tveggja ára. Ég var í góðum búningi með mikið skegg og hún Sigga mín varð hrædd og fór að skæla þegar hún sá þennan ógurlega jólasvein, en um leið og ég tók í höndina á henni róaðist hún, kannaðist við handtakið á jólasveininum og dansaði glöð í kringum jólatréð.“

Hvað sérðu um á jólunum á þínu heimili?

„Ég tek þátt í að kaupa gjafir og set upp jólaseríuna. Áður fyrr fóru börnin með mér að kaupa jólatré, nú eru það barnabörnin. Það hefur komið fyrir að ég bakaði piparkökuhús fyrir þau. Svo sé ég oftast um jólamatinn.“

Ertu með hugmyndir að góðum bókum sem allir ættu að lesa að þínu mati þessi jólin?

„Ljósgildran eftir vin minn Guðna Elísson er spennandi og áhugaverð skáldsaga, skrifuð af mikilli stílfimi. Svo mæli ég með Pastel-ritröðinni, sem Flóra menningarhús á Akureyri gefur út. Þetta eru litlar bækur en góðar. Meðal annars er þar að finna smásögur eftir son minn, Kára Tulinius, sem óhætt er að mæla með.“

Hvernig hefur þitt fræðisvið haft áhrif á upplifun þína og hefðir á jólunum?

„Sem miðaldafræðingur hef ég áhuga á myndmáli Biblíunnar sem víða má finna í bókmenntum frá þessum tíma, en líka í sálmum sem sungnir eru á jólunum. „Það aldin út er sprungið“ er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Borðar aldrei skötu á jólunum

Er eitthvað sem þú gerir aldrei á jólunum?

„Að borða skötu, sem er miður, því mér finnst hún góð.“

Er eitthvað sem þú gerir alltaf?

„Jólin eru eilíf endurtekning á sömu siðum og hefðum sem ógerningur er að telja upp. Eitt geri ég alltaf, og það er að vaka fram eftir jólanóttinni við að lesa góða bók.“

Ef þú ættir eina ósk, hver væri hún?

„Ég myndi óska öllum sem lesa þetta viðtal gleðilegra jóla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál