Einstæður faðir í vandræðum vegna meðlags

Íslenskur faðir nær ekki endum saman og hefur áhyggjur.
Íslenskur faðir nær ekki endum saman og hefur áhyggjur. Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er í vandræðum vegna meðlags og samnings við sína fyrrverandi. 

Sæll,

ég er einstæður faðir. Ég og mín fyrrverandi skráðum okkur ekki í samband á sínum tíma og vorum ekki með sama lögheimili til að skerða ekki umönnunarbætur og fleira.

Nú stend ég frammi fyrir því að þurfa að feðra börnin mín handvirkt í þjóðskrá og þarf að fá þjónustu lögfræðings til að leiðrétta gagnvart sýslumanni um stöðu mína.

Mín fyrrverandi tók sér pásu frá okkur í tvö ár og var ég með börnin á meðan. Hún greiddi mér ekki meðlag því ég vildi að tilvera barnanna myndi raskast sem minnst þennan tíma. 

Það endaði í því að viðkomandi kom til baka og hóf kröfu um meðlag í kjölfarið sem gerir mér erfitt fyrir þar sem ég þarf að lifa líka út mánuðinn. Ég get bara tekið þau til mín um þær helgar sem ég sé fram á að eiga fyrir mat. Hvað er til ráða?

Kveðja, einstæður faðir.

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll einstæði faðir

Samkvæmt skýlausu ákvæði 1. gr. a barnalaga nr. 76/2003 er móður skylt að feðra barn sitt, sé hún ekki í hjúskap eða sambúð með manni sem hún hefur lýst föður barnsins. Að öðrum kosti þarf karlmaður, sem móðir kennir barn sitt við, að gangast við faðerninu með skriflegum hætti. Er það oftast gert fyrir sýslumanni og þarf yfirlýsing karlmannsins að vera annaðhvort vottuð af lögmanni eða tveimur vitundarvottum. Hafi barn aftur á móti verið ranglega feðrað þarf að höfða sérstakt vefengingarmál fyrir dómi til þess að affeðra það samkvæmt III. kafla barnalaga. Í kjölfarið þarf svo að feðra barnið upp á nýtt með sérstöku dómsmáli eftir ákvæðum II. kafla laganna.

Um meðlag er kveðið á í IX. kafla barnalaga og skal það ákveðið við skilnað eða sambúðarslit foreldra skv. 54. gr. Þarf sýslumaður að staðfesta samning foreldra um meðlag. Þá er því foreldri ætíð heimilt að krefjast meðlags sem raunverulega stendur straum af framfærslu barns skv. 56. gr. enda hafi viðkomandi forsjá og barn býr hjá honum samkvæmt lögmætri skipan, s.s. skv. lögheimilisskráningu. Hægt er að krefjast úrskurðar sýslumanns um meðlag eitt ár aftur í tímann nema alveg sérstakar ástæður leyfi annað. Meðlag á að ákvarða með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar með talið aflahæfi samkvæmt 2. mgr. 57. gr. barnalaga. Þetta þýðir að meðlag á að taka tillit til aflahæfis greiðanda og tekna hans og mega ekki vera umfram greiðslugetu viðkomandi.

Kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál