Þeir vildu skilnað þegar þetta gerðist

Jennifer Aniston og Justin Theroux eru skilin.
Jennifer Aniston og Justin Theroux eru skilin. AFP

Mörg hjónabönd enda með skilnaði. Hvað er það sem gerir útslagið? Hvenær veit fólk að hjónabandið er endanlega búið? Aðstæður fólks eru ólíkar en 15 fráskildir karlmenn deildu sinni reynslu á vef Prevention. 

Ég vildi ekki fara í ráðgjöf

Fráskilinn karlmaður sagði að hann hefði áttað sig á að skilnaður væri yfirvofandi þegar hann vildi ekki fara í ráðgjöf með konu sinni. Beiðni hennar gerði honum ljóst að ekkert gæti hjálpað þeim. Hann væri ekki lengur ástfanginn af konunni sinni og ekkert gat breytt því. 

Kynlífið var búið

Fráskilinn karlmaður sagði að hann hefði ekki stundað kynlíf með eiginkonu sinni í sex mánuði. Í fyrstu kenndi hann vinnusemi þeirra beggja um. Hann ákvað svo að skipuleggja rómantíska helgi fyrir þau á brúðkaupsafmælinu. Eftir kvöldmat fóru þau upp á hótel og hann fór að gera sig líklegan til þess að stunda kynlíf. Konan var hins vegar ekki á þeim buxunum og vissi maðurinn þá að hjónbandið væri búið. 

Fór í símann í leyfisleysi

Maður áttaði sig á því að hann vildi skilja þegar hann kom að eiginkonu sinni í símanum hans í leyfisleysi. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem hún fór í síma mannsins. Maðurinn hafði aldrei haldið fram hjá konu sinni en hún treysti honum greinilega ekki. 

Jennifer Garner og Ben Affleck ákváðu að skilja.
Jennifer Garner og Ben Affleck ákváðu að skilja. AFP

Hún hélt fram hjá

Fráskilinn karlmaður sagði konu sína hafa haldið fram hjá honum. Um leið og hún viðurkenndi framhjáhaldið vissi hann að hjónbandið væri búið. 

Konan bað um skilnað

Fráskilinn karlmaður vissi að hann væri ekki ástfanginn af eiginkonu sinni. Þau áttu hins vegar börn og rifust ekki mikið. Þegar eiginkona hans bað um skilnað vissi hann að hann væri einnig tilbúinn til þess að skilja.  

Var sama um þegar konan daðraði við annan mann

Fráskilinn karlmaður áttaði sig á því að hann vildi skilnað þegar hann kippti sér ekki upp við það þegar konan hans daðraði við annan mann. „Gott hjá henni,“ hugsaði maðurinn með sér og áttaði sig á í leiðinni að slík hugsun væri ekki góð fyrir framtíð þeirra. 

Hann langaði ekki að eignast börn

Eftir nokkur ár í hjónabandi vildi fyrrverandi eiginkona nú fráskilins manns byrja að reyna að stækka fjölskylduna. Í fyrstu hélt hann að hann vildi eignast börn en þegar kom að því áttaði hann sig á því að hann langaði ekki að eignast börn. 

Chris Martin og Gwyneth Paltrow ákváðu að skilja.
Chris Martin og Gwyneth Paltrow ákváðu að skilja. AFP

Öfundaði samstarfsfélaga sem var að skilja

Fráskilinn karlmaður áttaði sig á því að hann vildi skilja þegar hann öfundaði samstarfsfélaga sem var að segja frá skilnaði sínum. Hann áttaði sig á því að hann þyrfti einnig að komast úr hjónabandi sínu. 

Varð hrifinn af annarri konu

Hreinskilinn karlmaður segist hafa áttað sig á að hann þyrfti að skilja við eiginkonu sína þegar hann varð hrifinn af annarri konu. Segist hann ekki hafa viljað halda fram hjá konunni sinni. 

Einmana eftir að börnin fóru að heiman

Hjón sem giftu sig ung og eignuðust börn snemma skildu eftir að yngsta barnið fór að heiman. Segir karlmaðurinn að þau hjónin hafi ekki lengur átt samleið.

Saknaði hennar ekki  

Karlmaður sem var kvæntur konu sem ferðast mikið vegna vinnu byrjaði að hlakka til vinnuferða konu sinnar. Segist hann hafa áttað sig á að hann saknaði ekki konu sinnar. 

Höfðu ekkert til þess að tala um

Fráskilinn karlmaður segist hafa áttað sig á að skilnaður væri besta lausnin þegar þau hættu að hafa eitthvað að tala um. Hjónin voru vön að fara út að borða á föstudögum en eitt kvöldið áttaði hann sig á að þau höfðu ekki haft neitt að tala um lengi. 

Konan sýndi ekki stuðning

Fráskilinn karlmaður áttaði sig á því að hann þyrfti að skilja við konu sína þegar hún sýndi ekki breyttu lífi hans stuðning. Karlmaðurinn hafði átt í vanda með andlegu hliðina í mörg ár en fann loksins góðan sálfræðing, fór að hreyfa sig og varð hamingjusamur. Konan sagðist hins vegar sakna gömlu útgáfunnar af manninum. 

Fann fyrir mikilli gremju

Ekkert eitt atvik varð til þess að einn karlmaður skildi við konuna sína. Skilnaðurinn átti sér langan aðdraganda en maðurinn fann fyrir mikilli gremju gagnvart konu sinni í um heilt ár. Eina sem maðurinn pirraði sig ekki á var þegar eitthvað tengdist börnunum þeirra. Ef hún bað hann hins vegar um að fara sofa ákvað hann að vaka lengur og svo fram eftir götunum. Að lokum áttaði hann sig á því að hann væri ekki hamingjusamur í hjónabandinu. 

Vildi ekki verða eins og tengdaforeldrarnir

Fráskilinn karlmaður áttaði sig á að skilnaður væri eina leiðin til að forðast að eiga í eins samskiptum og tengdaforeldrarnir í framtíðinni. Hann og fyrrverandi eiginkona hans vörðu miklum tíma með tengdaforeldrum hans og að hans sögn var hann líkur tengdapabba sínum en eiginkonan lík móður sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina