Uppskriftin að sannri ást á Valentínusardaginn?

Ástarsagan um Allie og Nóa er vinsæl víða um veröldina.
Ástarsagan um Allie og Nóa er vinsæl víða um veröldina. Skjáskot/Instagram

Þar sem Valentínusardagurinn er haldinn hátíðlega 14. febrúar og margir án efa með væntingar því tengdar, er áhugavert að rifja upp kvikmyndina ógleymanlegu The Note Book sem er vinsæl um víða veröld á þessum degi. 

Kvikmyndin sem fjallar um ástarsögu þeirra Nóa og Allie lýsir á dramatískan hátt forboðinni ást sem gengur upp að lokum. 

Nói sem er fátækur verkadrengur fellur fyrir Allie sem mætir óvænt í heimabæ hans í Suður-Karólínu og heillar hann upp úr skónum. Þau eiga ástarvæntýri saman eitt sumar sem hefur þær afleiðingar í för með sér að þau gleyma seint hvort öðru og finna ástina saman að nýju sem þau rækta daglega til dauðadags. Að sjálfsögðu deyja þau saman í lokin. En margt við myndina vekur upp ástarþráhyggju sem áhugavert er að skoða í víðara samhengi.

Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að karlmenn hata þessa kvikmynd í leyni og konur festast í viðjum ástarþráhyggju eftir að horfa á hana. 

Ást við fyrstu sýn?

Þegar Nói sér Allie í fyrsta skiptið er hún á stefnumóti með öðrum karlmanni. Hann lætur það ekki á sig fá og klifrar m.a. upp hringhjól og hótar að sleppa takinu og láta sig falla til jarðar ef hún samþykkir ekki boð hans um stefnumót. 

Þar sem ást er ákvörðun en ekki tilfinning sem kviknar einvörðungu við að horfa á annað fólk, þykir þessi aðferð rauður fáni hjá mörgum sérfræðingum í ástar- og kynlífsfíkn. 

Eitt af einkennum ástar- og kynlífsfíknar er að tengjast fólki kynferðislega og/eða tilfinningalega án þess að kynnast því fyrst. En þetta einkenni er sagt koma fram þar sem fólk kunni ekki að setja heilbrigð mörk og eigi erfitt með að sjá hvar persónur byrja og annað fólk tekur við. Þegar einhver spyr ástarfíkil hver hann er svarar hann að jafnaði: Hver viltu að ég sé? 

Að vera ein og yfirgefin

Eitt af því sem mörgum finnst áhugavert við kvikmyndina og á að sýna ást Nóa til Allie er sú ástarmegrun sem Nói fer í gegnum þegar Allie er róin á önnur mið og orðin gift ráðsett kona í öðru ríki. 

Ástar- og kynlífsfíklum finnst þeir oft og tíðum innantómir og ófullkomir þegar þeir eru einir. Þrátt fyrir að þeir óttist nánd og skuldbindingu leita þeir stöðugt að ástarsambandi eða félaga til að fylla tómarúmið með.  

Ágætt dæmi um þetta er hvernig Nói fixar sig á annarri konu á meðan Allie er í burtu. Þar virðist hann fá útrás fyrir nánd með innantómu kynlífi með konu sem langar í meira en hann. Hungruð manneskja borðar aldrei af skynsemi og því eru sérfræðingar almennt sammála um að ástarmegrun sé ekki leiðin að bata. 

Að upplifa ástina á hverjum degi

Þegar Allie og Nói eru orðin gömul vakna þau saman á hverjum morgni sem hefst vanalega á því að Nói þarf að kynna sig fyrir Allie sem er farin að gleyma. Hann gerir þetta daglega til að upplifa augnablik með Allie yfir daginn þar sem hún þekkir hann aftur. Að sjálfsögðu er ákaflega heilbrigt og fallegt að vera til staðar fyrir maka sinn þegar hann veikist. En að upplifa þennan hring daglega, þar sem Nói þarf að eltast við Allie gerir það að verkum að þau verða einangruð frá vinum og fjölskyldu, sér sjálfum og veröldinni allri. 

Í heilbrigðum ástarsamböndum er veröldinni boðið með. Börn, fjölskylda og vinir verða virkir þátttakendur í lífi fólks og forgangur er á fleira en ást og rómantík. 

Þeir sem eru í þannig samböndum vita að það þarf ekki vatn, bát eða svani til að upplifa nánd og ást. Ætli sönn ást á Valentínusardaginn sé því ekki alls konar? Enda fólk með mismunandi langanir og þarfir og engin ein uppskrift til að góðum samböndum. Að fylla í tómleikann með fólki og ætlast til þess að aðrir færi gleðina inn í lífið þykir ekki heillavænlegt til lengri tíma litið. Megi sönn ást til þín byrja innra með þér. 

Ryan Gosling þykir einn myndarlegasti karlmaður veraldar. Hann fór með …
Ryan Gosling þykir einn myndarlegasti karlmaður veraldar. Hann fór með hlutverk Nóa í kvikmyndinni The Note Book. AFP
mbl.is