„Gott líf að ná að þroska vibrögðin“

Vigfús Bjarni Albertsson hefur lært margt af því að vera …
Vigfús Bjarni Albertsson hefur lært margt af því að vera prestur. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Það að vera sjúkrahúsprestur í fimmtán ár hefur kennt Vigfúsi Bjarna Albertssyni margt. Eitt það helsta er að nýta tímann vel því við vitum ekki hvenær hann er á þrotum.

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

„Að vernda lífið, það er hinn augljósi tilgangur í náttúrunni. Hinn dýpri tilgangur er að dýpka tengslin við sjálfan sig, annað fólk og Guð. Sá tilgangur kallar fram það sem okkur er ætlað að vera. Í mínum huga hafa allir köllun til að verða það sem þeim er ætlað að gera.“

Hvað hafa störf þín sem sjúkrahúsprestur kennt þér um lífið og tilveruna?

„Hvað ég get lært margt af öðru fólki, hvað það er til margt stórkostlegt fólk sem kann svo innilega að lifa og svo margt fólk sem kann að deyja. Fólk er upp til hópa gott fólk og það sem við teljum að sé það persónulegasta í okkar lífi er hið almenna í lífinu, reynsla okkar er svo lík. Eins hefur þessi reynsla kennt mikilvægi þess að nota tímann vel í lífinu.“

Hvað er gott líf að þínu mati?

„Gott líf að mínu mati er að hafa náð að þroska viðbrögð sín, sjálfsábyrgð og hugsanir í lífsferðalagi þar sem við ráðum svo litlu. Það gerist svo margt sem ekki verður fyrirséð. Okkar innri veruleiki ræður svo miklu yfir farsældinni. Það er stórkostlegt þegar maður hittir fólk sem kann þetta.“

Hvað getum við gert daglega til að sinna okkur sjálfum og þeim sem okkur þykir vænt um?

„Stundað eins lítinn hugsanalestur og hægt er, rætt opinskátt og spurt um þarfir okkar og annarra. Brugðist við því hvað ég og aðrir þurfa á að halda.“

Hvað ber að varast í lífinu að þínu mati?

„Ég hef sjálfur gert svo margt í lífinu sem maður á að varast að gera. Ég held að það eigi að forðast allt sem getur á einhvern hátt minnkað eða stoppað þroska okkar. Það er líklega ekki það sama fyrir alla.“

Hvað er það sem allir aðstandendur óska sér eftir að hafa misst þann sem þau elska?

„Það sem oftast kemur upp er ósögð orð, óuppgerð mál, þakklæti sem gleymdist að orða, skortur á tíma.“

Hvað segir fólk þegar

það skilur við?

„Þessar stundir eru misjafnar. Þær stundir sem maður man og hefur oft orðið vitni að er þegar fólk uppörvar þá sem eftir verða, það hef ég oft séð fólk á öllum aldri gera. Þegar fólk sem er að deyja gefur fólkinu sem eftir verður leyfi til að lifa vel áfram. Ég hef reyndar líka séð angistina, óttann, í öðrum tilfellum. Stundum deyr fólk eins og það lifir.“

Hvað myndir þú segja þér tvítugum um lífið og tilveruna?

„Það yrði nú langt spjall, ég veit ekki hvort það væri til gagns. Mér virðist eins og maður þurfi alltaf að upplifa og prófa í lífsferðalaginu. Menntun, bækur, ráð, gott fólk hefur upplýst mig, atburðir lífsins kenna síðan. Sem betur fer hefur þessi fjörutíu og fjögurra ára gamli karl breyst mikið frá tvítugu og vonandi heldur það áfram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál