Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies, sem gerir hljóðhermunarhugbúnað (e. sound simulation software), blés til veislu og bauð sínum helstu samstarfsaðilum, fjárfestum og vinum á nýja skrifstofu sína á Hafnartorgi.
Treble Technologies hefur margar ástæður til þess að fagna en þau luku nýlega 1,2 milljarða króna fjármögnunarlotu og fluttu í nýtt skrifstofuhúsnæði á Hafnartorgi. Frumtak leiddi fjármögnunarlotuna sem er á klak-stigi (e. seed stage) í samstarfi við NOVA, nýsköpunararm Saint-Gobain sem er meðal 500 stærstu fyrirtækja heims, auk englafjárfesta. Fjármögnunin samanstóð af 5,5 milljóna evra fjárfestingu frá fjárfestum og 2,5 milljóna evra í styrk frá Evrópska nýsköpunarráðinu.
Unnsteinn Manuel og Hermigervill sáu um að halda upp stuði í boðinu en þangað mættu mikið af helstu vinum Treble, fjárfestum, samstarfsaðilum og fólk úr nýsköpunarsenunni.
Framundan eru stór verkefni hjá Treble en þann 1. mars verður fyrsta vara Treble gefin út sem ætluð er byggingargeiranum og gerir fólki kleift að reikna, betrumbæta og prófa hljóðvist í rýmum áður en þau eru byggð. Þá vinnur Treble einnig með mörgum af stærstu tæknifyrirtækjum heims sem sjá hag sinn í að nýta tækni Treble til að betrum þróa vörur sínar eða skapa stafrænar hljóðupplifanir (e. virtual sound experiences)