Íslenska miðaldra konu langar í mann

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu sem skildi eftir 20 ára samband og langar í mann. Hvernig á hún að láta drauma sína rætast?

Sæll Valdimar!

Ég skildi fyrir nokkrum árum síðan eftir rúmlega 20 ára samband og 5 börn. Þetta var búið að vera mjög erfiður tími. Mikið um áföll, þunglyndi o.fl. Suma daga geng ég í gegnum sorg en aðra daga er ég bjartsýn. Áhyggjur af peningamálum koma og fara en svo er það framtíðin. Mig langar ekki að vera ein. Mig langar að hafa einhvern sem er tilbúinn að ganga í gegnum lífið með mér. Ég er ekkert fyrir það að fara niður í bæ að skemmta mér og velti því fyrir mér hvað gera svona miðaldra konur eins og ég í því að kynnast nýjum karlmanni? Öll hjálp vel þegin. Kv. ein vongóð

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn „ein vongóð“ og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Það er skiljanlegt að fara í gegnum ýmiss konar sveiflur í kjölfar skilnaðar, sérstaklega eftir langt samband og barneignir. Sorgarferlið felur í sér ákveðinn doða eða afneitun á það sem er að gerast en færist gjarnan yfir í ótta, reiði og söknuð sem getur sveiflast fram og til baka. Á endanum komast flestir á þann stað að sætta sig við orðinn hlut og geta þá haldið áfram að byggja sig upp og mögulega fara í nýtt samband, þar sem það á við. Það er ágætisregla að hafa náð sæmilegu jafnvægi hvað þessi atriði varðar, áður en farið er af stað í nýtt samband.

Ég verð að játa að ég hef ekki mikla þekkingu á því hvernig best er fyrir miðaldra fólk að finna maka nú á dögum. Tækni á borð við Tinder virðist henta mörgum og þrátt fyrir að forritið sé í margra huga hentugast fyrir þá sem vilja einnar nætur gaman, þá þekki ég fjölmörg dæmi um það að fólk hafi fundið framtíðarförunaut með aðstoð þess. Hvað sem öðru líður þá er ljóst að til þess að hitta einhvern, þarf maður einmitt að gera það... hitta einhvern. Ég mæli því með því að vera virk félagslega, taka þátt og kynnast fólki í gegnum mismunandi áhugamál, í kringum vinahópinn og jafnvel í vinnunni og sjá hvort þar geti verið einhver sem þú telur áhugaverðan kost. Að vera í góðum félagslegum tengslum er ekki bara jákvætt þegar verið er að leita að mögulegum maka, heldur líka vegna þeirrar staðreyndar að rannsóknir á því hvað veitir manneskjunni hamingju benda flestallar til þess að félagsleg tengsl og hamingja tengist órjúfanlegum böndum.

Gangi þér vel í leitinni!

Kær kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál