Mjög ósáttur við skiptastjóra eftir andlát móður

Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er ósáttur við skiptastjóra dánarbú móður sinnar. 

Sæll Sævar

Í mínu tilfelli er því þannig háttað að það er dómskipaður skiptastjóri dánarbús móður minnar eftir að einkaskiptum var hafnað af einum erfingja.
Sjö dögum fyrir andlát móður minnar var allt fé millifært af reikningum föður míns (sem að sjálfsögðu er þeirra sameign) yfir á reikning móður minnar, sem er ekki sami banki og föður míns, í þeim tilgangi að að ávaxta þeirra fé á sem bestan hátt.
Nú gerast hlutirnir hratt. Móðir mín veikist skyndilega og er látin sex dögum síðar.
Tveimur dögum eftir að móðir mín lést voru sömu upphæðir millifærðar aftur til baka á sama reikning og þær komu frá.
Nú vill dómskipaður skiptastjóri dánarbús móður minnar fá féð sem millifært var af reikningi hennar til föður míns millifært til baka á hennar reikning. 
Á dómskipaður skiptastjóri eitthvern rétt á þessu?

Kveðja, S

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll S. 

Við andlát manns tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, svo sem þeim fjármunum sem vísað er til í spurningu þinni, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Að sama skapi tekur dánarbúið við fjárhagslegum skyldum. Hlutverk skiptastjóra er fyrst og fremst að leita upplýsinga um hvaða eignir tilheyri búinu, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra. Á honum hvílir skylda til að tryggja varðveislu eigna og taka við umráðum þeirra ef nauðsynlegt er.

Í lögum um skipti á dánarbúum o.fl. er mælt fyrir um sérstakar reglur sem eiga við þegar sá látni hefur verið í hjúskap. Í þeim tilvikum skal greina milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Hið sama gildir um skuldir. Meginreglan er sú að eign einstaklings í hjúskap teljist hjúskapareign hans. Þetta á við um eignir sem einstaklingurinn átti þegar hann gekk í hjúskapinn, eignir sem hann eignast meðan á hjúskapnum stendur sem og eignir sem koma í stað annarra hjúskapareigna hans. Einnig telst sem hjúskapareign verðmæti sem verða til fyrir tilvist hjúskapareignar, s.s. arður af verðbréfum og vextir af innlánum. Aðili sem heldur því fram að eign sé annað en hjúskapareign ber almennt sönnunarbyrðina fyrir því.

Með vísan til framangreinds varð því til sérstakur lögaðili, þ.e. dánarbúið, þegar andlátið bar að garði. Á því tímamarki voru fjármunirnir eign búsins, sem sagt inn á reikningi móður þinnar. Hvort skiptastjórinn eigi rétt á kröfu sinni veltur því á því hvort sérstök atvik leiði til þess að fjármunirnir skuli undanskildir skiptum, s.s. sérstakur samningur eða hvort um sé að ræða hjúskapareign eða séreign.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál