„Get ekki hætt að miða mig við aðra!“

Að taka pásu frá samfélagsmiðlum getur verið áhugaverð æfing.
Að taka pásu frá samfélagsmiðlum getur verið áhugaverð æfing. Ljósmynd/Colourbox

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem getur ekki hætt að miða sig við annað fólk.

Sæl,

Ég er kona á nokkuð skemmtilegum aldri sem hef það bara fínt. Málið er hins vegar sú hugsun sem er föst innra með mér sem snýst um að aðrir hafi það betra en ég. Eftir að samfélagsmiðlar urðu hluti af lífinu (jamm er 45 ára) þá er ég föst í að miða mig við fólk á mínum aldri, fólk sem er aðeins yngra, fólk sem á betri bíla, skemmtilegri maka, fer í fleiri ferðir og upplifir meiri sigra. 

Hvernig sný ég mér út úr þessu og set fókusinn á mig og mitt?

Kveðja, 

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Áhrif samfélagsmiðla hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Þá sér í lagi hvernig við miðum tilfinningalíf okkar við hvernig öðru fólki virðist líða séð utan frá. 

Ég veit að kona á þínum aldri með þína þekkingu veit jafnvel og ég að aðrir hafa það ekki endilega betra þótt þeir séu að hafa það nokkuð gott á samfélagsmiðlum. 

Ég mæli hins vegar með því að þú prófir að setja ramma utan um notkun þína á sem dæmi Facebook og Instagram. Ef þú tekur samfélagsmiðla alveg út tímabundið, en notar þá einungis tengt þeim verkefnum sem þú ert að vinna ef þú þarft, muntu finna ótrúlegan mun á líðan. 

Ég mæli með þessu fyrir alla. Eins mæli ég með að þeir sem eru að lifa mikið á samfélagsmiðlum, prófi að taka sér hvíld frá því tímabundið. Það sem þessi æfing hefur í för með sér er að maður tengir betur við fólkið í kringum sig.

Í fyrstu bregður manni aðeins í brún þar sem maður tekur betur eftir því hvað aðrir eru fastir í sem dæmi símanum. Síðan fer maður að hætta að taka eftir þessu og að fókusera meira á það sem maður kann að meta við lífið. Stundum eru það íþróttir og sund sem fólk velur að gera daglega. Fara út að hlaupa eða að stunda list, læra á hljóðfæri og þar fram eftir götunum. 

Flestir þeir sem hafa farið í gegnum svona tímabil fara aldrei jafn djúpt ofan í samfélagsmiðla aftur. Enda gefur það lífinu lit að rækta garðinn sem er nálægur manni. 

Ég mæli með allt að þremur mánuðum í svona æfingar. 

Áður en þú veist af verður lífið í öðrum litum, eiginmaðurinn orðinn skemmtilegri, börnin nálægari og heimilið áhugaverðara. 

Af hverju ekki að prófa?

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is