Flestallir þekkja framhjáhald

Sigga Dögg kynfræðingur.
Sigga Dögg kynfræðingur. mbl.is/einkaeign

Sigga Dögg er með BA-próf í sál­fræði og meist­ara­gráðu í kyn­fræði (sex­ology) frá Curt­in-há­skóla í Vest­ur-Ástr­al­íu. Hún er vin­sæll fyr­ir­les­ari þar sem henn­ar meg­in­viðfangs­efni er kyn­líf. Í síðasta viðtali spurðum við hana hvernig kynlífi megi búast við eftir fertugt.

Að þessu sinni ræðum við framhjáhöld í samböndum, hvernig skilgreinum við framhjáhöld og hvað er hættulegt við þau.

„Ef þú spáir í það þá hafa flestallir í kringum okkur annaðhvort lent í framhjáhaldi, haldið fram hjá sjálfir eða þekkja söguna af einhverjum sem hefur haldið fram hjá. Þetta er allt í kringum okkur og því verðugt fyrirbæri að skoða nánar.“

Skilgreindu framhjáhald með þínum maka

Sigga Dögg segir stóru spurninguna hvernig við skilgreinum framhjáhöld. „Þetta er stór ormagryfja og skilgreiningarnar eins margar og fólkið sem þú spyrð. Fólk er bara alls ekkert sammála. Sem dæmi þá hef ég heyrt að gagnkynhneigð[um] pör[um] finnst það þegar tvær stelpur kyssast ekkert vera framhjáhald, það sé bara fyndið og sexý. Á meðan aðrir segja að allt kynferðilslegt með annarri manneskju sé framhjáhald. Máttu fylgja þínum fyrrverandi á Instagram og læka myndirnar hans? Svara honum á Snapchat og þarf fram eftir götunum? Þessa hluti þarf að ræða og koma á hreint í samböndum.“

Sigga Dögg segir áhugavert að skoða einnig þá staðreynd að við megum eiga vini, en stundum eru vinir af gagnstæðu kyni áskorun.

„Því þá getur komið upp hætta á kynferðislegri hrifningu að mati margra. Ég tel að ekkert eitt samband geti uppfyllt allar kröfur fólks, og það þurfi mörg náin kærleiksrík sambönd til að uppfylla hamingjusamt líf, en ég er ekki að segja að þau eigi öll að vera kynferðisleg. Lykillinn að hamingjunni að mínu mati er þetta samtal sem fólk þarf að eiga reglulega þar sem það spyr sig og maka sinn: Erum við hamingjusöm? Hvað gerir okkur örugg með hvort annað? Hvað óörugg? Hver ber ábyrgð á okkar hamingju? Jafnframt þurfum við að líta í spegil reglulega og mæta okkur þar og spyrja: Er ég hamingjusöm/samur? Hvað get ég gert fyrir mig til að líða betur? Með því að fara í þessa vinnu erum við meðvitaðri, minna óttaslegin við höfnun og lengi mætti áfram telja.“

Það hættulega við framhjáhöld

Hvað er hættulegt við framhjáhald að hennar mati?

„Framhjáhald getur verið hættulegt, því það geta komið upp smitsjúkdómar, einnig verður trúnaðarbrestur í samböndum þegar haldið er fram hjá og fólk missir traust sem er kannski mesta áskorunin. Það tekur langan tíma að vinna traust manneskju, í hvernig sambandi sem við erum, hvort heldur er með vini, ástvini eða fjölskyldu. Þegar trúnaðarbrestur verður í samböndum, er alltaf mesta vinnan við að endurbyggja traust á milli fólks. Það er vinna sem hægt er að fara í, en auðvitað nota margir framhjáhöld sem afsökun til að fara út úr samböndum. En við þurfum líklegast að skoða hvað liggur á bak við hluti eins og að halda fram hjá.“

Það sem kom Siggu Dögg á óvart við framhjáhöld er hvað mörg þeirra eru tækifæristengd.

„Fólk virðist grípa augnablikið þegar það gefst, það hafði ekki planað að halda fram hjá heldur bara gerist það. Þetta finnst mörgum erfitt að framhjáhöld geti verið þessi vá sem læðist upp að fólki. Stundum er eitthvað meira undirliggjandi en einungis það að tækifæri gafst til.“

Siggu Dögg finnst stytting vinnuvikunnar áhugaverð í þessu samhengi. „Ef þú spáir í því, með hverjum eyðir þú lungað [sic] af deginum? Ekki maka þínum það er á hreinu. Þú ert stöðugt að mynda félagsleg samskipti við fullt af aðilum, sem þú ert að vinna með. Í þessu samhengi, finnst mér mjög heilbrigt að skoða hvernig það að stytta vinnuvikuna getur fært hjón og fólk í samböndum meiri gæðatíma.“

Leiðir til að koma í veg fyrir framhjáhöld

Hvernig getum við komið í veg fyrir að hlutir eins og framhjáhöld læðist inn í samböndin sem við erum í?

„Með því að vera í opnum samskiptum við maka okkar, taka reglulega stöðuna á sambandinu og spyrja er ég hamingjusöm? Er maki minn hamingjusamur? Hvað get ég gert? Hvað getur hann gert? Hvað getum við gert?

Auk þess er mikilvægt að vita að það er líf eftir framhjáhald, ef fólk vill halda áfram að vera saman. Margir fara í ráðgjöf að vinna úr hlutunum, á meðan aðrir nota það sem afsökun til að komast út úr sambandinu.“

Af hverju erum við sein að sækja okkur aðstoð og ráðgjöf þegar kemur að samböndum og hjónaböndum?

„Af því það er dýrt, og kostar peninga. Þó að það sé mun ódýrara en að skilja. Kannski erum við einnig með fordóma og finnst vandræðalegt að ræða við aðra áskoranir sem maður heldur að maður eigi að geta reddað sjálfur.“

Þú býrð ekki með klappstýru

Þegar við erum ekki dugleg að horfa í eigin augu …
Þegar við erum ekki dugleg að horfa í eigin augu og skoða okkur frá grunni, getur verið freistandi að hitta ókunnuga manneskju sem heillar mann og lifa í gegnum hana í augnablik. mbl.is/Thinkstockphotos

 

Sigga Dögg leggur áherslu á að öll náin sambönd krefjast vinnu. Þetta vitum við þegar kemur að fjölskyldunni okkar, maka, börnum og vinum. Hjónabandið er þar engin undantekning. „Einnig þegar kemur að kynlífinu í ástarsamböndum. Þá þarf að leggja rækt og hug í það.

Þegar við erum ekki dugleg að horfast í eigin augu og skoða okkur frá grunni, getur verið freistandi að hitta ókunnuga manneskju sem heillar mann og lifa í gegnum hana í augnablik. Fá frá henni hrós og þess háttar. En það er algjör staðreynd að við búum aldrei með slíkri klappstýru og ef við viljum fá meiri athygli og aðdáun, þá verðum við að byrja á að sýna okkur það sjálf.“

Sigga Dögg líkir þessu saman við að fara í jógatíma, þar sem fólk er að gera æfingar, síðan parar þjálfarinn tvo og tvo saman. Lætur þá gera æfingar bak í bak. Síðan er maður látinn snúa að hinum aðilanum, horfa í augun og tala um sínar dýpstu tilfinningar. „Þarna fara málin að vandast. Það er miklu auðveldara að vera bara með líkamlega snertingu, ef við náum að aðskilja frá tilfinningar okkar. Þegar við berum okkur fyrir öðrum, þá erum við að taka meiri áhættu. Eins er alltaf auðveldara að eiga samskipti við aðra þegar þú ert ekki að bera fjárhagslega ábyrgð með honum, ábyrgð á uppeldi barna og fleira. Með hverju einasta verkefni sem bætist við hjá pörum, þá þarf maður að vera meðvitaður um flækjustigið og mann sjálfan í þessu samhengi. Það þýðir ekkert að fara í gegnum lífið og spegla sig endalaust í öðrum. Við verðum að vita hver við erum og hvað við stöndum fyrir til að geta farið djúpt í samskipti með öðrum. Við getum ekki öll búið með klappstýrum.“

Til að fá Siggu Dögg í fyrirlestra og kynningu er best að hafa samband við hana í gegnum netfangið sigga@siggadogg.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál