Kynntist kvæntum manni og leitar ráða

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veltir því fyrir sér hvort hún sé með ástarþrá? 

Sæll Valdimar.

Ég kynntist manni en hann sagði mér ekki að hann væri í sambandi fyrr en við vorum búin að sofa saman. Hann talaði um börnin sín tvö eins og ekkert væri en minntist ekki einu orði á barnsmóður sína og kærustu. Ég hélt að það væri í virðingarskyni við mig og hugsaði með mér að ég myndi spyrja hann kannski á þriðja stefnumóti. Hélt að hún væri kannski dáin og hann væri svona duglegur, einn með börnin. Mér gekk illa að hrista hann af mér jafnvel eftir að hann sagði mér frá því að hann ætti kærustu. Ég varð svo ótrúlega hrifin svo fljótt. Var eiginlega alveg í skýjunum. Svo hlustaði ég á hann segja mér alla sína sorgarsögu. Sambandið hans var erfitt. Búið að vera erfitt lengi. Mér fannst það ekki koma mér við og bað hann um að hætta að tala um sambandið sitt við mig. Okkar samskipti ílengdust. Við höfum þekkst í tæpa 8 mánuði. Hann sagðist elska mig. Allan þann tíma var hann enn þá með kærustunni sinni í bilaða sambandinu. Samkvæmt honum sofa þau ekki saman lengur og eru bara sambýlingar. Hann gat ekki bara hoppað burt frá skyldum sínum. Það á ég að skilja. Hversu lengi á ég að skilja? Hversu miklar líkur eru á því að hann muni halda fram hjá mér líka? Og hversu miklar líkur eru á því að hann muni nokkurn tíma fara úr sínu sambandi?

Ég er ekki búin að vera í samskiptum við hann í nokkrar vikur og er að reyna að slíta mig í burtu. Allir sem ég hef talað við hafa sagt mér að hætta þessu en það er fáránlega erfitt. Ég legg það alls ekki í vana minn að vera með lofuðum mönnum en hann náði bara einhverju taki á mér. Er þetta merki um slæma sjálfsvirðingu? Hvernig greinir maður ást frá þráhyggju? Ég er búin að greina hann með persónuleikaröskun (ansi narsissískur og mögulega sósíópati). Fyrir utan allt þetta þá er hann kynlífsfíkill. Frábær tilvonandi maki! Ég gæti ekki treyst honum en mér líður bara eins og ég gæti samt horft fram hjá öllu þessu. Eða breytt honum. Sjitt, hvað þetta er mikil klisja eitthvað.

Er ást, alvöruást, bara algjör blinda? Ég tel mig vera frekar klára konu. Eru það bara konur með lága sjálfsvirðingu sem falla fyrir svona svikulum gaurum?

Kveðja, K

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Góðan daginn og takk fyrir þessar áhugaverðu spurningar.

Þú nefnir lága sjálfsvirðingu og vissulega má færa rök fyrir því að hún valdi því að við upplifum okkur háð öðru fólki, sem er hluti af ástarþrá (e. Love addiction). Auk þess mætti ræða það hvort það er góð sjálfsvirðing að tengjast fólki á mjög náinn máta, áður en við kynnumst því nægilega vel, til dæmis til að vita hvort þau er í öðru sambandi. Hafandi sagt þetta þá vil ég hrósa þér fyrir að setja mörk. Það er mikilvægt að vera raunsær í lífinu og það á líka við um sambönd. Þú virðist tilbúin að líta á merkin sem þú nefnir sem ættu að blikka öllum viðvörunarljósum. Óheiðarleiki, vantraust, kynlífsfíkn, narsismi og möguleg persónuleikaröskun eru allt atriði sem við myndum virkilega skoða áður en við færum að fjárfesta meira í sambandi við slíkan einstakling. Þá er ég alls ekki að leggja dóm á viðkomandi og veit auðvitað ekkert um það hvort eitthvað af þessu er rétt. Þetta er engu að síður þín upplifun og þá er mikilvægt að þú hlustir á það og berir  virðingu fyrir sjálfri þér til þess að setja heilbrigð mörk.

Spennan sem myndast gjarnan í upphafi sambanda getur orðið mjög mikil og það á ekki síst við um sambönd við einstaklinga sem eru í einhvers konar ójafnvægi. Spennan í kringum óheiðarleikann getur magnað upp tilfinningar sem við ruglum stundum saman við ást. Það virðist líka vera að þessi aðili viti hvernig á að viðhalda spennunni og áhuganum miðað við það sem þú segir. Fyrst er verið að leyna þig hlutum og áður en þú veist ertu orðin þátttakandi í óheiðarleika (framhjáhaldi). Hann viðheldur óheiðarleikanum og leyndarmálinu með því að halda sambandinu áfram og segja þér trúnaðarmál úr sínu eigin sambandi, til dæmis að þau sofi ekki saman (þetta er orðið ykkar leyndarmál = sameiginlegt traust). Síðan segir hann þér sorgarsögu sína (búa til meðaumkun og ýta undir þörf þína til að „bjarga“ eða breyta viðkomandi) og til að rugla þig enn meira í ríminu segist hann elska þig, þó hann sé í raun ekki tilbúinn að vera með þér. Ekkert af þessu skiptir þó í raun máli, það er að segja, hvað hann segir eða gerir. Það eina sem skiptir máli er hvað þú ætlar að gera í þessu. Þú nefnir sjálf að þú óttist að þú gætir litið fram hjá öllum viðvörunarljósunum. Til þess að forðast algeng mistök þá er okkur öllum hollt að fá lánaða dómgreind, tala við einhvern sem sér málin án persónulegra tenginga og getur sagt okkur hvað viðkomandi sér. Ég mæli því með því að þú haldir áfram að fá lánaða dómgreind gagnvart þessu máli og vertu góð við þig. Það er ekkert óalgengt né óeðlilegt að finna svona sterkar tilfinningar í svona málum og skiljanlega erfitt að losa sig frá þeim. Það gerist þó með tímanum og byggist á því að setja skýr mörk og vera ekki bjóða sér upp á að „smakka“ öðru hverju á því sem kveikir á stjórnlausri löngun.

Gangi þér allt í haginn!

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál