Hvernig fæ ég áhuga frá henni aftur?

Það getur verið misjafnt hvernig fólk sýnir ást í samböndum …
Það getur verið misjafnt hvernig fólk sýnir ást í samböndum og hversu mikið kynlíf fólk vill stunda. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá manni sem langar að bæta sambandið við kærustuna. Hann er meira fyrir ást og kynlíf í sambandinu en hún er. 

Góðan daginn.

Ég er í sambandi og hef verið það í nokkur ár. Ég er ástfanginn af þessari stelpu og hef áhuga á að sambandið verði betra hjá okkur. 

Þannig er mál með vexti að ég er meira fyrir ást og kynlíf í okkar sambandi. Hún er töluvert mikið minna fyrir það en ég. En hún vil ráða ferðinni í þessum málum. 

Ég hef rætt þetta við hana og bent henni á þetta en lítið breytist. Svo koma upp mál sem við verðum ósátt með sem endar kannski á því að við verðum pirruð út í hvort annað. Þá er alveg hægt að gleyma því að neistinn verði til staðar í eimhvern tíma frá hennar bæjardyrum séð.

Ég hef ótrúlega oft reynt að sýna henni ást og löngun en hún ýtir mér í burtu og segir „ekki núna“. Mig langar svo að við séum hamingjusöm og stundum reglulegt og gott samlíf því eftir það er allt miklu betra og sambandið miklu sterkara fyrir vikið.

Hvað get ég gert til þess að hún viti að mér finnist hún sú eina rétta og hvernig fæ ég hana til að fá áhuga á mér og okkur aftur?

Bestu þakkir fyrir skrifin!

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Góðan daginn til þín líka og takk fyrir að lesa skrifin mín. 

Það er skemmtilegt að sjá hvað ég er að fá mikið af bréfum frá karlmönnum. Það sem ég er að sjá með reynslunni er að við erum öll manneskjur, óháð kyni, og eigum fleiri hluti sem sameina okkur en sundra. 

Ég er nokkuð viss um að margir hafi lesið bréfið þitt og speglað sig í því. Enda eru mörg sambönd lík þínu sambandi. Stundum er það konan sem þráir meiri ást, stundum karlinn. Stundum bæði. 

Þú getur unnið heilmikið í sambandinu ef þú færð uppgjöf og fúsleika inn í lífið þitt. 

Uppgjöfin kemur þegar við spjöllum sem dæmi við ráðgjafa um mynstur í ástarlífinu okkar. Þegar við ákveðum að hætta að gera hlutina eins til að upplifa eitthvað nýtt.

Í kjölfar uppgjafar (sumir kalla þetta botn í samböndum) kemur ákveðinn fúsleiki til okkar. Fúsleiki til að þiggja ráðgjöf, nýjar hugmyndir eða leiðir sem við prófum svo við fáum jákvæðar breytingar inn í lífið okkar. 

Ef þú vilt raunverulegar langvinnar breytingar þá skaltu ekki þiggja einfalt ráð, heldur fara í djúpvinnu með þig sjálfan. 

Þú talar um samlíf hér að ofan en ég er meira að lesa í samskiptin ykkar. Að sama skapi kom svo sterkt til mín sú hugsun að ef þið væruð að koma til mín í fyrsta tímann ykkar færi ég fljótt í að spyrja ykkur hvernig ábyrgð þið takið á heimilinu. 

Það sem ég hef tekið eftir er að sá aðili í sambandinu sem tekur að sér fleiri verkefni á heimilinu er vanalega sá sem er of þreyttur fyrir kynlíf. 

Eins eru til ólík tungumál ástarinnar. Ef til vill ert þú meira að sýna ást með snertingu en hún kannski með því að segja fallega hluti eða að sýna þá í verki.  

Taktu ábyrgð á þér og þinni hamingju, settu þig í fyrsta sætið og vertu besta útgáfan af þér. Það fellur ansi margt í fallegan farveg með því. Ef hún er til í ráðgjöf með þér er það líka gott, en ég myndi leggja af stað í þessa vinnu óháð uppgjöf eða fúsleika hennar. 

Gangi þér vel og mundu að það er vinna að láta samband ganga vel og maður þarf að setja sér markmið í samböndum líkt og annars staðar í lífinu.

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál