Er að skilja og óttast einmanaleikann

Íslensk kona óttast það að skilja við maka sinn.
Íslensk kona óttast það að skilja við maka sinn. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er að skilja við maka sinn. 

Sæll Valdimar,

Ég stend frammi fyrir því að þurfa að skilja við maka minn og líklega flytur hann út eftir mánuð. Við vorum par í rúm 10 ár og eigum þrjú börn sem eru í grunnskóla. Ég er að reyna að gera allt rétt svo börnin upplifi ekki glundroða og rugl. Getur þú gefið mér eitthvað ráð hvernig hægt er að skilja með sæmd og þannig að börnin verði fyrir sem minnstum skaða.

Við erum ágætlega stödd þannig séð þannig að ég sé ekki fram á að hafa miklar fjárhagsáhyggjur en ég óttast það mjög að vera ein og bera ábyrgð á öllu. Því þótt makinn hafi oft og tíðum verið ómögulegur þá var hann samt með mér í liði og við vorum saman í þessu.

Kærar, S

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Þetta eru í raun tvö atriði sem þú nefnir, annars vegar með hvaða hætti væri best gagnvart börnunum að standa að breytingunum sem eru að eiga sér stað, og hins vegar ótti þinn við framtíðina á nýjum forsendum. Ef við hugsum fyrst um börnin og breytingarnar þá vil ég hrósa þér fyrir að hafa það í forgang að vera til staðar fyrir þau.

Skilnaðir valda alltaf einhverskonar álagi og fjölmargar hugleiðingar og tilfinningar koma upp í slíku ferli. Við fullorðna fólkið ættum almennt talað að hafa getuna til þess að bera ábyrgð á okkur sjálfum, leita viðeigandi aðstoðar þar sem það á við og að fá útrás fyrir tilfinningum okkar á heilbrigðan hátt. Börnin okkar hafa ekki sömu getu og eru háð okkur að miklu leyti hvað þetta varðar. Þess vegna er mikilvægast af öllu að vera til staðar fyrir þau eftir bestu getu og vera meðvituð um að það er ekki þeirra hlutverk að vera til staðar fyrir okkur, heldur okkar hlutverk að vera til staðar fyrir þau.

Það er eðlilegt að miklar sveiflur eigi sér stað í skilnaðarferlinu, okkur getur langað að öskra, gráta eða leggjast undir sæng svo dæmi séu tekin, en það hefur augljóslega slæm áhrif á börn, sérstaklega ung börn, að verða vitni að því að foreldrum þeirra líði mjög illa. Það getur orðið til þess að þau fari að leggja sig fram við að vera til staðar fyrir okkur, gera allt til þess að okkur líði vel, vera dugleg eða láta lítið fyrir sér fara. Eins geta þau virst fjarlæg, vilja ekki tala um hlutina og í sumum tilvikum brýst út reiði og stjórnlaus hegðun sem getur birst heima fyrir og/eða í skóla og öðrum félagsskap. Allt eru þetta birtingarmyndir þess að börnin eru að verja sig fyrir sársaukanum sem þau upplifa og hluti af því er að hafna sínum eigin tilfinningum og beina orkunni annað. Börnum hættir einnig til að líta svo á að það sé þeim að kenna ef foreldrum líður illa eða eru að skilja og óttast jafnvel að þurfa að velja á milli foreldra. Eins er algengt að börn óttist að valda því að foreldri upplifi höfnun ef þau segjast frekar vilja vera á einum stað heldur en öðrum.

Það er augljóslega erfitt að horfast í augu við að skilnaður er erfiður fyrir alla, ekki síst börnin. Það að sama skapi mikilvægt að gera sér grein fyrir sem flestu sem upp getur komið í tilfinningalífi barnanna svo hægt sé að hjálpa þeim að líða sem best þrátt fyrir breytingar. Þess vegna ítreka ég að mikilvægast er að vera til staðar fyrir þau, hjálpa þeim að finna til öryggis og jafnvægis, leggja sig fram við að hlusta á þau og spyrja hvernig þeim líður og hvað þau eru að hugsa. Svo er um að gera að finna leiðir til þess að gera eitthvað skemmtilegt líka, fara til dæmis í sund, út að leika eða búa til skemmtilegt kvöld heima við, þannig að það séu líka góðar og skemmtilegar upplifanir á þessu tímabili. Það er mjög mikilvægt að báðir foreldrar séu til staðar á þennan hátt og því meira sem þið getið ákveðið varðandi framhaldið, því betra þannig að hægt sé að gefa börnunum ákveðin svör um hvernig hlutirnir verða í framhaldinu. Ef þið getið sinnt þessu vel, sýnt hvort öðru virðingu þrátt fyrir erfiðleikana og verið í jafnvægi í kringum börnin, þá aukið þið líkurnar á því að þeim líði betur og finni til öryggis.

Síðara atriðið sem þú nefnir varðandi ótta við að vera ein og bera ábyrgð á öllu er algeng upplifun í skilnaðarferlinu og verður að viðurkennast að mín er reynsla er sú að hún kemur mun oftar upp hjá konum en körlum, þó það geti auðvitað líka verið á hinn veginn. Fyrir því eru ýmsar ástæður og hvað þetta varðar hvet ég þig til að leita þér faglegrar aðstoðar, bæði til þess að vinna úr skilnaðinum og í leiðinni til þess að fá stuðning og styrk til þess að setja heilbrigð mörk og huga að þínum þörfum og rétti í framhaldinu.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál