Blómstrar ástarfíknin á Instagram?

Það er áhugavert að skoða hvaða áhrif samfélagsmiðlar, sér í …
Það er áhugavert að skoða hvaða áhrif samfélagsmiðlar, sér í lagi Instagram, hafa á heilastarfsemi fólks. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í tengslum við heitar umræður á samfélagsmiðlum að undanförnu um Instagram, hvað birtist þar, stöðu áhrifavalda og viðbrögð við þeim er áhugavert að skoða það sem er vitað um samfélagsmiðla og áhrif þeirra á heilastarfsemi, fíkn og hormónaframleiðslu. 

Samkvæmt vísindasamfélaginu gæti allt að þriðjungur fólks verið í hættu á að ala með sér Instagram-fíkn. Forritið getur vakið upp ástar- og kynlífsfíkn hjá fólki þar sem auðvelt er að detta í dagdrauma um aðra á Instagram og einmana fólk getur dottið í að birta myndir af sér til að fá athygli frá öðrum. 

Allt að 10% fólks geti orðið óstarfhæft þegar kemur að því að hanga á forritinu og dagdreyma um hvernig lífið gæti verið. Fólk fær þráhyggju og vill að einhver annar beri ábyrgð á því svo líf þess verði betra. 

Instagram-fíkn

Mark D Griffiths og Kagan Kircaburun gerðu rannsókn sem birtist í Behavioral Addiction í febrúar 2018 þar sem kom í ljós að samkvæmt úrtaki þeirra virtust 66,5 % notenda Instagram ekki vera með fíkn í forritið. 26,5% notenda mælast með væga fíkn í forritið, 6,1% með miðlungsfíkn og 0,9 % notenda voru með mikla fíkn í Instagram. Alls voru 33,5% úrtaksins talin í hættu þegar kemur að fíkn í forritið. 

Ástarfíkn og Instagram

Eins hefur verið í umræðunni að Instagram valdi ástarfíkn hjá fólki. Að hér á árum áður hafi verið erfiðara að skoða efni sem virðist daglegur viðburður á Instagram. Þá virðast myndir sem fólk birtir af sér á Instagram sýna mun meiri nekt en áður og er þá ekki bara verið að tala um ungt fólk heldur fólk á öllum aldri.

Þeir sem birta myndir fá síðan jákvæða eða neikvæða styrkingu eftir því hvort þeir fá like á myndir sínar eða ekki. Dæmi eru um að ungar stelpur birti myndir af sér fullklæddum og fái þá örfáa til að setja like á myndina sína. Þær síðan birta mynd af sér í færri fötum og fá mörg hundruð like í kjölfarið. Þetta styrkir þá hegðun þeirra að gera meira af því að birta myndir af sér fáklæddum.  

Ástar- og kynlífsfíkn á sér margar birtingarmyndir. Ein skilgreining er sú þegar fólk eyðir stórum hluta af degi sínum í að dagdreyma um manneskju sem mun koma inn í lífið og gera það betra. Þessi manneskja getur verið fræg persóna á samfélagsmiðlum, fyrirsæta eða leikari svo dæmi séu tekin. 

Grunnurinn í ástarfíkn er að einhver annar geti leyst vandamál persónunnar sem er með þráhyggjuna. Þegar síðan þráhyggjan verður ekki að veruleika getur aðilinn með ástarfíknina misst stjórn á skapi sínu og/eða misst þráðinn í lífinu. 

Vísbendingar eru uppi um það að fólk sem hefur upplifað skert tengsl við uppalendur í æsku er líklegra til að þróa með sér ástar- og kynlífsfíkn en aðrir. Það óttast höfnun þegar það verður fullorðið. Þeir sem eru með ástarfíkn virðast vera ófærir um að mynda nánd við annað fólk, eru oft með þráhyggjuhugsanir til að flýja það að taka ábyrgð á eigin lífi. 

Tölfræði ástarfíknar bendir til þess að mjög margir séu haldnir einhvers konar þráhyggju fyrir ást en samkvæmt strangri skilgreiningu á fíkninni er talið að 5-10% Bandaríkjamanna séu haldnir ástarfíkn. 

Instagram og ástarhormónið

Fyrirtæki sem sérhæfa sig í samfélagsmiðlum, svo sem Buffer og fleiri hafa bent á að Instagram og aðrir samfélagsmiðlar örvi oxytósin- og dópamínframleiðslu í heilanum á fólki. Oxítósín er hormónið sem stundum er kallað ástar- eða tengslahormónið. Hormónið sem leysist úr læðingi þegar þú átt náin samskipti við þann sem þú elskar. Við fullnægingu og fleira í þeim dúrnum.

Dópamín er síðan stundum kallað sæluhormónið. Dópamín tekur þátt í efnafræði ánægjunnar en losun efnisins í þann hluta randkerfisins sem hefur verið kallaður ánægjustöð (svæði rétt neðan við stúku heilans) framkallar ánægju. Ánægjustöðin verðlaunar lífsnauðsynlega starfsemi svo sem át og kynlíf en hún kemur einnig við sögu í fíkn sem tengist alkóhóli, tóbaki og ýmsu öðru.

Það er greinilega margt sem hafa þarf í huga þegar kemur að samfélagsmiðlum og munu langtímarannsóknir á sviði sálfræði án efa varpa skýrari mynd á stöðuna í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál