Kópavogsblótið var haldið hátíðlegt í Kórnum í Kópavogi á föstudagskvöldið. Um er að ræða stærsta þorrablót landsins sem haldið var af íþróttafélögunum HK, Gerplu og Breiðabliki. Alls mættu 2.500 manns og skemmtu sér saman yfir hrútspungum og rófustöppu, sviðakjömmum og sviðasultu.
Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi eins og hann er kallaður, og vinur hans, Auðunn Blöndal, eða Auddi eins og hann er kallaður, voru veislustjórar. Þeir voru sniðugir og skemmtilegir og sáu til þess að enginn sofnaði ofan í rófustöppuna.
Söngkonan Svala Björgvinsdóttir skemmti gestum og það gerði líka Stuðlabandið. Eins og sjá má á myndum ljósmyndara Smartlands voru allir í essinu sínu.