Sonurinn er stjórnlaus alkóhólisti

Íslensk kona hefur áhyggjur af drykkju sonar síns.
Íslensk kona hefur áhyggjur af drykkju sonar síns. mbl.is/Getty

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu frá ráðþrota móður sem á son sem drekkur of mikið. 

Sæll.

Hvert er best að leita varðandi sívaxandi áfengisnotkun ungs manns? Hann hefur einu sinni farið í meðferð en líkaði illa, fannst erfitt að kynnast þeim „heimi“ sem honum mætti þar. Nú drekkur hann daglega og hefur gert í margar vikur, en tekur sig til á milli og vill hætta. Neyslan veldur honum hugarangri, kvíða og depurð. Samt telur hann sig ekki geta hætt. Honum hafa boðist meðferðarviðtöl og lyf, en ekkert dugar. Hann vinnur fyrir sér og leigir íbúð. Hvert er best að snúa sér?

Kveða og þökk, áhyggjufull móðir.

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Áfengisneysla er víða vandamál og fín lína á milli þess að njóta áfengis og að nota það. Þegar fólk ánetjast áfengi er það harður húsbóndi og því miður getur liðið langur tími þar til viðkomandi áttar sig á að um vandamál er að ræða, ef það gerist þá einhvern tímann. Það er ástæða fyrir því af hverju alkóhólismi er kallaður fjölskyldusjúkdómur, hann hefur áhrif á alla þá sem umgangast þann sem á við vandann að stríða. Þess vegna er mikilvægt fyrir aðstandendur að leita sér aðstoðar til þess að þeim geti liðið sem best í aðstæðunum. Þetta er svolítið eins og að vera farþegi í bíl sem ekið er af stjórnlausri manneskju. Þú getur annað hvort verið í bílnum með öllum þeim ótta og kvíða sem því fylgir, reynt að stjórna bílstjóranum sem lætur ekki að stjórn og upplifað sorgina og skilningsleysið yfir hegðuninni. Hinn kosturinn er að velja að fara úr bílnum og vera í hæfilegri fjarlægð frá ökuferðinni, sem mun hvort eð er eiga sér stað.

Algengt er að aðstandendur eru mikið að hugleiða hvernig alkóhólistanum líður, hvað hann gerir, hvað hann gerir ekki og fara jafnvel beint eða óbeint að reyna að stjórna viðkomandi svo hann hætti iðju sinni. Vandinn er sá að þeir sem eiga við alkóhólisma að stríða þurfa að finna það hjá sjálfum sér að vilja hætta og í mörgum tilvikum hefur það neikvæð áhrif þegar aðstandendur eru að ýta á eftir því. Best er því fyrir þig að hlúa að sjálfri þér, gera það sem þú getur til þess að láta þér líða betur. Það getur þú gert með því að fara á aðstandendanámskeið hjá SÁÁ og 12 spora fundi á borð við Al-anon til þess að eiga samskipti við aðra í svipuðum aðstæðum. Einnig er gott að leita til ráðgjafa sem hafa þekkingu á alkóhólisma og meðvirkni. Ef sonur þinn veit að þú ert ekki að dæma hann, ert til staðar ef hann leitar til þín og vill vinna á vandanum, þá er það besta sem þú getur veitt honum. Hann þarf svo sjálfur að taka ábyrgð á sínum vanda og vonandi finnur hann fyrr en síðar viljann sem þarf til að takast á við áfengislöngunina.

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál