Að bera skömmina

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Skömm er tilfinning. Vil ræða um skömm sem fólk hefur án þess að hafa gert neitt af sér. Ekki falið að ég hef átt við veikindi að stríða. Að veikjast af alvarlegri áfallastreituröskun kynnti mig fyrir veröld andlega veiks fólks. Ég hef aldrei ímyndað mér mig í þeim hópi! Kemur ekkert fyrir mig! Ég er svo sterkur og....bla bla. Þegar manneskja setur mælikvarða á eigin getu og/eða ímyndar sér að aðrir geri það, þá er eins gott að standa undir kröfunum! Annars...skamm,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég hef ritað um hvað hafði alvarleg áhrif á sálarlíf mitt sem barn. Var með daglegan kvíða og ótta, meðvirkni og sjúklegan ótta við höfnun, að verða yfirgefinn. Gat ekki annað en byrgt sársaukann en leið vítiskvalir. Neyddist til að læra að leika hlutverk. Setja upp grímur til að verja aumingja mig. Ég sýndi það ekki en upplifði stungusár ef einhver setti út á mig. Sem barn lærði ég að flýja raunveruleikann. Íþróttir björguðu mér. Þar fékk ég útrás, athygli og hvatningu. 

Það dugði skammt. Inni í mér bar ég fullan poka af sársauka og skömm. Skömm? Já ég gerði allt til að fela hvað kom fyrir svo enginn vissi neitt. Það er skömm. Rótin að skömminni var ótti. Upplifa skömm án þess að ég hafi unnið til þess.

Líka sagt frá mínum eina draumi í lífinu, að verða atvinnumaður í fótbolta. Komst ekkert annað að. Stórefnilegur og hefði getað orðið að veruleika. Neysla á vímugjöfum gerði drauminn að engu. Vímuefni deyfðu sársaukann og skömmina. Fyrst. En snerist í andhverfu sína.

Skamm! Hef allt mitt líf lifað í skömm að klúðra mínum ferli. Ég gat ekki fyrirgefið mér. Veit ekki hve oft ég hef hugsað til baka til sumars er ég kornungur fann lyktina af draumnum. Kominn í unglingalandslið. Spila með liði í efstu deild og taka þátt í leik gegn Manchester United. Lyktin dofnaði og rotnaði...fljótt.

Ég eignaðist líf við að hætta neyslu vímuefna. Hafði útilokað að ég myndi eignast eðlilegt líf. Sjálfstraustið jókst og sjálfsmyndin. Viðurkenndi mig það sem ég fyrirleit sem barn. Alkóhólista. Já skammaðist mín. Áfall. Fyrst.

Rúmlega tvítugur var þroski minn sá að ég kunni ekki að skilgreina tilfinningar og var ófær í mannlegum samskiptum. Ég varð að læra þetta sem mér þótti lítillækkandi. Lærði. Gerði allt sem mér var ráðlagt. Í fyrsta skiptið á ævinni. Það dró úr skömminni!

Lítil kaffistofa í gamla háskólanum á Akureyri. Ég leit í kringum mig. Enginn að spá í mig sérstaklega. Ekkert öðruvísi en aðrir. Þetta augnablik var ógleymanlegt. Upplifði andlega vakningu. Að vera maður með mönnum. Engin skömm. Kikk sem ekkert vímuefni hafði framkallað áður.

Viðbrigði að upplifa gleði við að útskrifast með háskólagráður og nýta mér þekkinguna á vinnumarkaði. Hvað þá að eignast fjölskyldu. Börn. Allt litlir og stórir sigrar sem drógu meira úr skömminni. Heyrðu ég er bara ágætur er það ekki? Svo liðu ár. Sigrar, töp, gleði og sorg. Eins og lífið er.

Ég veikist sumarið 2013. Hef spáð í hvort það sem orsakaði mína röskun hefði háð mér í lífinu. Hef alltaf verið ör, hvatvís og þrjóskur. Ef ég ákveð eitthvað, hætti ég ekki fyrr en það tekst. Var gjarn á að taka að mér fleiri verkefni en ég réð við en náði eftir mikið strit að skila. Ekki eðlileg hegðun? Mitt sjálfstraust og ímynd var mikið byggt á áliti annarra. Skildi það síðar. Ég var líka svona heima hjá mér. Átti erfitt með að sitja kyrr. Varð að spennufíkn. Upplifa kikk að takast eitthvað sem ég hélt ég gæti ekki. En kikkið kom ekki alltaf. Já þá upplifði ég skömm. Þessi gamla skömm og ótti við að vera út undan kraumaði alltaf og beið eftir að sjóða upp úr. Setti á mig rúmlega ómanneskjulegar kröfur. Ef eitthvað tókst ekki. Skamm Einar!

Ekki tilviljun ég skyldi enda burnt out (kulnun). Oft. Þangað til drapst á mér haustið 2015. Sló í mér hjartað en taugakerfið og varnarkerfið virkuðu ekki og orkan engin. Það var niðurstaðan eftir 2 ára hræðilega baráttu við einkenni áfallastreituröskunar. Rústaði mínu lífi. Veraldlega og andlega. Heilsan farin. Vissi ekki hvað eða hvort eitthvað væri að!

Skömm? Já! Ímyndaðu þér að geta ekki útskýrt hvað sé að og hvers vegna allt færi fjandans til! Edrú í þokkabót.

Þar til ég fékk hjálp. Útskýringu. Gleymi aldrei feginleikanum að vita ég væri veikur! Tók mig dágóðan tíma að melta það en fá skýringu var himnasending. 

Ákvað að lifa. Viðurkenndi vanmátt og lagði mig í hendur annarra. Skömmin hvarf.

Ég var útbrunninn, viðkvæmur, næmur o.fl. Kraftaverk að vakna á morgnana, opna augun og anda. Ekki sjálfsagt. Þeir sem þekkja þessa stöðu skilja hvað ég meina. Mér leið aldrei á fyrstu mánuðum batagöngunnar eins og ég hefði fallið af stalli. Engin skömm. Hef alltaf verið opinn um mín veikindi sem hefur hjálpað mér að festast ekki í skömm fyrir að vera veikur. 

Mér brá hve margir andlega veikir lifðu í skömm. Dæmin sem ég heyrði eru alls konar. Þora ekki að leita sér hjálpar eða láta vinnuveitanda vita. Af hverju? Skömm og ótti við álit fólks. Fordómar. Upplifa sig sem notaða myglaða gólftusku. Ömurleg staðreynd. 

Ég byrjaði að rita pistla og birta. Viðbrögðin við fyrsta pistlinum urðu gríðarleg, en jákvæð. Frá þakklátu fólki sem margir sögðu mér frá skömminni. Ég hugsaði. Ef ég treysti mér til að rita um mína reynslu og birta, fannst mér það nánast skylda að gera það. Þrískiptur tilgangur. Hjálpar mér. Hjálpar öðrum (lykilástæða). Mitt framlag í að opna umræðu í þjóðfélaginu. Slá á fordóma. 

Svo kom helvítis skömmin!

Sumarið 2017 í prógrammi hjá starfsendurhæfingu Virk þóttist ég til í slaginn á vinnumarkaði. Tók mánuð á fullu að leita mér að vinnu. Hélt ég væri kominn með vinnu. Ég og annar komu til greina. Viss um að verða valinn og spáði aðallega í hvort ég ætti að þiggja vinnuna. Mér var ekki boðin vinnan. Ég hrundi. Allt loft úr blöðrunni. Engin orka. Enn á ný. Útbrunninn. Blessun að ég fékk ekki þessa vinnu því þetta kenndi mér að ég var langt því frá tilbúinn. Skammastu þín Einar!!

Hví? Jú ég hafði haft hátt út á við og verið bjartsýnn og jákvæður. Þetta var nýtt áfall. Ég lokaði mig af í 2 mánuði. Skreið í skel og dagarnir liðu. Ég missti vonina. Leið líkt og mér hefði mistekist. Gæti ekki látið fréttast hvað væri að. Varð líka reiður og bitur sem ég hafði haft fulla stjórn á. Upplifði hrikalega paranoju. Að fara í búð var martröð og ég fór krókaleiðir af ótta við að hitta einhvern sem gæti spurt hvað væri að frétta!

Skömm? Já. Af sama toga og sem barn! 

Að viðurkenna vanmátt. Lífsbjörg. Ég náði því. Enn og aftur. Horfast í augu við veruleikann. Viðurkenna mistök. Fyrirgefa sjálfum mér. Ég er manneskja en ekki vél. Manneskja með takmarkað þol við streitu og álagi. Enn á ný varð ég að brjóta af mér gömlu macho karlmannsímyndarhlekkina um að láta ekki spyrjast að ég gæti ekki eitthvað. 

Komst upp úr bakslaginu. Þarf ekki að skammast mín fyrir neitt. Skil fólk sem upplifir skömm. Mitt ráð er ekki létt. Að stíga inn í óttann og viðurkenna fyrir sjálfum sér fyrst og svo helst öðrum hvernig þér líður. Að skrifa hugrenningar (ekki pistlana) er mitt sterkasta vopn. Og skapa ljóð og tónlist. Fá útrás fyrir tilfinningar. Er reikandi tilfinningavera og þarf að gæta að því að vera með hugann í jafnvægi. Þar hjálpar hugleiðslan mér. Minna mig daglega á að ég er ekkert verri né betri en Gvendur á Eyrinni.

Ég á gráa daga. Alltaf líða þeir hjá og birtir til. Hef galla sem kosti. Mér verður oftast á í samskiptum. Breytingin er að ég er tilbúinn að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar. Það er gott meðal við skömminni. 

Skömm er eins og baneitraður vírus sem étur fólk að innan. Skömm yfir að vera andlega veikur. Sá fótbrotni skammast sín ekkert. Af hverju sá þunglyndi?

Ég tala um mína reynslu, ekki sem heilagan sannleik. Ég er svo heppinn að geta í dag horfst í augu við lífshlaupið og tekist á við t.d. skömmina. Hún fer ekkert. En það er hægt að halda henni niðri. Gefur mér að geta miðlað minni reynslu. 

Ég þarf að skila skömminni. Var að því. Þarf að gera aftur. Og aftur. 

mbl.is