Af hverju er ég svona lengi að jafna mig?

Það að ganga um með brotið hjartað er alls ekki …
Það að ganga um með brotið hjartað er alls ekki viðunandi ástand. Ef við ákveðum að lífið sé til að læra af því þá eru sambönd einstaklega lærdómsrík, í raun spegill á okkur sjálf. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr einstaklingur af hverju hann er svona lengi að ná sér eftir fjarsamband sem endaði eftir tvö ár. 

Hæ.

Ég er með stutta spurningu. Af hverju er ég svona lengi að jafna mig eftir sambandsslit? Sambandið varði í 2 ár og var fjarsamband.

Kær kveðja, X

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Eggert

Hæ X.

Stutta svarið er: Af því að þú elskaðir manneskjuna og fjarlægðin gerir fjöllin blá.

Lengra svarið er: Af því að sambandið átti að kenna þér hluti sem þú átt eftir að sjá. Ég þyrfti að heyra meira frá þér til að aðstoða þig að draga lærdóm af samskiptunum. 

Ef ég gæti fengið þig til að samþykkja að ást sé ákvörðun, sem þú ákveður að deila með flottri manneskju sem þú hefur tekið þér tíma til að kynnast vel. Myndir þú þá taka ákvörðun um að halda áfram að elska þessa manneskju? Hvað ef samband ykkar mun vara að eilífu, þrátt fyrir að samskiptum ykkar sé lokið um sinn? Hvað þarf til að þú getir sleppt?

Var það hinn aðilinn sem endaði sambandið? Þarftu þá að komast yfir höfnunina? Eða varst það þú sem hafnaðir hinum aðilanum? Þarftu þá að vinna í þér til að takast á við óttann sem náin samskipti vekja upp hjá þér?

Þú ert að gefa mér allt of litlar upplýsingar til að vinna með. En af þessum sökum langar mig ekki að koma þér hjá því að fá svar. Veistu af hverju? Af því ég held að það sé raunverulega ástæða fyrir að þú eigir erfitt með að komast yfir manneskjuna sem þú varst með í tvö ár úr fjarlægð. Kannski ertu með gamlan ótta?  Ótti við að vera hafnað? Eða ótti við að fólk kunni raunverulega við þig eins og þú ert?

Hvað hefði getað gerst hefðir þú sent mér meiri upplýsingar? Hvað gerist ef þú opnar þig fyrir öðrum? Kynnir þú þig raunverulega inn í sambönd og kanntu að meta náin tengsl? Eða henta fjarsambönd þér betur?

Þegar við erum ástfangin og erum í sambandi við aðila sem við berum virðingu fyrir og deilum sömu gildum með þá er alltaf erfitt að komast yfir slíkt. En líkt og það er ákvörðun að fara í sambönd, er einnig ákvörðunin okkar að fara út úr þeim. 

Komdu út úr þessu sambandi í dag og skrifaðu niður hjá þér: Hvað líkaði mér við þetta samband og aðilann sem ég deildi því með? Hvað kunni ég að meta? Hvað var sambandið að næra í mér? Var fjarlægðin þannig að ég gat dagdreymt? Vildi ég fjarsamband, hinn aðilinn eða bæði?  Bjuggum við í sama landi eða sömu borg? Var eitthvað sem ég lagði ekki inn í sambandið sem ég veit að ef ég endurtek með öðrum þá muni það eyðileggja nýtt samband líka? Er eitthvað sem ég á eftir að segja þessum aðila en þori ekki? Setti ég heilbrigð mörk? Valdi ég aðila sem ég vissi undir niðri að myndi hafna mér, til að næra egóið mitt sem segir mér að ég sé ýmist æðisleg/æðislegur eða ömurleg/ömurlegur?

Boltinn er hjá þér. Ef þig raunverulega langar að vakna til lífsins og fá eitthvað nýtt að vinna með sendu mér þá nokkur orð.  Ég skal lofa þér að það verður fyrirhafnarinnar virði. Þú ert ekki einn með þessar tilfinningar.

Gangi þér vel.

Kærar, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál